Broddflugan veitir aðhald!

Því hefur oft verið haldið fram að hagsmunir allra hluthafa fyrirtækja, stórra sem smárra (hluthafa þ.e.a.s.), fari alltaf saman. Þess vegna þurfi smærri hluthafar ekki að hafa áhrif á stjórn fyrirtækja né heldur á ákvarðanir hluthafafunda, eðli málsins samkvæmt gæti stóru hluthafarnir hagsmuna hinna smærri.

Ég er ekki endilega sammála þessu og tel mjög mikilvægt að smærri hluthafar eigi sér málsvara sem veitir hinum stærri aðhald. Á Íslandi hefur Vilhjálmur Bjarnason tekið þetta vanþakkláta hlutverk að sér og hér í Svíþjóð eru til mjög áhrifarík og öflug samtök hluthafa, Aktiespararna, sem sinna aðhaldshlutverkinu. Í Bandaríkjunum hefur ein kona verið í fararbroddi í baráttu smærri hluthafa fyrir vönduðum stjórnarháttum fyrirtækja og réttindum hluthafa. Sú heitir Evelyn Y. Davis, stundum kölluð Queen of the Corporate Jungle.

Fyrir rúmu ári síðan fjallaði ég um þessa litríku konu í viðskiptablaði Morgunblaðsins og ég held ég geti fullyrt að sjaldan hefur mér þótt jafn gaman að skrifa grein og þegar þessi var í vinnslu. Greinina má lesa hér að neðan en fyrst bendi ég þeim sem þetta lesa á að kíkja á myndband með Evelyn Davis á Youtube. http://www.youtube.com/watch?v=L0PDEKlVa5E

Broddflugan Evelyn Y. Davis

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

Mikla athygli vakti fyrr á árinu þegar Vilhjálmi Bjarnasyni, formanni Samtaka fjárfesta, tókst á aðalfundi Spron að berja í gegn tillögu um að laun stjórnarmanna félagsins yrðu lækkuð miðað við tillögu þá sem stjórn þess hafði sett fram. Vilhjálmur hefur lengi barist fyrir því að hagsmuna minni hluthafa fyrirtækja sé gætt, m.a. á hluthafafundum, en þrátt fyrir að hann hafi verið dugmikill í þessari virðingarverðu baráttu sinni er ljóst að hann á langt í land með að ná þeim árangri eða áhrifum sem öldruð kona í Bandaríkjunum hefur náð. Sú heitir Evelyn Y. Davis og hefur oft verið nefnd drottning „fyrirtækjafrumskógarins.“

Evelyn þessi er orðin 78 ára gömul og hefur allt frá árinu 1960 verið áberandi á hluthafafundum bandarískra fyrirtækja. Ætla má að sjaldan hafi hún haft jafnmikið að gera og nú. Mikið hefur verið deilt á stjórnendur og stjórnir fyrirtækja vestanhafs fyrir að skammta sér vænar launagreiðslur og kaupauka og því er líklegt að gósentíð sé hjá þeim sem veita slíkum aðilum virkt aðhald.

Í sundbol á aðalfundum

Frú Davis var lengi vel álitin sérvitur í meira lagi og jafnvel stórundarleg en henni hefur engu að síður tekist að vinna sér inn mikla virðingu í Bandaríkjunum. Henni hefur enda margoft tekist að knésetja stjórnendur stórfyrirtækja í mörgum þeim mála sem hún hefur barist fyrir. Sem dæmi má nefna að fyrir fimm árum féllst stjórn lyfjaframleiðandans Bristol-Myers Squibb, sem er í 255. sæti á nýjasta lista Forbes yfir stærstu skráðu fyrirtæki heims, á þá kröfu Davis að allir stjórnarmenn yrðu kosnir árlega. Slíkt væri ef til vill ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún hóf baráttu sína árið 1985 og hafði því barist fyrir þessari breytingu hjá Bristol-Myers í 18 ár. „Að halda tillögunni á lífi var einstakt afrek,“ sagði Robert Hutchison, talsmaður Bristol-Myers í samtali við USA Today á þeim tíma.

Ekki er nóg með að Davis hafi tekist að beygja stjórn lyfjafyrirtækisins því um svipað leyti tók stjórn útgáfurisans Dow Jones sams konar ákvörðun og vísaði til baráttu þessarar kjarnakonu. Fleiri fyrirtæki fylgdu síðan í kjölfarið.

Eins og segir hér að framan hefur Evelyn Davis oft verið álitin sérvitur og stórundarleg og má kannski að einhverju leyti rekja það til þess að hún hefur gjarnan mætt skrautlega klædd á hluthafafundi, í þessu samhengi eru aðalfundir flokkaðir undir hluthafafundi enda eru þeir ekkert annað – eini munurinn er sá að aðalfundir eru árvissir viðburðir. Davis hefur t.d. mætt klædd í þröngum stuttbuxum (e. hot pants), sundfötum og einkennisbúningi skurðlæknis á hluthafafundi og segir hún ástæðuna fyrir þessum uppátækjum vera þá að hún þurfi að ná athygli fundarmanna. Hvort sem hún er undarleg eður ei eða bara það sem kallast kynlegur kvistur, er ljóst að henni hefur tekist að ná athyglinni og að margir hafa notið góðs af starfi hennar. Þrátt fyrir það er hún ekki í forsvari fyrir nein samtök en „enginn þekkir fyrirtæki Bandaríkjanna jafn vel og Evelyn Y. Davis,“ eins og hún segir sjálf. Sérviskan hefur einnig reynst henni til framdráttar. „Öflugasta vopn hennar er að henni er hjartanlega sama um hvað öðrum finnst um hana þannig að hún er tilbúin að vera ruddaleg, að trufla, að vera ráðrík og gera nokkurn veginn hvað sem er til þess að ná athyglinni,“ segir Randall Tobias, fyrrum forstjóri Eli Lilly, annars stórs lyfjafyrirtækis.

Lifði af helförina

Evelyn Y. Davis hefur búið í Bandaríkjunum allt frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari, þ.e. í meira en 60 ár, en hún er þó fædd „vitlausum megin við hafið,“ eins og það heitir í æviágripi hennar á heimasíðu bandaríska fjármálaeftirlitsins, SEC. Fátt segir kannski meira um þau áhrif sem Davis hefur haft vestanhafs á undanförnum áratugum en einmitt það að SEC skuli sjá ástæðu til þess að skella æviágripi hennar á vef sinn, því eftir því sem blaðamaður kemst næst hefur frú Davis aldrei þegið laun frá þeirri merku stofnun. En hvað um það, eins og áður segir er Davis fædd í Evrópu, nánar tiltekið í Amsturdammi árið 1930. Hún er gyðingur og flokkast því til þeirra sem lifðu helför nasista af. Hún hefur sagt frá því að árið 1942 hafi hún ásamt móður sinni og bróður verið handtekin og send í þrælkunarbúðir þegar faðir hennar var í viðskiptaferð handan Atlantshafsins. Þau lifðu hins vegar öll af vistina og fluttust til Bandaríkjana að stríðinu loknu.

Davis lauk framhaldsskólanámi í Maryland-fylki árið 1947 og þaðan lá leið hennar í George Washington-háskólann, einkaháskóla sem staðsettur er aðeins fjórum húsaröðum frá Hvíta húsinu, en þar lærði hún viðskiptafræði.

Faðir hennar var læknir við Johns Hopkins-háskólann í Baltimore og ljóst er að hann var ágætlega efnaður því nám við einkaskóla á borð við George Washington er ekki ódýrt. Jafnframt segir sagan einnig að ferill Evelyn sem fjárfestis hafi hafist þegar hún erfði verðbréf við andlát föður síns og í nokkurra ára gamalli grein í St. Petersburg Times (sem er staðarblaðið í St. Petersburg í Flórída en ekki Pétursborg í Rússlandi) kemur fram að hún hafi mætt á sinn fyrsta aðalfund árið 1959, hjá IBM. Ef til vill hefur hún látið lítið fyrir sér fara á þeim fundi þar sem hún segist sjálf hafa fyrst látið fyrir sér finna á slíkum fundum árið 1960.

Baunaði á Bill

Í áðurnefndri grein í St. Peterburg Times er að finna stórskemmtilega lýsingu blaðamanns af samskiptum Davis við Bill Harrison, þáverandi forstjóra JP Morgan Chase – bankans sem keypti Bear Stearns fyrr á þessu ári – á aðalfundi bankans sem haldinn var í Tampa í Flórída árið 2002. Afkoma bankans árið áður hafði verið afleit og gengi hlutabréfa hans hafði fallið um 20% en þrátt fyrir það hafði Harrison þegið 10 milljón dala aukakaupauka, 80% aukningu á milli ára. Eins og gefur að skilja var söguhetjan okkar ekki par ánægð með slíkt framferði og flaug hún því frá heimaborg sinni, Washington, til Tampa til þess að láta Harrison heyra það.

Blaðamaðurinn lýsir því hvernig Harrison, sem er hávaxinn maður og naut mikillar virðingar, hélt erindi sitt yfir aðalfundargestum en síðan greip Davis fram í fyrir honum.

„Í augum margra hinna rúmlega 200 hluthafa sem ekki vissu hver hún er og starfsmanna JP Morgan Chase á svæðinu sem sóttu fundinn lítur Davis út fyrir að vera sæt amma. Ó, hugsa þeir, hér er annar lítill hluthafi sem hættur er störfum sem vill spyrja saklausrar spurningar.

Harrison, sem stendur í pontu veit betur. Líkamstjáning hans bendir til þess að hann sé að koma sér í stellingar, ákafur í að halda stjórn á hluthafafundinum án þess að missa kúlið eða verða móðgandi. Handleggir hans eru krosslagðir. Á hann í erfiðleikum með að anda?“ segir í grein blaðsins og síðan lýsir blaðamaður því hvernig hin smávaxna Davis tekur til máls og baunar erfiðum spurningum á forstjórann. Þess má geta að þegar hún talar er germönskuskotinn hreimur hennar mjög áberandi og röddin frekar skræk, nokkuð sem blaðamaður St. Petersburg Times segir vera mjög öflugt vopn þegar hún hefur hljóðnema í hendi. Raunar má benda lesendum þessa greinarkorns á að slá Evelyn Davis upp í leitarvélum á netinu því þar má finna myndbrot, t.d. á Youtube, þar sem hún lætur gamminn geysa, því vel má skemmta sér yfir því um stund. Þess má geta að í lok fundarins mun Harrison hafa spurt Davis hvort hún hefði fleiri spurningar og ekki stóð á svarinu: „Já, hvernig kemst ég út á flugvöll?“ Eins og gefur að skilja uppskar hún mikinn hlátur og þegar Harrison sagðist myndu láta starfsmann bankans aka henni á flugvöllinn tók við hátt og langt lófatak.

Fjarri því sest í helgan stein

Davis hefur allt frá árinu 1965 gefið út tímaritið Highlights and Lowlights þar sem hún fjallar um stjórnhætti, hugðarefni sitt, og hún hefur um árabil verið gestafyrirlesari við hina og þessa háskóla vestanhafs, m.a. Yale. Ekki þarf að koma á óvart að efni fyrirlestranna er stjórnhættir fyrirtækja. Hún er vellauðug og stofnaði árið 1989 góðgerðarstofnunina Evelyn Y. Davis Foundation sem létur fé af hendi rakna til hinna og þessara góðra málefna. Þrátt fyrir það er þessi kjarnakona þó fjarri því sest í helgan stein enda á boðskapur hennar ef til vill meira erindi nú en um langt skeið.

Í nýlegu viðtali á CNBC, sem einnig má sjá á netinu, bendir Davis m.a. á að stórir bankar á borð við Citigroup og áðurnefndan JP Morgan Chase hafi ákveðið að halda aðalfundi sína á sömu dögum og önnur fyrirtæki. Yfirleitt hafa bankarnir passað upp á vera einir um athyglina. Þetta segir Davis vera til marks um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera og fjölmiðlar og greinendur ættu að vera á varðbergi. Og hananú!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Því hefur oft verið haldið fram að hagsmunir allra hluthafa fyrirtækja, stórra sem smárra (hluthafa þ.e.a.s.), fari alltaf saman."

Það eru nú ljótu þokuheilarnir sem halda svona vitleysu fram! 

Gulli (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 15:31

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Svona fer það þegar menn einfalda heiminn of mikið eins og flestum hagfræðingum hættir til að gera, þá týnist rökhugsunin stundum.

Guðmundur Sverrir Þór, 23.8.2009 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband