Ivar Kreuger: Maðurinn sem breytti Svíþjóð

kreuger_920789.jpgÞegar ég hóf grunnnamið í hagfræði hér í Svíþjóð, á vorönn 2002, var rekstrarhagfræði fyrsta fagið sem ég sat. Um mánuði eftir að kúrsinn hófst tilkynnti kennarinn okkar að þann dag væru liðin 70 ár frá fráfalli Ivars nokkur Kreuger (borið fram Krüger) en segja má að enginn sænskur kaupsýslumaður, fyrr og síðar, hafi verið umfangsmikill og áhrifamikill og sá herramaður. Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að í þessum fyrirlestri skaut upp kollinum eldri maður sem sat á fremsta bekk allan tímann. Hann hafði aldrei sést áður í tímum í faginu og sást aldrei aftur. Auðvitað furðuðum við okkur á þessu en komumst svo að þeirri niðurstöðu að þetta hlyti að hafa verið vofa Kreugers.

Nýlega var ég minntur á að í mars 2007, skömmu eftir að 75 ár voru liðin frá fráfalli Kreugers, skrifaði ég um hann prófílgrein í Viðskiptablað Morgunblaðsins. Ég hef oft hugsað um það síðan að mikil líkindi voru með honum og mörgum af íslensku útrásarskáldunum, eftir honum var tekið um allan heim og hann notaði auk þess mjög flókna fjármálagerninga til þess að fjármagna starfsemi sína. Sem dæmi má nefna participating debentures (sjá betur í greininni að neðan) en eftir því sem ég best veit hafa slíkir gerningar verið bannaðir í Svíþjóð frá falli Kreugers.

Greinin hér á eftir birtist hinn 12. mars 2007:

Maðurinn sem breytti Svíþjóð

Nýlega voru liðin 75 ár frá dauða sænska athafnamannsins Ivar Kreuger. Fráfall hans hafði gífurleg áhrif á sænskt samfélag, eins og Guðmundur Sverrir Þór komst að.

Hinn 12. mars 1932 fannst maður liggjandi í rúmi á íbúð sinni í París, höfuðborg Frakklands. Hann hafði verið skotinn í brjóstið. Dauði þessa manns átti eftir að hafa gífurleg áhrif á sænskt samfélag. Hann hafði í för með sér gjaldþrot fjölda fjölskyldna sem beint eða óbeint höfðu treyst honum fyrir öllu sparifé sínu og varð auk þess til þess að ryðja braut jafnaðarstefnunnar sem gnæft hefur yfir aðrar stjórnmálastefnur í Svíþjóð alla tíð síðan. Síðast en ekki síst varð dauði mannsins til þess að Wallenberg-ættin náði að sölsa undir sig öll völd í sænsku viðskiptalífi.

Maðurinn hét Ivar Kreuger og áhrif hans náðu langt út fyrir landamæri Svíþjóðar. Hann réð á tímabili þremur fjórðu af allri eldspýtnaframleiðslu heimsins og var þess vegna gjarnan kallaður eldspýtnakóngurinn.

Úr byggingariðnaði í eldspýtur

Ivar Kreuger fæddist í Kalmar í suðausturhluta Svíþjóðar 2. mars árið 1880. Faðir hans var umfangsmikill bankamaður og iðnjöfur og má víst telja að áhrifa þess hafi gætt í uppeldi sonarins. Hann lauk framhaldsskólanámi 16 ára gamall og lá leiðin beint í Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi en þaðan útskrifaðist hann með tvær meistaragráður í verkfræði aðeins 20 ára gamall. Að námi loknu tók við sjö ára ferðalag um heiminn þar sem hann starfaði sem verkfræðingur m.a. í Bandaríkjunum, Mexíkó og S-Afríku en árið 1908 kom hann heim til Svíþjóðar og stofnaði byggingafyrirtæki Kreuger & Toll ásamt öðrum sænskum verkfræðingi, Paul Toll.

Í Bandaríkjunum vann Kreuger meðal annars að byggingu fyrsta skýjakljúfsins á Manhattan, Flatiron Building, en við það verk lærði hann að nota stálstyrkta steypu. Þessi þekking hans var eftirsótt í Svíþjóð og vakti fyrirtæki þeirra félaga því fljótt athygli. Eftir það standa margar merkar byggingar í Stokkhólmi, t.d. ólympíuleikvangurinn, ráðhús borgarinnar og verslunarhúsið Nordiska Kompaniet sem síðast komst í heimsfréttirnar þegar Anna Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, var myrt þar haustið 2003.

Fimm árum eftir stofnun Kreuger & Toll varð mikil stefnubreyting í fyrirtækinu þegar leitað var til Kreuger um að endurskipuleggja eldspýtnaverksmiðjurnar í Kalmar. Hann tók verkefninu og í hönd fór tími mikilla samruna og fyrirtækjakaupa sem lauk árið 1917 með stofnun Svenska Tändsticks Aktiebolaget (STAB). Um svipað leyti skildi leiðir þeirra Kreuger og Toll en þeir skiptu fyrirtæki sínu upp í tvo hluta; annars vegar byggingafélagið Kreuger & Toll, sem Toll hélt áfram að reka, og hins vegar eignarhaldsfélagið Kreuger & Toll, sem Kreuger átti og rak. Paul Toll kemur ekki meira við sögu í grein þessari og framvegis er átt við eignarhaldsfélagið þegar talað er um Kreuger & Toll.

Á undan sinni samtíð

Með stofnun STAB var grunnurinn lagður að uppbyggingu enn stærra veldis. Á næstu árum gaf fyrirtækið út hlutabréf og skuldabréf sem notuð voru til fjármögnunar á enn frekari fjárfestingum og samrunum í eldspýtnafyrirtækjum en jafnframt keypti Kreuger fasteignir, námur og önnur iðnfyrirtæki víða um heim.

Eitt þessara fyrirtækja var sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson, sem í dag er talið eitt allra mikilvægasta fyrirtæki sænska hagkerfisins. Kreuger keypti hlut í fyrirtækinu og lagði því til fjármagn sem var rekstrinum afar nauðsynlegt en Ericsson hafði tapað miklum fjármunum þegar fjárfestingar fyrirtækisins í austurvegi urðu verðlausar í kjölfar rússnesku byltingarinnar árið 1917. Eignarhlutur Kreuger & Toll í Ericsson óx jafnt og þétt og ekki leið á löngu uns félagið eignaðist meirihluta hlutafjár í félaginu. Þegar við lítum til fortíðar, 75 árum eftir fráfall Kreugers, er ljóst að fjárfesting hans í Ericsson hefur gífurlegt mikilvægi í sögu sænsks efnahagslífs en víkjum nánar að því síðar.

Önnur stórfyrirtæki dagsins í dag sem Kreuger kom að eru kúluleguframleiðandinn SKF, skógarvinnslufyrirtækið SCA – sem varð til þegar Kreuger sameinaði mörg skógarvinnslufyrirtæki í sinni eigu – og Boliden, eitt helsta námafyrirtæki Evrópu í dag.

Viðskiptaaðferðir hans voru á margan hátt ekkert ósvipaðar því sem gerist í dag, eins og dæmin um STAB og SCA sýna en þar náði hann völdum í nokkrum fyrirtækjum innan sömu atvinnugreinarinnar, sameinaði þau og hagræddi í rekstrinum. Fjár aflaði hann m.a. með því að gefa út nýtt hlutafé og skuldabréf sem á íslensku mætti nefna þátttökuskuldabréf (e. participating debentures). Þau skuldabréf munu vera þess eðlis að kaupandinn fær að veði hlut í eigin fé fyrirtækisins. Enn fremur tók hann lán með hlutafé að veði. Þetta hljómar eflaust kunnuglega í eyrum einhverra enda tíðkast þessar aðferðir í mun meiri mæli í dag en þá og má ef til vill segja að Kreuger hafi að einhverju leyti verið á undan sinni samtíð.

Kreppan varð honum að falli

Árið 1929 var Ivar Kreuger á toppi veraldar eins og það heitir vestanhafs. Hann stóð ekki einungis í fyrirtækjarekstri og fjárfestingum heldur var hann einnig orðinn stórtækur í fjármögnun. Og það voru engir smáaðilar sem hann fjármagnaði. Sem dæmi má nefna að hann lánaði franska ríkinu 75 milljónir Bandaríkjadala, því þýska 125 milljónir dala og því rúmenska 28 milljónir dala. Skilyrðin fyrir lánunum voru þau að STAB fengi einkaleyfi á eldspýtnasölu í landinu. Þessar upphæðir þykja ef til vill háar en þess má geta að árið 1929 var Kreuger sennilega auðugasti maður heims og hefur auður hans þetta ár verið metinn á um 30 milljarða sænskra króna á þávirði. Sú upphæð jafngildir um 100 milljörðum Bandaríkjadala á verðlagi ársins 2000 en til samanburðar má nefna að auður Bill Gates er metinn á um 56 milljarða dala og er auðugasti maður heims í dag því aðeins hálfdrættingur á borð við Kreuger þegar best lét.

Ferill Kreugers minnir helst á ævintýri eða lygasögu úr Hollywood en öll ævintýri þurfa einhvern tímann að enda og það gerði ævintýri milljarðamæringsins sænska einnig. Eins og lýst er hér að framan byggði veldi hans að miklu leyti á auðveldu aðgengi að fjármagni, og á háu gengi hlutabréfa. En síðan kom áfallið.

Þriðjudagurinn 29. október 1929 hefur oft verið nefndur svarti þriðjudagurinn og þótt ekki séu allir á einu máli um hvort hann hafi markað upphaf kreppunnar miklu er ljóst að hann markaði upphafið á endalokum Ivars Kreugers. Hlutabréfaverð féll og aðgangur að fjármagni varð afar takmarkaður. Virði skuldabréfa þeirra sem hann hafði gefið út féll um 90% á tveimur árum.

Smám saman komst Kreuger í lausafjárþrot en árið 1931 kom sænski seðlabankinn honum tímabundið til bjargar eftir mikinn þrýsting sænska forsætisráðherrans CG Ekman. En útreikningar bankans sýndu að um 125 milljónir sænskra króna vantaði til þess að Kreuger & Toll gæti staðið við skuldbindingar sínar á árinu 1932 eingöngu. Í stað þess að horfast í augu við lánardrottna sína kaus Ivar Kreuger að svipta sig lífi hinn 12. mars 1932 en þeir eru enn til sem halda því fram að hann hafi verið myrtur. Úr því fáum við aldrei skorið en víst er að hinn ævintýralegi ferill þessa manns heldur áfram að heilla þá sem skoða söguna.

Breytti sænsku samfélagi

Fráfall Kreugers hafði eins og áður sagði gífurleg áhrif á sænskt samfélag. Stuttu fyrir þingkosningar ársins 1932 varð flokkur áðurnefnds CG Ekman uppvís að því að hafa þegið miklar fjárhæðir frá eldspýtnakónginum. Þetta varð flokknum að falli í kosningum og Jafnaðarmannaflokkurinn undir forystu Per-Albin Hansson komst til valda. Að undanskildum nokkrum sumarmánuðum árið 1936 hélt flokkurinn völdum í 44 ár.

Dauði Kreugers varð jafnframt til þess að rétta völdin í sænsku viðskiptalífi í hendur Wallenberg-ættarinnar sem hefur haldið þeim alla tíð síðan. Wallenberg-ættin átti Skandinaviska Enskilda Banken (sem í dag er almennt kallaður SEB og er næststærsti banki Svíþjóðar á eftir Nordea) en bankinn hafði einmitt verið í fararbroddi þeirra sem lánuðu Kreuger og tóku hlutafé að veði. Þannig náði ættin valdastöðu í fyrirtækjum á borð við Ericsson og SKF sem nánast alla 20. öldina hafa verið leiðandi öfl í sænsku atvinnulífi og eru enn.

Í hnotskurn
» Ivar Kreuger vann að byggingu fyrsta skýjakljúfsins á Manhattan.
» Þegar best lét var auður hans metinn á um 100 milljarða dala á núvirði.
» Kreugur lánaði ríkisstjórnum fé gegn einkaleyfi á eldspýtnasölu.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Þór Aðalsteinsson

Merkilegur fýr. Sænskt viðskiptalíf komst í hendur Wallenberganna en það íslenska er á góðri leiða að falla í skaut íslensku ríkisbankanna.

Eggert Þór Aðalsteinsson, 10.10.2009 kl. 21:53

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Hann var það svo sannarlega, stórmerkilegur.

Á Íslandi eru engir Wallenbergar eftir, það er hluti vandans. 

Guðmundur Sverrir Þór, 12.10.2009 kl. 07:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband