Hetja í Svíþjóð

Reiði Svía var ekki minni en reiði Ara Abrahamian þegar hann tapaði undanúrslitaglímunni í Peking. Augljóst þótti að dómarinn hefði beitt hann órétti en þar sem ég kann lítið um svona glímu ætla ég ekki að tjá mig þar um. Sérstaklega sveið Svía þetta þar sem Ara var stærsta gullvonin fyrir leikana.

Það þarf vart að taka fram að hann er þjóðhetja hér í landi eftir leikana í Peking.


mbl.is Mótmælandinn fær ekki bronsverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott PR hjá forsætisráðuneytinu

Þegar ég starfaði sem ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu GCI Iceland um nokkurra mánaða skeið lærði ég það að góð regla í almannatengslum, eða PR, væri að stinga upp í menn þegar þeir tækju sér of stór orð í munn. Þetta er svo sem ekki ósvipað því sem börn læra af reynslunni í sandkassanum, þ.e. að besta leiðin til þess að eiga við hrekkjusvínið sé að standa uppi í hárinu á því.

Forsætisráðuneytið stakk rækilega upp í Geir H. Haarde með birtingu þessara bréfa. Það var gott PR og nú er spurning hvort Geir birti samskipti sín við Poul Thomsen. Ljóst er að einhvers staðar hefur orðið misskilningur.

Viðbót: Í frétt á Eyjunni kemur fram að sjálfstæðisflokkurinn hefur birt samskipti þeirra Geirs H. Haarde og Poul Thomsen. Af þeim er ljóst að misskilningur hefur orðið og ekki við Geir að sakast. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í bréfi Thomsen tók Geir alls ekki of stórt upp í sig.


mbl.is Tölvupóstsamskipti við gjaldeyrissjóðinn birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of snemmt að segja um langtímaáhrif evruaðildar

Efnahagserfiðleikar Íra verða án nokkurs vafa vatn á myllu andstæðinga Evrópusambandsaðildar Íslands enda mjög hentug að benda á að þrátt fyrir aðild að ESB eigi Írar í miklum vanda.

Ég ætla ekki að þykjast vera einhver sérfræðingur í írskum efnahagsmálum enda hef ég svo sem lítið kynnt mér írska hagkerfið. Úr grunnnáminu í hagfræði minnist þess þó að írska efnahagsundrið (Írland hefur verið kallað keltneski tígurinn með vísan til tígrishagkerfa Asíu) er að stórum hluta til komið vegna þess að hagkerfið var opnað upp á gátt, ekki ósvipað því íslenska. Reyndar var gengið enn lengra en á Íslandi, t.d. var búið til frísvæði í Shannon (og a.m.k. eitt til viðbótar ef mig misminnir ekki).

Hagkerfið hefur því þanist út á undanförnum áratugum, aðild landsins að Myntbandalaginu hefur ýtt enn frekar undir þensluna, og því þykir mér ekkert ólíklegt að hagkerfið sé einfaldlega orðið mun stærra en efni standa til. Írland er ekki, ekkert frekar en Ísland, það stórt hagkerfi að það geti til lengdar staðið af sér þann öldugang sem nú ríkir í heimshagkerfinu - sérstaklega ef of geyst hefur verið farið í þenslunni.

Írland varð aðili að Myntbandalaginu í góðæri og því er eflaust ólíklegt að hagkerfið sé ennþá búið að aðlagast hagsveiflu meginlandsins (sync-a eins og það heitir á tæknimáli) enda eðlilegt að ætla að slíkt gerist ekki fyrr en eftir fyrstu niðursveifluna. Að mínu mati er því heldur snemmt að segja til um hver langtímaáhrif evrunnar á írska hagkerfið eru - hvort evran reynist sá öryggispúði sem hún getur verið eður ei.


mbl.is Óttast að Írland verði gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndir frá OECD

Fyrir rétt tæpu ári síðan, nánar tiltekið hinn 28. febrúar 2008, sat ég blaðamannafund sem fulltrúar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) héldu á Grand Hotel í Reykjavík. Þar voru þeir að kynna skýrslu sína um stöðu íslenska hagkerfisins og hugmyndir um hvað betur mætti fara.

Meðal þess sem þar var fjallað um var einmitt að lækka lyfjakostnað ríkisins og miðað við frétt mbl.is voru tillögur OECD nokkurn veginn þær sömu og reglugerðin sem nú hefur verið kynnt. Að mínu mati eru þessar aðgerðir af hinu góða, þær spara peninga en eru mun sársaukaminni en t.d. uppsagnir eða lokanir og skerða að sama skapi ekki þjónustu heilbrigðiskerfins að neinu leiti.

Guðlaugur Þór Þórðarson var heilbrigðisráðherra þegar Val Koronzay og félagi hans frá OECD kynntu tillögur sínar og ég sé af annarri bloggfærslu við þessa frétt að reglugerðin hafi verið tilbúin í heilbrigðisráðuneytinu áður en stjórnarskiptin urðu. Hvers vegna í ósköpunum var hún ekki sett í framkvæmd? Það er til lítils að setja svona plögg ofan í skúffu. Fyrir vikið hefur Ögmundi tekist að skora stig á kostnað sjálfstæðismanna, sem er gott.

Að lokum vil ég segja að ég tel að stjórnvöld myndu gera vel í að ráða áðurnefndan fulltrúa OECD sem ráðgjafa sinn, hann er hættur störfum hjá stofnuninni en mér er sagt að hann hafi fylgst með á Íslandi í nokkra áratugi og þekki vel til.


mbl.is Lyfjaútgjöld lækka um milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er niðurskurður rétta leiðin?

Mikið er rætt um niðurskurð hjá hinu opinbera um þessar mundir. Ljóst er að umsvif ríkisins hafa aukist verulega á undanförnum árum og í venjulegu árferði er enginn vafi á að skera bæri niður en nú er fráleitt venjulegt árferði og ég er alls ekki viss um að niðurskurður sé rétt leið.

Niðurskurður mun óhjákvæmilega fela í sér að störfum fækkar og atvinnulausum því fjölga. Nú eru tæplega 15 þúsund manns á atvinnuleysisskrá skv. vef Vinnumálastofnunnar og öllum er ljóst að uppsögnum í einkageiranum er ekki lokið. Því er spurning hvort æskilegt sé að ríkið sé einnig að segja upp. Að mínu mati er miklu nær að ráðast í opinberar framkvæmdir en mikilvægt er að þær framkvæmdir miði að því að efla samfélagið, sem dæmi má nefna Sundabraut og ýmsar gangaframkvæmdir sem víða er þörf. Um daginn var ákveðið að reisa menningarhús í Vestmannaeyjum og ég tel slíkar ákvarðanir til fyrirmyndar.

Ég fæ ekki séð hvernig niðurskurður hjá hinu opinbera ofan í allt annað sem gengið hefur á í samfélaginu á að snúa hjólum hagkerfisins í gang, ekki nema ákveðið verði að nota það fé sem sparast til opinberra fjárfestinga.


mbl.is LSH á að skera niður um 3 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver var hagfræðingur ársins?

Sennilega verðskuldar enginn það jafnmikið og Vilhjálmur Bjarnason að vera valinn viðskiptafræðingur ársins og hamingjuóskir eru við hæfi. Starf hans til þess bæta íslenskan verðbréfamarkað er ómetanlegt, hann er einn þessara eldhuga sem heimurinn má ekki vera án. Ég velti því þó fyrir mér hvort hann hefði orðið fyrir valinu hefði íslenska bankakerfið ekki hrunið í haust.

Að lokum ein spurning á léttari nótunum: Hver var valinn hagfræðingur ársins? Er þetta ekki mismunun?


mbl.is Vilhjálmur verðlaunaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg ákvörðun

Umsögn seðlabanka Evrópu, ECB, um Seðlabankafrumvarpið hefði án nokkurs vafa verið gagnleg en ég get samt skilið að henni hafi verið hafnað. Ljóst er að ríkisstjórninni liggur á að koma þessu frumvarpi í gegn, því lengur sem karpað verður um það því minni tími gefst til þess að koma öðrum mikilvægum, jafnvel mikilvægari málum í gegn um þingið.

Að bíða eftir umsögn ECB tæki áreiðanlega nokkra daga til viðbótar og á meðan myndi Seðlabankafrumvarpið hvíla eins og mara yfir þinginu.

Það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli allt í einu vera áfjáðir í að eiga svona náin samskipti við eina af lykilstofnunum Evrópusambandsins. Það skyldi þó aldrei vera að þeir sjái sér leik á borði til þess að tefja málið?


mbl.is Afþökkuðu umsögn Seðlabanka Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði Seðlabankans

Fram kemur í frétt á vef RÚV að viðskiptanefnd Alþingis hafi verið rætt um að bæta ákvæði um möguleika á uppsögn seðlabankastjóra í frumvarpið fræga um Seðlabankann.

Að mínu mati er það mjög óráðlegt að hafa slíkt ákvæði í frumvarpinu þar sem það dregur verulega úr sjálfstæði Seðlabankans og um leið tilraunum til þess að bæta trúverðugleika hans. Seðlabankastjóri þarf stundum að taka erfiðar ákvarðanir sem ekki endilega falla í kramið hjá stjórnmálamönnum, t.d. ríkisstjórn, og það mun hann ekki gera ef hann þarf að hafa áhyggjur af því að missa starfið.

Þetta er nákvæmlega það sama og IMF á við í umsögn sinni þegar þeir telja óheppilegt að menn sitji skemur í peningastefnunefnd en sá sem þá skipar. Þeir munu síður taka ákvarðanir sem ganga gegn vilja þess er skipar í nefndina.

Eðlilegra er að stytta skipunartíma seðlabankastjóra sem þá getur bara setið í eitt "kjörtímabil."


mbl.is Ábendingar IMF styrkja frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skotin í Sarajevó

Þegar ég lærði mannkynssögu í grunnskóla var okkur kennt að skotin í Sarajevó, morðið á Franz Ferdinand og konu hans árið 1914, hafi valdið fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar svo var komið í menntaskóla og ég tala nú ekki um í sagnfræðinám í Háskólanum var farið aðeins dýpra í málið og þá kom í ljós að skotin í Sarajevó voru neistinn sem sprengdi púðurtunnuna, morðið á Franz Ferdinand gaf föður hans afsökun til þess að hefja stríðið sem lengi hafi verið að gerjast.

Hið sama gildir reyndar um hrunið í kauphöllinni í New York á svarta þriðjudeginu 29. október 1929. Því hefur verið kennt um kreppuna miklu. Hrunið orsakaði ekki kreppuna, hrunið varð þegar bólan sem hafði verið að þenjast út sprakk.

Ég er ansi hræddur um að grunnskólabörn framtíðarinnar fái að læra að ótryggu veðlánin í Bandaríkjunum (ég neita að tala um undirmálslán) hafi orsakað þá fjármálakreppu sem nú geysar um heiminn enda er almennt um það talað að kreppuna megi rekja til þessara lána, sbr. frétt mbl.is. Víða er talað um subprime crisis eða undirmálslánakreppuna og það er hætt við því að það nafn muni festast við kreppuna.

En auðvitað voru það ekki þessi lán sem orsökuðu kreppuna. Eignaverðsbólan var búin að vera að þenjast út um allan heim um nokkurra ára skeið. Ótryggu veðlánin urðu til þess að menn fóru að efast og þá sprakk bólan. Lánin voru neistinn sem kveikti í púðrinu.


mbl.is Bestu fréttamyndirnar valdar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamlegri leið

Niðurskurður á yfirbyggingu er að mínu mati töluvert betri leið, og sársaukaminni fyrir almenning, til þess að skera niður í heilbrigðiskerfinu en að leggja niður deildir eða jafnvel heilu stofnanirnar. Það skýtur enda skökku við að leggja niður deildir þegar skortur er á sjúkraplássum fyrir.

Það verður að teljast óvenjulegt á Íslandi að byrjað sé að ofan við niðurskurðinn en ég get ímyndað mér að ef vel er farið í saumanna á skipulagi heilbrigðiskerfisins megi finna fleiri leiðir til þess að spara í yfirbyggingu án þess að það bitni mikið á sjálfri heilbrigðisþjónustunni.


mbl.is Stjórnendum LSH fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband