Fullkomið gagnsæi og launaleynd

Þórlindur Kjartansson, hagfræðingur og formaður SUS, fjallar í ágætri færslu á bloggi sínu um þörfina á auknu gagnsæi á fjármálamörkuðum. Í nýrri færslu fjallar Þórlindur síðan um fyrirlestur sem hann sat um fullkomið gagnsæi.

Fullkomið gagnsæi, eða öllur heldur samhverfar upplýsingar, er eitt af frumskilyrðum hins blauta draums hagfræðinnar um fullkomna samkeppni og um leið fullkominn markað. Kannski er þetta eina frumskilyrðið sem raunhæft er uppfylla en ég efast um það. Fullkomið gagnsæi, útfrá sjónarhorni hagfræðinnar felur þetta einfaldlega í sér að ALLAR upplýsingar um markaðinn (í þessu tilviki rekstur viðkomandi fyrirtækis) séu aðgengilegar ÖLLUM markaðsaðilum (stjórnendum, starfsmönnum og öllum eigendum þess, stórum sem smáum, sem og öðrum fjárfestum sem ekki eiga hlut í fyrirtækinu) á sama tíma. Þannig þyrftu allir fundir að fara fram fyrir opnum tjöldum o.s.frv. og það er einfaldlega ógerlegt. Að mínu viti er fullkomið gagnsæi jafnfjarlægur draumur og fullkomin samkeppni og fullkominn markaður.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að Þórlindur gerir sér grein fyrir að fullkomið gagnsæi er óraunhæft og en get að öðru leyti tekið undir það sem hann segir um þörfina á auknu gagnsæi á fjármálamarkaði. Þó velti ég fyrir mér hvar hann vill draga mörkin. Eiga t.d. upplýsingar um launakjör allra starfsmanna fjármálafyrirtækja að liggja fyrir?

Á að gefa upp heildarlaunakostnað fyrirtækisins daglega? Á að láta upplýsingar um æðstu stjórnendur duga eða eiga allir að sitja við sama borð? Þótt það hljómi þversagnakennt brýtur launaleynd í bága við lögmálið um fullkomna samkeppni en þó er samkeppni meðal helstu röksemda fyrir launaleynd.

SUS hefur árum saman barist gegn því að upplýsingar um tekjur borgaranna séu lagðar fram hjá skattstjóra. Því má velta fyrir sér hvort samtökin ætli að láta af þessari baráttu.

 


Hundadagakreppan kom á óvart

Má ekki segja að ein skilgreining á hruni eða kreppu sé einmitt að það sé hröð þróun sem sérfræðingarnir sjá ekki fyrir?

Grínlaust þá verður að segjast að Volcker hefur rétt fyrir sér, sérfræðingar sáu alls ekki fyrir hve ört og djúp og fallið yrði. Þegar lækkunin á bandarískum hlutabréfamarkaði hófst 20. júlí 2007, ég hef í viðskiptablaði Morgunblaðsins talað um Hundadagakreppuna, var aðallega talað um að markaðurinn væri að endurmeta áhættu og að þróunin myndi snúa við tiltölulega skjótt. Einhverjir töluðu um vikur, aðrir mánuði og sumir sögðu í mesta lagi ár. Nú er liðið meira en eitt og hálft ár og ljóst er að botninum er langt í frá náð.

Það sem skilur þetta hrun frá öðrum á undanförnum áratugum er að nákvæmlega ekkert traust ríkir á mörkuðum. Traust er ekki yfirleitt ekki tölulega mælanlegt og því er það ekki tekið með í þau líkön hagfræðinga sem telja markaðinn munu laga þetta vandamál. Þess vegna tel ég að grípa verði inn í, t.d. með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í Bandaríkjunum og nauðsynlegt er að grípa til þensluhvetjandi aðgerða á Íslandi að mínu mati.

Ég veit að margir eru mér ósammála en það er engu að síður gaman að skiptast á skoðunum við þá hina sömu.


mbl.is Jafnvel sérfræðingar eru gáttaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og fleiri fara í kjölfarið

Illa rekin og ólífvænleg fyrirtæki verða gjaldþrota en önnur ekki. Til þess sér markaðurinn. Þetta er meðal þess sem ég lærði í grunnnámi í hagfræði og í venjulegu árferði er þetta að mestu leyti rétt, kannski svona 80% rétt.

Nú er árferðið hins vegar langt frá því að vera venjulegt og því má ljóst vera að mun fleiri fyrirtæki verða gjaldþrota á þessu ári en í fyrra. Og langt frá því öll eru illa rekin eða ólífvænleg. T.d. má gera ráð fyrir að mikill fjöldi lítilla sprotafyrirtækja sem enn eru á þróunarstiginu verði gjaldþrota einfaldlega vegna þess að aðgengi að fjármagni er ekkert.

Þetta verður að koma í veg fyrir. Í gær setti ég fram róttæka hugmynd hér á blogginu um hvernig má snúa hjólum hagkerfisins aftur í gang. Ég tel enn að þessa hugmynd megi skoða.

 


mbl.is 748 fyrirtæki gjaldþrota í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róttæk hugmynd

Spá Creditinfo um að tæplega 3.500 fyrirtæki fari í þrot er ekki til þess að auka á bjartsýni í íslensku efnahagslífi. Gefum okkur að hjá þessum fyrirtækjum starfi að meðaltali um 5 manns. Verði spáin að veruleika þýðir það að 17.500 manns verði atvinnulausir, til viðbótar við þá 15 þúsund sem nú þegar eru á atvinnuleysisskrá. Vissulega mun eitthvað af þessu fólki fá vinnu annars staðar en þá ber að hafa í huga að fleiri munu bætast á skránna frá fyrirtækjum sem ef til vill næst að bjarga. Allt þetta fólk mun væntanlega lenda í fjárhagsvandræðum með tilheyrandi afleiðingum.

Horfurnar eru sem sagt ekki bjartar og eitthvað þarf að gera til þess að reyna að koma atvinnulífinu í gang aftur. Ein hugmynd sem ég hef töluvert velt fyrir mér er hvort hægt sé að frysta bankakerfið í eitt ár miðað við einhvern dag. Ekki verður neitt greitt af lánum og engir vextir verða greiddir inn í bankakerfið og ekki út úr því heldur (miðað við stöðu bankakerfisins þegar frystingin verður. Öll viðskipti eftir það verða síðan eins og ekkert hafi í skorist). Um leið verður settur á skyldusparnaður, t.d. 30% af tekjum (einstaklinga og fyrirtækja), sem nota má til fjárfestinga í hagkerfinu. Restin er notuð til þess að fjármagna daglegan rekstur. Á þann hátt verður á ný til eftirspurn í hagkerfinu en ef marka má hræðslu manna við að verðhjöðnun sé framundan er ljóst að kynda verður undir eftirspurn.

Þetta er bara pæling og ég geri mér grein fyrir því að þetta gæti reynst dýr aðgerð sem ef til vill er ekki fýsileg. En eitthvað verður að gera því fórnarkostnaðurinn, þ.e. kostnaðurinn við að gera ekki neitt, gæti reynst enn meiri þegar upp er staðið.


mbl.is 3.500 fyrirtæki stefna í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

United að tryggja sér titilinn?

Ekki þykir mér líklegt að mínir menn í Liverpool nái að hrifsa enska meistaratitilinn úr höndum Alex Fergusson og hans vösku manna. United virðist einfaldlega of sterkt til þess að sleppa takinu. Auk þess kann liðið að vinna titla, nokkuð sem því miður er orðið of sjaldgæft á Anfield.

Sjáum samt til í vor.


mbl.is Man.Utd með fimm stiga forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saab á vonarvöl

Sennilega verður fátt til bjargar Saab í kjölfar þess að sænsk stjórnvöld höfnuðu því alfarið að taka í taumana. GM vill selja fyrirtækið ellegar leggja það niður og það eru reyndar fleiri bílmerki sem eiga á hættu að verða tekin úr umferð því bæði Saturn og Hummer hafa verið lögð á skurðarbrettið.

Maud Olofsson, sem er VIÐSKIPTAráðherra, og félagar hennar í ríkisstjórn Svíþjóðar segja GM hafa egnt gildru en að sögn Frederik Reinfeldt, forsætisráðherra, mun það kosta GM að minnsta kosti 8 milljarða sænskra króna að losa sig við Saab og það er kostnaður sem Reinfeldt segist ekki vilja taka á sænska ríkið.

Ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétt ákvörðun, í því árferði sem nú ríkir er að mínu mati mikilvægt að hið opinbera styðji rækilega við atvinnulífið. Falli Saab er hætt við því að gífurlega mikil þekking glatist, nema hægt sé að laða annan bílaframleiðanda til Trollhättan. Já, og rúmlega 4 þúsund manns til viðbótar, að minnsta kosti, missa vinnuna en það er auðvitað algjört aukaatriði.

Kannski þau geti gengið í störf lögreglumanna og hjúkrunarkvenna þeirra sem Olofsson var kosin út af.

Viðbót: Ég vil taka fram að ég tel mestu skipta að þessi 4 þúsund störf verði tryggð, t.d. með því að sænska ríkið verði hluti af hópi sem vill kaupa Saab.


mbl.is Svíar ætla ekki að bjarga Saab
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðast örlög Saab í nótt?

Eins og fram kemur í frétt mbl.is mun General Motors í kvöld kynna aðgerðaáætlun sína til þess að koma fyrirtækinu á réttan kjöl, eða öllu heldur bjarga fyrirtækinu frá glötun. Óvissan um framtíð GM, sem er eitt flaggskipa bandarísks iðnaðar, hefur áreiðanlega átt stóran þátt í hinum miklu lækkunum vestanhafs.

Það sem ekki kemur fram í frétt mbl.is, og ég hef ekki séð í neinum íslenskum fjölmiðli, er að í nótt ráðast sennilega örlög eins flaggskipa sænska hagkerfisins, Saab (ég er ekki að segja að ekki hafi verið fjallað um málið í íslenskum fjölmiðlum - ég hef hins vegar ekki séð neina umfjöllun). Eitt af því sem mikið hefur verið rætt um varðandi björgunaraðgerðir GM er að Saab verði lagt niður.

GM hefur reynt að fá lán hjá sænskum stjórnvöldum, að sögn til þess að bjarga Saab, en án árangurs og staðreyndin er sú að sænska fyrirtækið kostar eigendur sína stórfé. Því er alls ekki hægt að útiloka að Saab verði einfaldlega lagt niður því GM hefur án nokkurs vafa leitað allra leiða til þess að selja fyrirtækið.

Verði Saab lokað er ljóst að það verður reiðarslag fyrir sænskt atvinnulíf og því er vonandi að fyrirtækið fái að lifa áfram.


mbl.is Miklar lækkanir vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opnar markaðsaðgerðir fullreyndar

Með efnahagsáætlun sinni gengur Obama að nokkru leyti í fótspor Franklin D. Roosevelt sem reyndi að blása lífi í bandarískan efnahag með New Deal-áætluninni. Hagfræðingar hafa reyndar ekki verið á einu máli um hvort aðgerðir Roosevelt hafi rétt bandarísku þjóðarskútuna við eða hægt á batanum en mín skoðun er sú að New Deal hafi verið nauðsynleg.

Vissulega getur hagkerfið alla jafna rétt sig við úr lægð eða niðursveiflu en nú er ekki um neina venjulega niðursveiflu að ræða, ekki frekar en í kjölfar hrunsins 1929. Nú erum við í svokallaðri Keynes-ískri niðursveiflu, neikvæðum vítahring sem að mínu mati (og Keynes) er ekki hægt að rjúfa nema með aðgerðum á borð við opinberar fjárfestingar.

Að mínu mati eru tilraunir til þess að örva markaðinn með opnum markaðsaðgerðum, vaxtabreytingum og dælingu fjármagns inn á lánamarkaði, og ég tel víst að á næstu árum þurfum við hagfræðingar að endurskoða þá braut sem þessi grein okkar er komin inn á.

Það segir meira en mörg orð þegar þekktir markaðssinnar á borð við Nouriel Roubini eru farnir að óska eftir því að bandarísk stjórnvöld slái skjaldborg um bankakerfi landsins. 


mbl.is Obama staðfestir aðgerðaráætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan koma 20 milljarðarnir?

Ef ég hef skilið hugsunina á bak við þessa aðgerð rétt þá hefur Glitnir tekið veð í þessum eignum Moderna og vill tryggja að þær verði ekki seldar einhverjum á spottprís. Gott og vel. En ég hef samt tvær spurningar:

1. Hvaðan koma þessir 20 milljarðar króna? Er slíkt lausafé til í þrotabúi Glitnis?

2. Munu erlendir lánadrottnar Glitnis ekki hirða eignirnar um leið og þær eru komnar undir væng skilanefndarinnar?

Gaman væri að vita hvert verðmæti þessara eigna er.


mbl.is Bjóða milljarða inn í Moderna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir

Samkvæmt könnun Capacent Gallup heldur stjórnin velli án þess að þurfa að treysta á stuðning Framsóknarflokksins. Það eru góðar fréttir.

Með þessu má ekki skilja að mér sé eitthvað illa við Framsóknarmenn sem slíka en þriggja flokka stjórnir eru alltaf veikari en tveggja flokka stjórnir og öllum er ljóst að minnihlutastjórn mun ekki lifa lengi eftir kosningar. 

Jafnframt eru það góðar fréttir að enn sem komið er hefur málþófs- og þrastaktík sjálfstæðismanna ekki virkað. Stjórnin má þó ekki slaka á því enn er töluvert í kosningar og mikið vatn getur runnið til sjávar. Það er því mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð og koma góðum málum í gegnum þingið.


mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband