Gjaldeyrisbrölt bankanna föllnu

Fréttir af því að fyrrum gjaldeyrismiðlari í Landsbankanum hafi sett saman skýrslu þess efnis að bankarnir hafi unnið kerfisbundið gegn krónunni minntu mig á frétt/samantekt sem ég skrifaði í mars 2008 um nákvæmlega þetta efni. Okkur hjá Mogganum höfðu borist til eyrna orðrómar innan úr bankakerfinu um að starfsemi af þessu tagi ætti sér þar stað en þar sem aðeins var um orðróma að ræða og enginn áreiðanlegur heimildarmaður vildi staðfesta þá áttum við erfitt um vik að segja berum orðum að bankarnir væru að leika sér með krónuna. Þess í stað var ákveðið að vinna fréttina eins og hún er hér að neðan með von um að það kæmi af stað umræðu um málið.

Það tókst ágætlega, um þetta mál spannst mikil umræða og minnistæð eru mér ummæli þáverandi seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins um óprúttna miðlara. Oftast var minnst á Kaupþing í þessu samhengi og þá jafnan að þetta væri fyrst og fremst gert til þess að bæta stöðu stærsta hluthafa bankans fallna enda voru eignir þess hluthafa að stórum hluta erlendar.

Fréttin sem birtist hér að neðan birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 18. mars 2008 (taka ber fram að henni fylgdu tafla og graf sem ég tel mig ekki hafa leyfi til að birta):

Óinnleystur hagnaður bankanna 154 milljarðar

Óvarlegt að segja að bankinn hagnist á falli krónunnar segir forstjóri Kaupþings

Eftir Guðmund Sverri Þór | sverrirth@mbl.is

ÓINNLEYSTUR hagnaður viðskiptabankanna þriggja af lækkun krónunnar á undanförnum vikum nemur um 154 milljörðum króna. Þar af er hagnaður Kaupþings langmestur, ríflega 101 milljarður króna frá áramótum. Hinir bankarnir tveir komast ekki nálægt þeim upphæðum sem Kaupþing hefur hagnast um en hagnaður þeirra af falli krónunnar er engu að síður töluverður. Rétt er að geta þess að þessar tölur eru miðaðar við upplýsingar í uppgjörum bankanna fyrir árið 2007, þ.e. þær byggjast á gjaldeyrisjöfnuði bankanna frá áramótum en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa allir bankarnir bætt við sig erlendum gjaldeyri það sem af er ári þannig að óinnleystur hagnaður þeirra af lækkun krónunnar er ef eitthvað er meiri en fram kemur hér að ofan og í meðfylgjandi töflu.

Gengisvísitalan var 152,279 stig samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands í gær, sem er 8,1% hækkun frá sl. föstudegi, og hefur hún aldrei verið skráð hærri. Hæsta gildi gengisvísitölunnar fram til gærdagsins var 151,16 stig sem skráð var í lok nóvember 2001. Um áramót var vísitalan 120 stig og hefur gengi krónunnar því lækkað um 26,9% það sem af er ári. Í þeim útreikningum sem hér birtast er miðað við viðmiðunargengi Seðlabankans.

Vörn á eiginfjárhlutfalli

Um áramót var 556 milljarða króna halli á gjaldeyrisjöfnuði bankanna, samkvæmt uppgjörum þeirra, sem felur í sér að þeir áttu andvirði 556 milljarða króna meira í erlendum gjaldmiðlum en krónum, þ.e. bankanir höfðu tekið stöðu gegn krónunni sem nemur 556 milljörðum. Veiking krónunnar felur því í sér að verðmæti erlenda gjaldeyrisins, í krónum talið, eykst sem veikingunni nemur. Hér er þó um að ræða óinnleystan gengishagnað, hygðust bankarnir innleysa hagnaðinn þyrftu þeir að jafna hallann á gjaldeyrisjöfnuðnum út með kaupum á íslenskum krónum. Það hefði í för með sér gengisstyrkingu því eftirspurn eftir krónum myndi myndast og þrýsta verðinu á þeim upp. Innleystur hagnaður bankanna af lækkun krónunnar yrði því líklega seint jafnhár og þær tölur sem hér eru.

Bankarnir skilgreina neikvæðan gjaldeyrisjöfnuð sinn, séð frá krónum, sem vörn á eiginfjárhlutfalli, eigið fé er í íslenskum krónum og skreppur efnahagsreikningurinn ört saman við mikla styrkingu krónunnar en þenst við lækkun af því tagi sem nú er uppi á teningnum. Um leið sveiflast eiginfjárhlutfallið til og frá, sem ekki myndi auka traust á viðkomandi félagi. Út frá skilgreiningunni er því um eins konar sveiflujöfnunarbúnað að ræða.

Kaupþing hagnast mest

Sem fyrr segir hefur Kaupþing hagnast langmest á lækkun krónunnar enda hefur bankinn mestan halla á greiðslujöfnuði sínum. Staða hans á móti krónunni var um áramót ríflega 364 milljarðar króna. Miðað við 26,9% hækkun gengisvísitölunnar það sem af er ári og gengisfall krónunnar hefur bankinn hagnast um ríflega 101 milljarð króna.

Halli á gjaldeyrisjöfnuði Landsbankans var um áramót ríflega 114 milljónir króna og hefur bankinn hagnast um tæplega 30 milljarða það sem af er ári. Halli á gjaldeyrisjöfnuði Glitnis nam tæplega 78 milljörðum króna um áramótin og hefur bankinn hagnast um tæpa 23 milljarða frá áramótum.

Ekki raunveruleg verðmæti

„Megnið af þeirri upphæð sem hér er um að ræða bætist við eigið fé bankans en lítill hluti þess bókast sem hagnaður af veltufjáreignum á rekstrarreikningi bankans,“ segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, aðspurður um þann óinnleysta hagnað sem bankarnir hafa fengið í kjölfar veikingar krónunnar. Hann segir það óvarlegt að setja málið fram á þann hátt að Kaupþing sé að hagnast verulega á veikingu krónunnar. „Hið rétta er að okkur hefur tekist að verja eiginfjárhlutfall bankans í gegnum þessar miklu sveiflur sem hafa orðið á gjaldeyrismarkaði á undanförnum vikum,“ segir Hreiðar.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segir mikilvægt að benda á að þessi hagnaður sé allur í krónum talinn, en megnið af starfsemi bankans fari fram erlendis. „Þar stöndum við nokkurn veginn á sama stað,“ segir Lárus. Hann segir gjaldeyriseign bankanna fyrst og fremst til að verja eigið fé þeirra fyrir gengissveiflum og þó núverandi staða krónunnar gefi til kynna mikinn hagnað, sé ekki um raunverulega verðmætasköpun að ræða. Mikilvægt sé að halda vissri gjaldeyrisstöðu, ekki síst í ljósi markaðsaðstæðna. Hjá Glitni er gjaldmiðlahreyfing færð yfir eigið fé, en vaxtakostnaður við gjaldeyrisstöðu fer inn í rekstrarreikning.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir gengishagnað hvers árs fara í gegnum rekstrarreikning bankans. Gjaldeyrisstaðan dragi mið af því að eiginfjárhlutfall hans sé stöðugt, óháð gengisþróun.

„Gengisbreytingar geta haft mikil áhrif á eigna- og skuldastöðu erlendis. Bankar eiga almennt lítið eigið fé miðað við stærð, hjá Landsbankanum er það t.d. um 10,7% eigna. Við þurfum að uppfylla vissar kröfur um eiginfjárhlutfall og því verðum við að verja okkur fyrir sveiflum.“

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú er ég að skjóta svolítið út í loftið en hefur ekki sagan sýnt okkur að bankarnir beinlínis töpuðu á þessu gengisfalli frekar en að þeir hafi grætt á því? Þó "eignin" hafi vissulega hækkað í krónum talið þá fóru skuldirnar með þá á endanum og þær voru nánast allar í erlendum gjaldmiðli virðist vera. Gengishagnaðurinn hljómar næstum bara eins og einhver bókhaldsbarbabrella.

Gulli (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 09:42

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Skv. uppgjörum bankanna voru þeir með hreina jákvæða erlenda eignastöðu í flestum myntum í lok árs 2007 og högnuðust því verulega á falli krónunnar.

Guðmundur Sverrir Þór, 12.3.2010 kl. 09:53

3 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Ég reiknaði gróflega út að vorið 2006 hafi krónan verið 30% of sterk og að um árámótin 2007/08 hafi hún verið 20% of sterk.  Það er því ekki óeðlilegt þó að menn hafi tekið stöðu 'gegn' krónunni í ljós þess að miklu fleiri voru að taka stöðu með henni.

Hefði krónan hrunið svona ef ekki hefði verið fyrir stöðutöku með krónunni?

Er ekki búið að snúa dæminu á hvolf með því að kenna þeim sem tóku stöðu 'gegn' krónunni um hrun krónunnar?  Þeir sem tóku stöðu með krónunni styrktu hana langt umfram eðlilegt jafnvægisgildi og því gat hún ekki annað en fallið og því meira eftir því sem hún styrktist.

Lúðvík Júlíusson, 12.3.2010 kl. 12:54

4 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Það er óeðlilegt að menn taki stöðu gegn krónunni þegar þeir eru sjálfir búnir að selja viðskiptavinum sínum gjörninga sem verða dýrari þegar krónan fellur, einkum og sér í lagi þegar þeir hafa krónuna í hendi sér því gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur á millibankamarkaði voru nær eingöngu á milli íslensku bankanna. Slíkt flokkast undir markaðsmisnotkun.

Annars er ekkert óeðlilegt við það að krónan hafi fallið, hún var of sterk en það er spurning hvert jafnvægisgengið er.

Guðmundur Sverrir Þór, 16.3.2010 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband