17.3.2009 | 12:49
Enginn kostnaður? Hvað með þá sem skulda öðrum en bönkunum?
Tryggvi Þór Herbertsson, prófessor í hagfræði og tilvonandi þingmaður, lagði í gær fram tillögu á bloggsíðu sinni um 20% niðurfellingu skulda heimila og fyrirtækja við ríkisbankana nýju. Þessi tillaga er af svipuðum meiði og tillaga framsóknarmanna um 20% flata niðurfellingu allra íbúðarlána en gengur þó ekki jafnlangt, þar sem tillaga Tryggva Þórs tekur eingöngu til skulda við bankana auk þess sem hann vill ekki að Íbúðalánasjóður taki á sig kostnaðinn við þessa aðgerð. Reyndar fullyrðir Tryggvi að enginn kostnaður verði við niðurfellinguna þar sem um sé að ræða lán sem þegar verði búið að afskrifa stærri hluta af en þau 20% sem hann leggur til.
Ég er alveg sammála Tryggva, og reyndar framsóknarmönnum líka, um að eitthvað verður að gera til þess að forðast algjört hrun í hagkerfinu og hef lagt fram mína eigin tillögu í þá átt hér á blogginu. En ég get þó ekki verið sammála honum um að enginn verði kostnaðurinn, þó ekki nema væri fyrir þá möntru okkar hagfræðinga að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.
Að öllu grínu slepptu þá vakti það athygli mína að í Kastljósi gærdagsins og í stuttu viðtali Morgunblaðsins við Tryggva Þór í morgun er hann aldrei spurður um hvað gera eigi fyrir þá sem skulda Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum landsins og sparisjóðunum. Þessi lán er ekki verið að flytja yfir í aðrar stofnanir með afföllum sem væri hægt að nota til þess að réttlæta niðurfellingu. Niðurfelling höfuðstóls þeirra lána væri því hreinn og tær kostnaður og það er í besta falli barnalegt að ætla að hægt sé að ráðast í 20% niðurfellingu skulda við bankana án þess að hið sama verði gert fyrir þá sem skulda ÍLS, lífeyrissjóðum og sparisjóðum (og reyndar fleirum, t.d. fjármögnunarfyrirtækjum því af orðum Tryggva má hvergi lesa að hann eigi eingöngu við íbúðarlán).
Mér skilst að heildarútlán ÍLS og lífeyrissjóðanna nemi um 800 milljörðum króna sem þýðir að kostnaður við 20% niðurfellingu þeirra verður um 160 milljarðar. Þá eru útlán sparisjóða eftir og þótt ég hafi enga heildartölu þar yfir þykir mér afar líklegt að 20% niðurfelling þeirra hlaupi á tugum milljarða. Það er því síður en svo hægt að fullyrða að aðgerð af þessu tagi hafi engan kostnað í för með sér og eins og áður segir er útilokað að hægt sé að fella niður skuldir við ríkisbanka án þess að hið sama gangi yfir þá sem skulda öðrum fjármálastofnunum. Ég er ekki mjög lögfróður en mér þykir þó ljóst að slíkt myndi stangast á við jafnræðisákvæðið margfræga í stjórnarskránni.
Annað sem ég hef velt fyrir mér í sambandi við þessar hugmyndir um að fela niðurfellinguna í afföllum af eignum gömlu bankanna er hvort erlendir kröfuhafar bankanna muni taka slíku þegjandi og hljóðalaust. Mikið er rætt um möguleikann á því að bakfæra tilfærslur á eignum fyrirtækja á borð við Baug til þess að eitthvað fáist upp í kröfur á hendur því fyrirtæki; á hið sama ekki við um bankana? Geta erlendir kröfuhafar ekki krafist þess að lán sem færa á yfir í nýju bankana á afslætti verði þess í stað færð til þeirra? Það væri gott ef einhver sem les þetta gæti svarað þessum spurningum.
Enn einn flötur á þessu máli er spurningin um hvaða réttlæti felst í því að nýju bankarnir geti keypt kröfur gömlu bankanna á t.d. 50% afföllum og síðan innheimt fyrir 100%, nú eða 80%. Það er hins vegar önnur saga.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 31.3.2009 kl. 21:16 | Facebook
Athugasemdir
Það er megn kosningabaráttulykt af þessu
Drengur (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 13:30
Allsterkur fnykur.
Guðmundur Sverrir Þór, 23.3.2009 kl. 17:37
Þetta er bara lausn á vandamáli sem að er til staðar, það er að stór hluti heimilanna eru gjaldþrota. Það er þó skárra að koma með einhverja lausn heldur en eins og Samfylking gerir að gagnrýna lausnir annarra eða VG sem að kemur bara ekki með neitt, nema skattahækkanir.
Skýrsla Seðlabankans sýndi svo ekki verður um villst að þetta vandamál er raunverulegt. Nú þurfa menn að finna lausnina. Það er komin fram lausn sem að margir telja framkvæmanlega. Aðrir kjósa að kalla hana óframkvæmanlega. Á það reynir ekki fyrr en að reynt verður að gera eitthvað í stað þess að sitja á rassinum og gagnrýna allt sem að lagt er fram, eins og stjórnarflokkarnir hafa gert.
Ég geri það að tillögu minni að þegar að menn kjósa í apríl, þá kjósi menn þá flokka sem að þeir telja að geti leyst þetta vandamál. Aðeins þetta vandamál, vegna þess að ef þetta vandamál verður ekki leyst, þá skiptir allt annað engu máli því að þjóðarskútan sekkur eins og steinn. Þá hittumst við bara í skömmtunarröðinni eftir 2-3 mánuði eftir matarúthlutun.
Ég væri til í að sjá flokka starfa saman eftir kosningar aðeins til þess að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Það átti að vera hlutverk núverandi ríkisstjórnar en hún hefur reynst gagnslaus og það sem verra er, skaðleg. Þessi nýja ríkisstjórn myndi svo boða til kosningar þegar að heimilunum og fyrirtækjunum hefur verið bjargað og þá fyrst er hægt að ákveða hvernig við viljum skipa hér málum til framtíðar. Að ákveða það núna er algerlega fáránlegt. Þegar að húsið þitt brennur þá ertu ekki að pæla í því hvort stofan eigi að vera rauð eða blá.
Jóhann Pétur Pétursson, 30.3.2009 kl. 13:35
Þessi lausn er of dýr að mínu mati og það er raunveruleg hætta á að hún setji Íbúðalánasjóð á hliðina og verði auk þess til þess að draga verði verulega úr lífeyrisgreiðslum. Það jafngildir því að reyna að slökkva eldinn með bensíni.
Vandamálið er vissulega til staðar og ég hef fulla trú á því að unnið sé hörðum höndum við leit á varanlegri lausn.
Guðmundur Sverrir Þór, 31.3.2009 kl. 21:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.