Lög sem vinna gegn markaðslögmálunum?

Á miðnætti taka gildi svokölluð Ipred-lög hér í Svíaríki en þeim er ætlað að draga úr ólöglegri dreifingu höfundarréttarvarins efnis svo sem tónlistar og kvikmynda. Eftir að lögin taka gildi geta eigendur höfundarréttar (eða dreifingarréttar) krafið internetþjónustuaðila upplýsinga um þá viðskiptavini þeirra sem uppvísir verða að dreifingu efnisins og við slíku athæfi eru þungar sektir. Eins og nærri má geta eru lögin afar umdeild enda eru Svíar afar stórtækir í niðurhali og má sem dæmi nefna að Pirate Bay, stærsti torrent-vefur heims er sænskt fyrirbæri.

Ég hef velt hagfræðilegu hliðinni á þessu máli svolítið fyrir mér að undanförnu. Vissulega er ljótt að stela og efnið sem verið er að dreifa er stolið en á móti kemur að hvatinn til þess að stela efninu væri ekki nærri því jafn mikill væri það ódýrara.  Að vissu leyti má því segja að með niðurhali sé markaðurinn að virka eins og hann getur gert best, þ.e. neytendur leita nýrra leiða til þess að draga úr kostnaði sínum við að neyta tónlistar og kvikmynda. Þetta á sérstaklega við þegar herðir í ári og ráðstöfunartekjur heimilanna dragast saman, þá munu útgjöld til þess að neyta tónlistar og kvikmynda dragast verða skorin niður - einkum þegar verð á þessum gæðum virðist frekar vera að hækka en lækka.

Gleymum ekki að markaðsvald framleiðenda og dreifenda er óvíða jafnmikið og einmitt á þeim markaði sem hér er um að ræða. Vilji ég kaupa geisladisk með tónlist uppáhaldshljómsveitarinnar minnar hef ég ekki um annað að ræða en að kaupa diskinn af útgáfufyrirtæki hljómsveitarinnar, þetta er ekki eins og að kaupa saltkex úti í búð þar sem ég get valið á milli nokkurra vörumerkja. Á sama tíma hafa útgáfufyrirtækin verið rekin með ágætis hagnaði og á hverjum degi berast okkur nýjar og nýjar sögur af saurlífi og skemmtunum listamannana um allan heim (ég geri mér grein fyrir því að hér er þó aðeins um að ræða toppinn á ísjakanum og að stór hluti listamanna lifir svipuðu lífi og við hin).

Ég tek það aftur fram að ég er alls ekki að reyna að réttlæta stuld á höfundarréttarvörðu efni en neytendur hafa árum saman reynt að senda framleiðendum þau skilaboð að varan sé of dýr. Í stað þess að lækka verðið að einhverju ráði hafa útgefendur og listamenn skýlt sér á bak við löggjafann sem alltaf tekur málstað "auðvaldsins" og mér finnst það t.d. skjóta skökku við að hægri stjórnin hér í Svíþjóð (sem hefur haft uppi fögur orð um að virkja eigi hinn alvitra markað) skuli stuðla að þessum markaðsbresti með Ipred-löggjöfinni.

Að mínu mati mun löggjöfin til lengdar ekki bera þann árangur sem ætlast er til, einhverjir munu hætta niðurhalinu tímabundið en aðrir ekki en þegar fram líða stundir munu neytendur finna nýjar leiðir til þess að komast framhjá lögunum. Ólögleg dreifing þessa efnis mun ekki hætta fyrr en verðið lækkar umtalsvert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki bara verðið sem stýrir heldur aðgengið líka, það er fjöldinn allur af vefsíðum sem selja tónlist í rafrænu formi en þær hafa allar það sameiginlegt að eina leiðin til að nota tónlistina er að hafa eitthvað ákveðið stýrikerfi eða ákveðinn hugbúnað og síðan er hún læst þannig að engin leið er að setja hana í mp3 spilarann þinn nema hann komi frá ákveðnum framleiðendum.

Ofan á þetta bætist síðan að framboð er mjög takmarkað og flestar síður hafa upp á lítið annað að bjóða en síðasta vinsældarlista sem gerir stórum hluta mögulegra kaupenda algjörlega ómögulegt að nálgast tónlistina. Þegar svo loksins er hægt að kaupa tónlistina sem maður vill þá er hún dýrari en að kaupa diskinn úti í búð - sem gefur kaupandanum kost á að rippa tónlistina bara sjálfur í þeim gæðum sem henta honum og gefur frelsi til að spila tónlistina í þeim spilara sem viðkomandi sjálfur vill og kaupandinn fær líka vöru í hendurnar með öllu því sem diskum fylgja, myndir, textablöð og fleira - ekkert af því fylgir rafrænu útgáfunni sem samt er dýrari.

Fyrir mig er valið því í rauninni bara á milli tveggja leiða - kaupa diskinn eða sækja hann ólöglega á netinu. Þar sem sú tónlist sem ég hlusta á heyrist sárasjaldan ef nokkurn tíma í útvarpi er það að kaupa diskinn alltaf ákveðin áhætta, ég gæti verið að kaupa eitthvað sem er algjört drasl. Þess vegna sæki ég bara diskinn ólöglega, hef möguleika á að ákveða hvort þetta sé eitthvað sem ég vill eiga og ef ekki þá hef ég engu tapað nema diskplássi í smá tíma. Hérna væri pólitískt rétt að segja að ég myndi síðan kaupa diskinn ef mér líkaði efnið en því miður fyrir útgefendur, ég er þegar kominn með efnið í því formi sem ég vil hafa það - ég hef ekkert með diskinn að gera héðan af. Töpuð sala fyrir útgefandann vegna þess að ég get ekki fengið efnið á því formi sem ég vil fyrir eðlilegt verð.

Gulli (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 06:50

2 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Þarna er það markaðsvald útgefandanna sem ræður ferðinni. Þeir vilja ekki bæta aðgengið meira en gert hefur verið þar sem þeir telja sig munu tapa á því peningum. Það sem þeir skilja ekki er að þeir munu þegar upp er staðið hafa tapað meira fé á því að selja vöruna ekki ódýrar.

Guðmundur Sverrir Þór, 1.4.2009 kl. 09:02

3 identicon

...og ólögum eyða

Drengur (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband