Sofandaháttur Benitez svíður mest

Alla stuðningsmenn Liverpool hlýtur að svíða undan þeirri frétt að goðið Michael Owen sé genginn til liðs við Manchester United. Hins vegar tel ég ekki við Owen sjálfan að sakast heldur eingöngu sofandahátt Rafael Benitez sem að sjálfsögðu átti að reyna að fá Owen til liðs við sitt gamla félag um leið og ljóst var að hann myndi yfirgefa Newcastle.

Hæfileikar Owen eru óumdeilanlegir og greinilegt er að hann sættir sig við að vera sóknarmaður nr. 2, nokkuð sem hefði hentað Liverpool enda hefur liðið tilfinnanlega vantað mann sem getur leyst Fernando Torres af hólmi þegar sá spænski er meiddur. Owen þekkir auk þess til hjá Liverpool og veit nákvæmlega út á hvað lífið þar á bæ gengur.

Eins og ég segi er ekki við Owen að sakast enda er hann bara í vinnunni. Eftir frammistöðu sína hjá Liverpool á sínum tíma á hann það inni hjá aðdáendum félagsins að þeir sýni honum virðingu og óski honum velgengi. Það geri ég amk og ég blæs á allt tal um að hann sé búinn að vera, enginn er séðari en Alex Ferguson í leikmannakaupum og hann veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Það er sofandaháttur Benitez sem svíður mest. Og hananú!

YNWA!


mbl.is Owen samdi við United til tveggja ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að koma í veg fyrir hrun krónunnar?

Hagfræðingar telja margir hverjir verðbólgu vera besta mælikvarðan á efnahagslegan stöðugleika. Lág stöðug verðbólga er til marks um efnahagslegan stöðugleika (of lág verðbólga er til marks um stöðnun) en mikil eða of sveiflukennd verðbólga er til marks um að hagkerfið sé óstöðugt. Þessi skilgreining á efnahagslegum stöðugleika (ef skilgreiningu skyldi kalla) spratt upp í huga mér í dag þegar ég renndi augum yfir stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka fram að þetta er um margt mjög gott plagg og sérstaklega er ég ánægður með grein nr. 4 þar sem kveðið er á um að hið opinbera muni liðka fyrir stórum framkvæmdum til þess að stuðla að aukinni atvinnu. Þetta er mjög svo í anda þeirra hagfræðikenninga sem ég aðhyllist og að mínu mati nauðsynlegt til þess að rjúfa vítahring þann sem hagkerfið er statt í. Fáist lífeyrissjóðirnir til þátttöku í fjármögnun er það hið besta mál enda er hlutverk sjóðanna öðrum þræði að fjárfesta í innlendum verkefnum. 

Hvað stöðugleikann varðar er mér hins vegar alveg fyrirmunað að skilja hvernig afnema á gjaldeyrishöft og lækka vexti án þess að gengi krónunnar hríðfalli. Hvað gerist þá? Jú, verðbólgan mun aftur rjúka upp sem síðan mun m.a. skila sér í hækkandi höfuðstól verðtryggðra lána.

Ég vil slá þann varnagla að þegar verðbólgan er notuð sem mælikvarði á efnahagslegan stöðugleika er um eftirspurnarverðbólgu að ræða en ég er hér að tala um kostnaðarverðbólgu sem ekki er alveg hægt að heimfæra á stöðugleika en vandinn er bara sá að kostnaðarverðbólga er enn erfiðari viðureignar en eftirspurnarverðbólga. Eigi Seðlabankinn að koma í veg fyrir fall krónunnar og verðbólguskot af verri gerðinni verður hann annaðhvort að hækka vexti eða nota gjaldeyrisforðann dýrmæta til þess að styrkja krónuna. Ekki veit ég hvort stýrivaxtahækkun muni ógilda stöðugleikasáttmálann en þó þykist ég viss um að hún muni valda töluverðri úlfúð í samfélaginu og ljóst er að sóun á gjaldeyrisforðanum í krónukaup er ekki vönduð meðferð á lánsfé frá útlöndum.

Þriðja lausnin er að afnema verðtryggingu lánsfjár þannig að verðbólgan muni ekki leggjast á lán heimilanna í landinu en ekkert er minnst á verðtrygginguna í stöðugleikasáttmálanum.

Það má vel vera að menn séu með lausnir á þessum atriðum á reiðum höndum en þá mættu þeir segja okkur hverjar þær eru. Sáttmálinn er sem áður segir um margt gott plagg en mér finnst of óljóst í sáttmálanum hvernig koma á í veg fyrir hrun krónunnar til þess að geta stokkið hæð mína í loft af fögnuði.

Það hlýtur hins vegar að vera von okkar allra að allt gangi þetta að óskum.


Hættulegur hugsunarháttur

Engum dylst að ástand efnahagsmála á Íslandi er afar erfitt og hefur orðið kreppa oft verið notað. Í lok ágúst í fyrra skrifaði ég pistil í Viðskiptablað Morgunblaðsins þar sem ég benti á að hugtakið kreppa væri ofnotað á þeim tíma og það stend ég við. Þegar sá pistill var ritaður ríkti ekki efnahagskreppa á Íslandi og þótt stutt hafi reynst í hrun bankakerfisins lágu engar upplýsingar fyrir sem bentu til þess hversu ástandið var í raun alvarlegt (pistilinn má sjá neðst í þessari bloggfærslu).

Að þessu sinni er engin ástæða til þess að reyna að neita því að á Íslandi ríkir kreppa. Mjög djúp efnahagslægð sem að öllum líkindum verður langvinn. Ég vil hins vegar benda á hið hættulega við það sem ég kýs að kalla kreppuhugsunarhátt. Eitt dæmi um slíkan hugsunarhátt kom fram í gær þegar Vísir birti frétt þess efnis að Sambíóin hyggðust bjóða þeim sem misst hafa vinnuna sérkjör í bíó. Eflaust er þetta vel meint hjá eigendum fyrirtækisins (auk þess sem þeir vilja ekki missa viðskipti þeirra sem eru orðnir atvinnulausir) en í mínum huga geta tilboð af þessu tagi gert illt verra. 

Eins og fram kemur í pistli mínum tel ég kreppu ekki eingöngu hagfræðilegt fyrirbæri heldur einnig sálfræðilegt og hér er ég að fjalla um sálfræðilegu hliðina. Atvinnuleysi er eitthvert mesta böl sem til er og þeim sem misst hafa vinnuna og sjá fram á langvarandi atvinnuleysi líður sjaldan vel andlega. Viðkomandi eru langt niðri eins og það heitir í dag og atvinnulausir geta auðveldlega túlkað tilboð af þessu tagi sem ölmusu. Hætt er við því að slíkt ýti fólki enn dýpra í tilfinningu vanmáttar sem síðan gerir því enn erfiðara að rjúfa þann vítahring sem því hefur verið hrint inn í.

Í mínum huga er nauðsynlegt að spyrna gegn atvinnuleysinu og rjúfa hinn neikvæða spíral. Þetta má t.d. gera með auknum opinberum framkvæmdum í stað niðurskurðar auk þess sem ljóst hlýtur að vera að fyrirtæki sem hefur svigrúm til þess að skerða tekjur sínar ætti að hafa jafnmikið svigrúm til þess að auka útgjöldin í staðinn. Það væri því kannski nær að ráða nokkrar sálir í vinnu í stað þess að bjóða þeim ölmusu.

Að lokum fylgir pistill minn úr Viðskiptablaði Morgunblaðsins 21. ágúst 2008 (ég hef fengið leyfi ritstjóra Morgunblaðsins til þess að birta á blogginu þær greinar sem ég skrifaði undir nafni þegar ég var blaðamaður á Mbl.):

Hættum þessu krepputali

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

MARGIR eru uggandi yfir ástandinu í efnahagsmálum landsins og því er alls ekki að neita að blikur eru á lofti, jafnvel óveðursský. Æ oftar heyrum við ýmsa álitsgjafa, bæði á bloggi í og í fjölmiðlum, tala um að efnahagskreppa sé skollin á. Hún er þó ekki farin að gera vart við sig og okkur ber að varast að tala of mikið um kreppu. Nýlega skrifaði ég pistil hér í Viðskiptablað Morgunblaðsins þar sem ég fjallaði um verðbólgu og skilgreindi hana sem sálfræðifyrirbæri ekki síður en peningalegt fyrirbæri. Efnahagskreppa er annað dæmi um sálfræðilegt fyrirbæri.

Erlendir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að nota hugtakið recession þegar þeir hafa fjallað um efnahagsmál að undanförnu. Notkun hugtaksins hefur verið frekar frjálsleg sem t.d. kristallast best í því að erlendir fjölmiðlar voru farnir að tala um recession strax í ágúst í fyrra. Þá var vissulega ljóst að áhrif hinna ótryggu fasteignalána vestanhafs á heimshagkerfið myndu verða töluverð en engu að síður var allt of snemmt að fara að tala um recession. Íslenskir fjölmiðlar hafa hiklaust þýtt hugtakið recession sem kreppa sem er í raun enn frjálslegri meðferð á hugtakinu.

Þunglyndi

Rétt þýðing á recession er niðursveifla og skilgreiningin á niðursveiflu er tveir samliggjandi ársfjórðungar þar sem verg landsframleiðsla dregst saman. Í ljósi þessa fullyrði ég að notkun erlendra fjölmiðla á recession hefur verið frjálsleg. Eftir því sem ég best veit er aðeins eitt vestrænt hagkerfi í niðursveiflu samkvæmt skilgreiningu og það er Danmörk. Ekki var ljóst að danska hagkerfið væri í niðursveiflu fyrr en um mitt þetta ár og sýnir það greinilega hversu ankannaleg notkun orðsins recession var fyrir ári.

Nú er svo sem ekki til nein formleg hagfræðileg skilgreining á kreppu líkt og á niðursveiflu en flestir eru þó sennilega sammála um það að kreppa sé verra ástand en niðursveifla. Í ensku er talað um depression, sem einnig þýðir þunglyndi, og það lýsir merkingu hugtaksins kannski einna best.

Nauðsynleg aðlögun

Kreppa er mjög gildishlaðið orð. Orð sem flestir tengja við Kreppuna miklu á 4. áratug síðustu aldar. Þá voru aðstæður í efnahagsmálum heimsins mjög erfiðar, Ísland var þar engin undantekning eins og flestir vita, og færa má rök fyrir því að kreppan mikla hafi verið undanfari síðari heimsstyrjaldarinnar.

Eins og fram kemur hér í upphafi er kreppa að mörgu leyti sálfræðifyrirbæri. Hún er sálfræðifyrirbæri vegna þess að þegar óveðursskýin hrannast upp í efnahagslífinu verður fólk svartsýnt og breytir neysluvenjum sínum. Slíkt heitir oft nauðsynleg aðlögun hjá hagfræðingum og öðrum þeim álitsgjöfum og því er ekki að neita að vissulega má draga töluvert úr þeirri þenslu sem einkennt hefur íslenska hagkerfið. En aðlögunin getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu margra fyrirtækja, ekki endilega eingöngu þeirra sem eru illa rekin, heldur fyrir afkomu margra heimila; eins og við erum farin að sjá.

Mikið tal um kreppu getur haft þau áhrif að svartsýnin eykst. Kreppa er hugtak sem liggur eins og mara yfir hagkerfinu þegar það fær byr undir vængina. Fólk getur auðveldlega fengið kreppuna á heilann, eins og það heitir á vondu máli, og miðar neyslu sína við að kreppa sé í vændum eða þegar komin. Það sem getur reynst enn hættulegra er að fjármögnunaraðilar geta fengið kreppuna á heilann. Þeir verða of varfærnir og því fæst ekki fjármagn til góðra verkefna. Erlendir fjármagnseigendur forðast síðan að fjárfesta í hagkerfinu. Hagkerfið stirðnar upp og kreppan gæti vel orðið að veruleika.

Ekki einu sinni niðursveifla

Eins og áður segir eru blikur á lofti í hagkerfinu. Hin nauðsynlega aðlögun. En því fer fjarri að hér ríki nokkur efnahagskreppa. Hagvöxtur mældist 1,1% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Tölur annars ársfjórðungs liggja ekki fyrir en miðað við að hagvöxtur var á fyrstu mánuðum ársins er ljóst að við getum ekki einu sinni sagt að hér sé niðursveifla. Íslenska hagkerfið er í efnahagslægð. Kreppan er, sem betur fer, víðsfjarri og því eigum við að fara gætilega í allt krepputal. Eins og lýst hefur verið hér að framan getur krepputalið valdið kreppu. Kreppa er nefnilega að stórum hluta sálfræðilegt fyrirbæri.

 

 


Clive Granger látinn

Í B.S.-ritgerð minni í hagfræði sem ég skrifaði árið 2004 notaði ég orsakatengslapróf það er velski hagfræðingurinn Clive Granger þróaði (Granger causality-test). Þetta próf var meðal þess sem Granger hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir árið 2003 en hann var í framvarðasveit þeirra hag- og tölfræðinga sem þróuðu tímaraðagreiningu á seinni helmingi síðustu aldar.

Þessa vikuna sit ég mjög áhugaverðan og skemmtilegan sumarkúrs í hagrannsóknum (applied nonparametric econometrics) hjá kanadíska hagfræðiprófessornum Jeffrey Racine sem vann með Granger að síðustu fræðigrein hans. Samkvæmt Racine hafði Granger einsett sér að setjast í helgann stein að samstarfi þeirra loknu og skömmu áður en greinin birtist hlaut hann Nóbelsverðlaunin ásamt Robert Engle (þeir Granger og Engle unnið mjög mikið saman enda starfandi við sama háskóla).

Racine sagði okkur í dag að Clive Granger væri nýlátinn, hann kvaddi þetta jarðlíf hinn 27. maí sl., 74 ára að aldri. Merkur fræðimaður er fallinn frá.


Í afleitri samningsstöðu

Mikið hefur verið fjallað um samningsdrög þau vegna Icesave sem Alþingi þarf nú að greiða atkvæði um. Sitt sýnist hverjum og því er ekki að neita að um háar upphæðir er að ræða. Margir telja samning þennan mikla hneisu enda hafi Íslendingar borið skarðan hlut frá samningaborðinu. Mig grunar samt að ekki hafi verið hægt að fá betri samning og í mínum huga er það mikilvægt atriði að ekki þarf að byrja að greiða af höfuðstól fyrr en eftir sjö ár. Það gefur nauðsynlegt ráðrúm til þess að hámarka verðmæti þeirra eigna Landsbankans sem ríkið getur sett upp í skuldina.

Margir hafa látið þau orð falla að ljóst sé að ekki hafi sérhæfðir samningamenn rekið erindi íslenskra stjórnvalda og enn fleiri að samninganefndin hafi ekki spilað út því augljósa trompi að neita alfarið að borga. Vissulega hefði það getað verið óþægileg hótun í stöðunni en ég fæ ekki séð betur en að það hefði verið innantóm hótun sem hefði getað komið íslenskum stjórnvöldum í enn verri stöðu, burtséð frá því hvernig alþjóðasamfélagið hefði brugðist við (ljóst er að viðbrögð annarra ríkja hefðu verið hörð og Ísland hefði sennilega getað gleymt öllum lánveitingum). 

Stærsta vandamál íslenskra yfirvalda í þessu máli tengist að mínu mati heimamarkaðnum (eins og það hét árið 2007). Hvernig er yfirvaldi sem sjálft neitar að borga af skuldum stætt á því að neyða eigin borgara til þess að borga af sínum skuldum? Siðferðislega er þeim að minnsta kosti ekki stætt á því en það er spurning með lagalegu hliðina. Hefðu íslensk yfirvöld hótað að neita eða borga eða neitað að borga (farið í greiðsluverkfall eins og það heitir víst eða hótað greiðsluverkfalli) þá hefðu þau átt afar erfitt með að refsa þeim Íslendingum sem í kjölfarið hefðu farið í greiðsluverkfall.

Íslensk stjórnvöld voru einfaldlega í afleitri samningsstöðu og mér er til efs að hægt hafi verið að semja betur.


mbl.is Minnisblaðinu stöðugt veifað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem allir vissu

Daginn sem skallapoppararnir í Duran Duran héldu tónleika í Egilshöll, 30. júní 2005, sögðu þrír fulltrúar sig úr stjórn FL Group og fullyrt var í viðskiptalífinu að viðkomandi hefðu komist að einhverju misjöfnu varðandi kaup Fons á FL Group. Þremenningarnir neituðu þó alfarið að tjá sig um málið (eftir því sem ég best veit hafa þau enn ekki gert það, a.m.k. ekki opinberlega) þannig að við blaðamenn komumst hvorki lönd né strönd og lítið kom fram um málið í fjölmiðlum enda erfitt að birta slíkar fréttir án sannana.

Eftir þetta heyrði maður alloft ýmsar sögur af meintri þátttöku FL Group í viðskiptunum. Allir virtust vita þetta en aldrei komu fram sannanir. T.d. hringi iðulega í okkur maður eftir fall FL Group og sagðist hafa fyrir því sannanir að fyrirtækið hefði farið að sveig við lögin en hann gat aldrei sýnt þær þannig að lítið var upp úr þessum fullyrðingum að hafa.

Það er ánægjulegt að yfirvöld virðist hafa sannanir fyrir því að meint brot hafi átt sér stað.

 


mbl.is Gögn staðfesta millifærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri eða vinsælli?

Fyrir skömmu sat ég og ræddi daginn og veginn við tvo samstúdenta mína sem báðir eru frekar frjálshyggnir. Einhverra hluta vegna barst talið að nýjustu myndunum tveimur um Leðurblökumanninn og voru þeir báðir sammála um að Batman Begins væri töluvert betri en The Dark Knight sem þó var mun vinsælli og aflaði því mun meiri tekna.

Ég hef oft strítt þessum mönnum vegna ofurtrúar þeirra á hinn óskeikula markað og ákvað að spyrja þá hvernig þeir gætu fullyrt að fyrri myndin væri betri þegar hin væri vinsælli. Eru vinsældirnar ekki einmitt til marks um að markaðurinn telur The Dark Knight betri? Hvernig dettur þeim til hugar að mótmæla markaðnum sem þeir telja óskeikulan? Félagarnir tveir komu með einhverjar mótbárur um að seinni myndin hafi eingöngu verið vinsælli þar sem stjarna myndarinnar, Heath Ledger, lést skömmu áður en hún var frumsýnd. Það má vel vera en eftir stendur spurningin: Eru vinsældir ekki eingöngu til marks um að það að markaðurinn er að velja það sem hann telur best?

Annað dæmi sem nefna má er kvikmyndin Shawshank Redemption sem iðulega er talin á meðal bestu mynda sögunnar. Þrátt fyrir það hefur hún aðeins aflað framleiðendum sínum um 28 milljónum dala. Tíu árum eftir Shawshank kom kvikmyndin Catwoman út og var almennt talin á meðal verstu mynda þess árs. Sú mynd skilaði rúmlega 82 milljónum dala í tekjur.

Enn eitt dæmið má taka úr tónlist og t.d. má nefna eftirlætishljómsveit mína Queen. Flestir eru sammála um að Bohemian Rhapsody sé besta lag þeirrar ágætu sveitar en þrátt fyrir það er Another One Bites the Dust mest selda lag hennar frá upphafi. Að mati markaðarins hlýtur það því að vera besta lagið.

Vinsælast hlýtur að vera best, eða hvað? Varla skjátlast markaðnum?


Viðtalið fræga við Aliber

Þegar ég var nýbyrjaður að blogga óskaði ég eftir heimild Morgunblaðsins til þess að birta hér á blogginu efni sem ég hafði skrifað undir nafni í blaðið og sú heimild fékkst. Ég hef hingað til ekki nýtt mér þá heimild en nú mun það breytast.

Fyrst mun ég birta viðtal það sem ég tók við bandaríska hagfræðiprófessorinn Robert Z. Aliber fyrir rúmlega ári síðan. Ekkert viðtal sem ég hef tekið og engin grein sem ég hef skrifað vakti jafnmikil viðbrögð og viðtalið við Aliber og sérstaklega tilvísunarfréttin sem birtist efst á forsíðu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni „Bankaáhlaup hafið?“ Án þess að ýkja get ég sagt að ég var í símanum meira en hálfan daginn sem viðtalið birtist svarandi bálvondum bankamönnum sem hálft í hvoru sökuðu mig um landráð og ómaklega atlögu að bönkunum.

Það kaldhæðnislega er að það voru Samtök fjármálafyrirtækja sem styrktu komu Aliber til Íslands og svo að sjálfsögðu að lýsing hans á því hvernig bankarnir myndu hrynja ef ekki væri gripið til þeirra ráða sem hann lagði til hefur í öllum meginatriðum ræst, fyrir utan að mér skilst að Sjávarkjallarinn sem enn starfandi. Þann veitingastað kallaði Aliber í fyrirlestri sínum „A typical bubble restaurant“ og sagði engan vafa leika á að staðnum yrði lokað innan árs.

Ísland ekki einstakt í efnahagslegum skilningi

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

Ísland getur alls ekki viðhaldið viðskiptahalla umfram 10% af vergri landsframleiðslu. Ekkert land getur viðhaldið slíkum viðskiptahalla til lengdar. Flest hagkerfi geta viðhaldið 5-6% viðskiptahalla og þangað þarf Ísland að komast sem fyrst,“ segir bandaríski hagfræðingurinn Robert Z. Aliber í samtali við Morgunblaðið. Aliber hélt í gær fyrirlestur um eignaverðsbólur í Háskóla Íslands en hann hefur um áratuga skeið rannsakað eignaverðsbólur og fjármálamarkaði og segir hann bólu sem nú er að springa á heimsvísu ekki frábrugðna fyrri slíkum bólum.

Aliber segir of háa skuldsetningu íslenska hagkerfisins alls ekki heppilega og því þurfi að draga úr henni. „Fjármagna þarf viðskiptahallann með fjármagni frá útlöndum og einhvern tímann kemur sú staða upp að erlendir fjármagnseigendur vilja ekki fjármagna hallann. Þá verður lending hörð. Í fyrramálið þarf því einhver hjá Seðlabankanum að spyrja hver eigi að fjármagna 10% viðskiptahalla á næsta ári.“ En hvernig eiga stjórnvöld að ná viðskiptahallanum niður?

„Einfaldasta leiðin er að lækka gengi krónunnar. Einnig er hægt að setja á innflutningshöft eða efla útflutning með ríkisstyrkjum þótt það sé síður æskilegt,“ segir Aliber en taka ber fram að með því að segja lækka gengi krónunnar á hann við að slík lækkun fari fram á markaði (e. depreciation) en ekki að gengið verði fellt (e. devaluation). Aliber segir það hafa verið rangt hjá Seðlabankanum að hækka stýrivexti í lok mars og byrjun apríl til þess að styrkja gengi krónunnar. „Ekki er hægt að koma í veg fyrir að gengið lækki og það mun gerast fyrr eða síðar og það er betra að það gerist nú þegar ennþá er umframgeta í hagkerfinu.“ Aðspurður segist hann ekki vilja velta vöngum yfir því hversu mikið gengið þarf að falla til viðbótar til þess að viðskiptahallinn verði viðráðanlegur en leggur þó áherslu á að það verði að gerast eins hratt og hægt er. „Ef fólk býst við lækkun fer það að reyna ýmsar kúnstir,“ segir hann og vísar þar m.a. til skortsölu á krónunni.

Mikið hefur verið rætt um upptöku evrunnar sem lausn á vanda íslenska hagkerfisins og segir Aliber það mjög óráðlegt að taka upp evru við þær aðstæður sem nú ríkja. Vangaveltur um upptöku evrunnar, eða annars erlends gjaldmiðils, hér á landi verði að bíða betri tíma en það sé þó vel mögulegt að halda úti krónunni, þrátt fyrir smæð hagkerfisins.

Bankarnir ekki bankar

Lækkun gengis krónunnar til þess að stilla viðskiptahallann af er þó ekki eina ráðlegging Aliber til íslenskra stjórnvalda. Hann leggur einnig til að stóru bönkunum þremur verði skipt upp í tvær einingar. Annars vegar viðskiptabanka, sem stundar hefðbundna inn- og útlánastarfsemi, og hins vegar fjárfestingarbanka. „Hið opinbera getur ábyrgst skuldbindingar viðskiptabankanna en á ekki að ábyrgjast skuldbindingar fjárfestingarbankanna. Þegar heildareignir hverrar stofnunar fyrir sig hafa verið metnar er hægt að ákveða hversu marga hluti hver hluthafi geti átt í þeim. Ég sé enga ástæðu til þess að reyna að vernda eign hluthafa í fjárfestingarbönkunum, hluthafar tóku ákvörðun um að verða hluthafar,“ segir Aliber, sem segir íslensku viðskiptabankana ekki lengur vera banka. Þeir séu meira í ætt við fjárfestingarsjóði vegna hins mikla vægis fjárfestinga í eignasafni þeirra.

Sagt er að ekkert sé nýtt undir sólinni og undir það tekur Aliber. Ekki einu sinni hinn öri vöxtur íslensku bankanna er án fordæma og segir hann einkennin dæmigerð. „Bankarnir eru mjög ungir og hafa vaxið ört. Þeir hafa enga getu til þess að verðleggja áhættu. Peningarnir voru til staðar og þeir komust að því hvernig hægt væri að græða. Hins vegar var ekki spurt hvort um skynsamlega notkum á fénu væri að ræða eður ei. Það er nokkuð ljóst að bankarnir greiddu of hátt verð fyrir dótturfélög sín erlendis og það er að sama skapi ljóst að gætu bankarnir selt þessi dótturfélög sín í dag myndu þeir gera það. Mér finnst líklegt að þeir séu að reyna að selja dótturfélögin,“ segir Aliber og bætir við að sér þyki eðlilegt að dótturfélögin séu seld áður en hið opinbera tekur stórt lán til þess að geta komið bönkunum til aðstoðar.

Annað dæmigert bólueinkenni er að hans sögn sú staðreynd að bankarnir telji sig hafa fundið upp eilífðarhreyfingu við myndun fjármagns. „Þeir telja sig hafa fundið upp gullgerð. Þetta gerðist í Japan og Taílandi, meira að segja í Bandaríkjunum. Því er hins vegar ekki farið svo að hægt sé að mynda endalaust fjármagn. Ísland er ekki einstakt í þessum skilningi og íslensku bankarnir eru það ekki heldur,“ segir Aliber.

Áhlaup sennilega hafið

Mjög litlar líkur eru á því að íslensku bankarnir geti komist hjá því að verða fyrir áhlaupi, að hans mati. „Ég tel mjög sennilegt að hljóðlátt áhlaup sé þegar hafið. Mig grunar að enginn eigandi jöklabréfa eða bankaskuldabréfa sem nálgast gjalddaga muni endurnýja þau á næstunni og ég giska á að flestir yfirmenn fjárstýringar stórfyrirtækja séu farnir að flytja fé sitt til banka utan Íslands,“ segir Aliber. Aðspurður hvort hann telji að reynt hafi verið að misnota markaðinn til þess að hagnast á íslensku bönkunum segir hann að enginn banki megi koma sér í þá stöðu að orðrómur virðist trúlegur. „Bankar eiga að forðast að vera svo nálægt brúninni og þar hafa íslensku bankarnir brugðist,“ segir hann og bætir við að ef til vill ættu bankarnir að leita samruna við stærri erlenda banka til þess að komast hjá áhlaupi. „Við vitum ekki hversu arðbær rekstur bankanna er. Við vitum að þeir voru mjög arðbærir á meðan eignaverð hækkaði en nú er lítil lánaeftirspurn, hlutabréfaverð þeirra hefur fallið en ég man ekki eftir landi sem hefur búið við jafnhátt eignaverð í hlutfalli við landsframleiðslu og komist hjá áhlaupi.“

Markmiðið á hilluna

Enn ein ráðlegging Aliber er sú að verðbólgumarkmið Seðlabankans verði lagt á hilluna, en þó verði ekki hætt við það. Aðspurður hvort það sé ráðlegt í ljósi þess trúverðugleikavanda sem Seðlabankinn býr við segir hann seðlabanka sem myndar peningaframboð ávallt búa við einhvern trúverðugleika. „Nauðsynlegt er að meta hvort kostnaðurinn við peningastefnuna sé of hár miðað við lækkun eignaverðs. Englandsbanki hefur lagt verðbólgumarkmiðið á hilluna og það hefur seðlabanki Bandaríkjanna líka gert. Ísland er heldur ekki einstakt að þessu leyti.“
Í hnotskurn
» Robert Z. Aliber er prófessor í alþjóðahagfræði og fjármálum við háskólann í Chicago. Hann stýrir rannsóknarsetri í alþjóðafjármálum við skólann.
» Hagfræðingar frá þeim skóla voru leiðandi í þróun hagfræðinnar um miðbik síðustu aldar og á síðari hluta hennar.
» Meðal hagfræðinga sem kenndir eru við Chicago-háskóla eru, auk Aliber, Milton Friedman, George Stigler, Gary Becker og Ronald Coase.

 

 

 


Að moka möl

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, lét um helgina hafa eftir sér að hann skildi ekki hvað fólki gengi til að hvetja aðra til þess að hætta að greiða af lánum sínum. Þarna virðist Gylfi hafa fallið í gryfju sem reynist okkur hagfræðingum oft erfið: að gera ráð fyrir að fólk hegði sér rökrétt (rational) og í huga langflestra hagfræðinga er það rökrétt að standa við skuldbindingar sínar hvað sem á dynur. Önnur gryfja sem Gylfi gæti hafa fallið í er að sjá ekki hvílíkur skaðvaldur verðtrygging lánsfjár er í þessu máli.

Vandamálið við verðtrygginguna er að hún hleður aftan á höfuðstól lána og lánið hækkar þótt fólk borgi og borgi. Þetta er eins og að reyna að færa malarhaug með einni skóflu en fyrir hverja skóflu sem fer af möl kemur vörubíll og sturtar nýju hlassi af möl í hauginn. Allt skynsamt fólk myndi á endanum sjá að það er til lítils að halda áfram að moka og hið sama á við um verðtryggð lán í því verðbólgubæli sem Ísland er. Ég hef í skrifum mínum sem viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu fært rök fyrir því að með afnámi verðtryggingar myndi virkni stýrivaxta Seðlabankans aukast verulega sem og að verðbólgumynstur á Íslandi myndi til lengri tíma litið (ekki lengri tíma skv. skilgreiningu hagfræðinnar) nálgast það sem þekkist annars staðar.

Greiðslubyrðin er að knésetja mörg heimili um þessar mundir og engan skal undra að fólk íhugi að hætta að borga af lánum sínum. Það er í margra huga það rökrétta í stöðunni og er eins og að hætta að moka mölina, en til þess að slík aðgerð nái einhverjum áhrifum þarf fólk að taka sig saman um að gera það. Samstilltur kór er áhrifameiri en margar hjáróma raddir, hver í sínu horni.

Að þessu sögðu tek ég fram að ég styð ríkisstjórnina og vil gjarnan sjá Gylfa Magnússon áfram í stóli ráðherra enda tel ég óhugsandi að hann hafi fallið í framannefndar gryfjur. Gylfi er að mínu mati einn hæfasti hagfræðingur okkar Íslendinga en sem ráðherra getur hann einfaldlega ekki annað en fordæmt hugmyndir af þessu tagi, þrátt fyrir að hann hafi skilning á þeim vanda sem við fólki blasir.

Það er ekki við núverandi ríkisstjórn að sakast þótt staðan sé eins og hún er og það er hægara sagt en gert að finna varanlega lausn á vandamálum skuldara. Ég hef þó fulla trú á því að nú þegar stjórnin þarf ekki stuðning framsóknar muni hugmyndir þar að lútandi líta dagsins ljós.


mbl.is Kikna undan skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir ríður á að hið opinbera, hvort sem um er að ræða ríki eða sveitarfélög, skapi störf. Miðað við þau fjárlög sem samþykkt voru í haust og þann stakk sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sniðið ríkinu er ekki hægt að búast við mikið meiru en þeim spörðum sem ríkisstjórnin tíndi til fyrr á árinu og því er mjög mikilvægt að sveitarfélögin taki við keflinu.

Hið opinbera þarf að þenja út í kreppu af því tagi sem nú herjar á heiminn, ekki bara á Íslandi, og því tel ég þetta vera mjög jákvætt skref hjá Reykjavíkurborg. Ég hef verið gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn, m.a. vegna fréttar sem birtist nýlega um afturvirkan niðurskurð fjárframlaga til Tónlistarskóla Reykjavíkur, en þetta er skref í rétta átt og vonandi verða þau fleiri.

Atvinnuleysi er mikið böl og langvarandi mikið atvinnuleysi getur gert kreppuna enn alvarlegri en hún þarf að vera. Þess vegna ber að grípa til allra ráða til þess að draga úr atvinnuleysinu, sér í lagi þegar atvinnulífið er þess ekki megnugt.


mbl.is 5200 ráðnir í sumarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband