17.4.2009 | 12:42
Hefur ekkert með tjáningarfrelsi að gera
Pirate Bay-málið hefur vakið töluverða athygli í Svíþjóð enda eru sennilega fáar þjóðir jafnduglegar Svíum við að ná sér í höfundarréttarvarið efni á netinu. Ég hef áður bloggað um skoðun mína á slíku athæfi, það er vissulega ólöglegt en þó skiljanlegt (ég hef sjálfur notað Pirate Bay endrum og eins) en ég á þó mjög erfitt með að hafa samúð með þessum drengjum sem standa að vefnum.
Einhvern tímann í vetur kom það í ljós að á Pirate Bay mátti finna öll rannsóknargögn lögreglu vegna morða á tveimur börnum í bænum Arboga, þ.m.t. krufningarskýrslur og ljósmyndir af vettvangi glæpsins. Skorað var á forsvarsmenn Pirate Bay að taka þessi gögn af vefnum en þá kom einmitt þessi Peter Sunde í fréttum og sagði það ekki koma til greina. Það væri brot á tjáningarfrelsi þess er hafði skráð gögnin í kerfi Pirate Bay.
Forsvarsmenn vefjarins telja sig standa vörð um tjáningarfrelsið, sem í mínum huga er rugl. Ólöglegt niðurhal og dreifing á illa fengnu efni hefur ekkert með tjáningarfrelsið að gera, þetta er leið markaðarins til þess að sýna framleiðendum fram á að vara þeirra er of dýr; ekkert annað. Þeir sem miðla þessu efni verða hins vegar að gera ráð fyrir möguleikanum á því að þeim sé refsað, það er í trássi við lögin hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Ég man hvað ég varð reiður þegar ég sá viðtalið við Sunde og eflaust hefur sú reiði eitthvað með skoðun mína í þessu máli að gera en það verður bara að hafa það.
Geta ekki borgað og munu ekki borga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2009 | 15:07
Verðhjöðnun vestanhafs
Í fyrsta skipti í 55 ár mælist verðhjöðnun í Bandaríkjunum. Ekki lækkun verðbólgu eins og fram kemur í frétt mbl.is heldur verðhjöðnun, þ.e. vísitala neysluverðs lækkar á milli ára. Í gær sagði Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, flest benda til þess að verðbólga myndi haldast lág um nokkurt skeið en nú er spurning hvort menn sjá fram á frekari verðhjöðnun.
Mér þykir líklegt að seðlabankastjórinn vilji sem minnst tjá sig um það mál þar sem verðhjöðnun er afar slæm fyrir efnahagslífið (að mati flestra ef ekki allra hagfræðinga er verðhjöðnun mun verri kostur en verðbólga - þess vegna hafa menn verðbólgumarkmiðið hærra en 0%) og þessi þróun sýnir umfram allt hversu alvarleg hin efnahagslega niðursveifla sem heimurinn er nú í er orðin.
Fed, bandaríski seðlabankinn, getur ekki brotið hagkerfið úr verðhjöðnuninni með vaxtalækkunum (vextir eru þegar komnir í lágmark) og nú verður hann að treysta á að aðgerðir Obama forseta til þess að snúa efnahagslífinu í gang beri árangur.
Lendi Bandaríkin í verðhjöðnunarhringrás er hætt við því að Hundadagakreppan verði mun dýpri en nú þegar er orðið.
Vísitala neysluverðs lækkar vestanhafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.4.2009 | 19:39
Klassísk stjórnunarmistök
Á sænska viðskiptavefnum e24.se hefur oft mátt finna allskondnar fréttir, svona smá krydd í tilveru þeirra sem telja viðskiptafréttir vera sínar ær og kýr - líkt og ég gerði um nokkurra ára skeið. Þar sem um viðskiptavef er að ræða tengjast fréttirnar yfirleitt viðskiptum á einhvern hátt, oft er tengingin frekar langsótt, og nú rétt fyrir páska birtist ein slík frétt. Frétt sem eflaust færi fyrir brjóstið á strangtrúuðum og áreiðanlega einhverjum fleiri.
Fréttin var unnin úr frétt sænska tímaritsins Chef um stjórnendahæfileika Jesú Krists og var sérstaklega einblínt á tíu helstu mistök hans sem stjórnenda. Stærstu mistökin voru að mati Chef að ráða Júdas Ísakaríot til starfa en annars var listinn á þessa leið:
1. Ráðning Júdasar
2. Hann eyddi of miklum tíma í vinnunni.
3. Engar konur voru í stjórnendateymi Krists.
4. Hann notaði of mikið af líkingamáli og var yfirleitt of myrkur í máli.
5. Hann notaði ótta of mikið sem stjórntæki.
6. Hann undirbjó starfslok sín ekki nægilega vel.
7. Hann var ekki samkvæmur sjálfum sér sem gat túlkast sem óákveðni.
8. Hann trassaði skattgreiðslur.
9. Hann lét framan ganga fjölskyldunni framar og sinnti henni ekki sem skyldi.
10. Honum láðist að móta stefnuna fyrir framtíðina áður en hann lét af störfum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2009 | 10:01
Hvernig á að endurgreiða styrkina?
Það er ekki ofsögum sagt að Sjálfstæðisflokkurinn logi stafnanna á milli og æ fleiri flokksmenn tala opinberlega um að þeir íhugi úrsögn úr flokknum. Reyndar hafði ég á tilfinningunni að fleyið stæði í ljósum logum áður en styrkjahneykslið kom upp og þetta mál hefur svo sannarlega ekki orðið til þess að slökkva bálið.
Sumir telja fullvíst að flokkurinn muni aldrei bera barr sitt aftur og aðrir að hann muni jafnvel splundrast. Ekki veit ég hvort ég þori að ganga svo langt en mér finnst þó afar sennilegt að hann klofni amk í tvo flokka. Hvað sem öðru líður er ljóst að í þessu ástandi er ekki nokkur möguleiki á öðru en að flokkurinn bíði sögulegt afhroð í kosningunum (reyndar stefndi í það fyrir FL-málið) og vinstri stjórnin mun starfa áfram, góðu heilli segjum við félagshyggjumenn.
Nýkjörins formanns Sjálfstæðisflokksins bíður ærinn starfi við slökkvistarfið og er hann síður en svo öfundsverður af því verkefni. Um er að ræða mikið manndómspróf og standist hann það er framtíðarleiðtogi flokksins fundinn.
Bjarni hefur lýst því yfir að flokkurinn mun endurgreiða þessa stóru styrki frá FL Group og Landsbankanum en stóra spurningin er hvort Sjálfstæðisflokkurinn eigi lausafé til þess að reiða slíkar fjárhæðir af hendi á einu bretti. Þetta er spurning sem ég veit að brennur á mörgum en mér vitanlega hafa fjölmiðlar ekki sett hana fram, ennþá.
Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.4.2009 | 07:45
Versti leikur Liverpool á tímabilinu!
Mér er til efs að ég hafi séð Liverpool spila jafnilla á þessu tímabili og í gær. Sóknirnar voru ekki nógu markvissar og vörnin hriplek. Sú leiftrandi knattspyrna sem liðið hefur verið að spila undanfarnar vikur var hvergi sjáanleg. Að sama skapi held ég að Andy Grey hjá ESPN hafi haft rétt fyrir sér þegar hann sagði Chelsea ekki hafa spilað jafnvel á þessu tímabili og í gær. Það versta er að hefði Drogba nýtt dauðafærin sín þá hefði hann getað skorað fjögur mörk
Leikurinn bar í mínum huga dæmigerðan keim af því að annað liðið skoraði of snemma. Liverpool var alls ekki búið að ná takti þegar markið kom og fyrir vikið náði liðið aldrei takti, menn töldu málið afgreitt. Vörnin var hins vegar alltof slök í þessum leik til þess að svo væri og því fór sem fór.
Leikurinn á Brúnni verður afar erfiður en ljóst er að hann verður skemmtilegri en ella því Liverpool mun ekki duga að pakka í vörn.
YNWA
Frækinn sigur Chelsea á Anfield - Barcelona burstaði Bayern | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2009 | 15:01
Búist við vaxtalækkun
Sennilega er það rétt hjá Steingrími að það er ekki gjaldeyrisleki sem veldur því að gengi krónunnar veikist. Ástæðu veikingarinnar gæti einnig verið að finna í því að Seðlabankinn tilkynnir nýja stýrivaxtaákvörðun á morgun og markaðurinn býst við lækkun vaxta og alla jafna ætti vaxtalækkun að fela í sér veikingu gjaldmiðils
Samkvæmt mínum upplýsingum býst greiningardeild eins stórs erlends banka við 1 prósentustigs lækkun, sem er töluverð lækkun og gæti að stórum hluta skýrt hraða veikingu krónunnar á undanförnum dögum.
Kann ekki skýringar á veikingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2009 | 15:20
Umræða á villigötum
Eftir að hafa lesið töluverðan fjölda bloggfærslna um þetta mál þykir mér ljóst að einhver misskilningur ríkir um þær innistæður sem fluttar voru úr Spron í Kaupþing. Einhverjir bloggarar spyrja hvort Kaupþing hafi þegar eytt peningunum og aðrir hvort staða bankans sé svo slæm að hann megi ekki við því að skila þessum smáupphæðum sem færðar voru yfir. Þessi umræða er eins og áður segir á villigötum.
Það kæmi mér allverulega á óvart hafi einhverjir peningar verið fluttir á milli við flutning innistæðna í Spron yfir í Kaupþing. Eðli bankastarfsemi samkvæmt eiga bankar aldrei nægt lausafé til þess að greiða út allar innlánsskuldbindingar sínar á skömmum tíma. Hér var því eingöngu (eða að langstærstum hluta, hafi einhvert fé verið flutt) um flutning á skuldbindingum að ræða, þ.e. Kaupþing tók yfir skuldbindingar vegna innistæðna hjá Spron. Á móti þessum skuldbindingum voru sett veð í einhverjum eignum Spron.
Í annarri frétt en þeirri sem þessi bloggfærsla er tengd við kemur fram að sú skuldbinding sem Kaupþing tók yfir sé ekki einhver smáupphæð heldur um 83 milljarðar króna. Eflaust er eitthvað af þessu innistæður fyrirtækja en gerum ráð fyrir að um fjórðungur hafi verið innistæður einstaklinga. Ég hef ekki hugmynd um hvort ótti Seðlabankans um áhlaup á Kaupþing hafi verið á rökum reistur en hættan er þó alltaf fyrir hendi. Segjum sem svo að 75% þessara innistæðna hefðu verið teknar út, það jafngildir ríflega 15 milljörðum króna sem Kaupþing hefði þurft að greiða út af eigin lausafé (enda kom lítið sem ekkert lausafé inn í bankann frá Spron).
Upphæðir af þeirri stærðargráðu myndi enginn íslenskur banki eiga auðvelt með að reiða af hendi á einu bretti í dag.
Óttast áhlaup á Kaupþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2009 | 16:36
Leiðin fundin?
Á vefsíðu Aftonblaðsins er sagt frá sænskum ofurbloggara sem í kjölfar þess að Ipred-löggjöfin tók gildi hefur gripið til þess ráðs að opna þráðlaust netverk sitt þannig að hver sem er geti farið inn á vefinn í gegnum netverk hennar og náð í höfundarréttarvarið efni.
Konan, sem heitir Marie Andersson, segir að þar sem hver sem er getur komist á netið í gegnum tengingu hennar sé alls ekki hægt að sanna að hún hafi náð í efnið og þannig telur hún sig hafa komist fram hjá lögunum nýju.
Áhugavert verður að sjá hvort tilraunin tekst.
Það sem vantar í frétt mbl.is er að dagana áður en löggjöfin tók gildi jókst netumferð umtalsvert þannig að ekki er víst að netumferð sé svo mikið minni en áður var.
Ný löggjöf dró úr netumferð í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.3.2009 | 20:28
Lög sem vinna gegn markaðslögmálunum?
Á miðnætti taka gildi svokölluð Ipred-lög hér í Svíaríki en þeim er ætlað að draga úr ólöglegri dreifingu höfundarréttarvarins efnis svo sem tónlistar og kvikmynda. Eftir að lögin taka gildi geta eigendur höfundarréttar (eða dreifingarréttar) krafið internetþjónustuaðila upplýsinga um þá viðskiptavini þeirra sem uppvísir verða að dreifingu efnisins og við slíku athæfi eru þungar sektir. Eins og nærri má geta eru lögin afar umdeild enda eru Svíar afar stórtækir í niðurhali og má sem dæmi nefna að Pirate Bay, stærsti torrent-vefur heims er sænskt fyrirbæri.
Ég hef velt hagfræðilegu hliðinni á þessu máli svolítið fyrir mér að undanförnu. Vissulega er ljótt að stela og efnið sem verið er að dreifa er stolið en á móti kemur að hvatinn til þess að stela efninu væri ekki nærri því jafn mikill væri það ódýrara. Að vissu leyti má því segja að með niðurhali sé markaðurinn að virka eins og hann getur gert best, þ.e. neytendur leita nýrra leiða til þess að draga úr kostnaði sínum við að neyta tónlistar og kvikmynda. Þetta á sérstaklega við þegar herðir í ári og ráðstöfunartekjur heimilanna dragast saman, þá munu útgjöld til þess að neyta tónlistar og kvikmynda dragast verða skorin niður - einkum þegar verð á þessum gæðum virðist frekar vera að hækka en lækka.
Gleymum ekki að markaðsvald framleiðenda og dreifenda er óvíða jafnmikið og einmitt á þeim markaði sem hér er um að ræða. Vilji ég kaupa geisladisk með tónlist uppáhaldshljómsveitarinnar minnar hef ég ekki um annað að ræða en að kaupa diskinn af útgáfufyrirtæki hljómsveitarinnar, þetta er ekki eins og að kaupa saltkex úti í búð þar sem ég get valið á milli nokkurra vörumerkja. Á sama tíma hafa útgáfufyrirtækin verið rekin með ágætis hagnaði og á hverjum degi berast okkur nýjar og nýjar sögur af saurlífi og skemmtunum listamannana um allan heim (ég geri mér grein fyrir því að hér er þó aðeins um að ræða toppinn á ísjakanum og að stór hluti listamanna lifir svipuðu lífi og við hin).
Ég tek það aftur fram að ég er alls ekki að reyna að réttlæta stuld á höfundarréttarvörðu efni en neytendur hafa árum saman reynt að senda framleiðendum þau skilaboð að varan sé of dýr. Í stað þess að lækka verðið að einhverju ráði hafa útgefendur og listamenn skýlt sér á bak við löggjafann sem alltaf tekur málstað "auðvaldsins" og mér finnst það t.d. skjóta skökku við að hægri stjórnin hér í Svíþjóð (sem hefur haft uppi fögur orð um að virkja eigi hinn alvitra markað) skuli stuðla að þessum markaðsbresti með Ipred-löggjöfinni.
Að mínu mati mun löggjöfin til lengdar ekki bera þann árangur sem ætlast er til, einhverjir munu hætta niðurhalinu tímabundið en aðrir ekki en þegar fram líða stundir munu neytendur finna nýjar leiðir til þess að komast framhjá lögunum. Ólögleg dreifing þessa efnis mun ekki hætta fyrr en verðið lækkar umtalsvert.
17.3.2009 | 12:49
Enginn kostnaður? Hvað með þá sem skulda öðrum en bönkunum?
Tryggvi Þór Herbertsson, prófessor í hagfræði og tilvonandi þingmaður, lagði í gær fram tillögu á bloggsíðu sinni um 20% niðurfellingu skulda heimila og fyrirtækja við ríkisbankana nýju. Þessi tillaga er af svipuðum meiði og tillaga framsóknarmanna um 20% flata niðurfellingu allra íbúðarlána en gengur þó ekki jafnlangt, þar sem tillaga Tryggva Þórs tekur eingöngu til skulda við bankana auk þess sem hann vill ekki að Íbúðalánasjóður taki á sig kostnaðinn við þessa aðgerð. Reyndar fullyrðir Tryggvi að enginn kostnaður verði við niðurfellinguna þar sem um sé að ræða lán sem þegar verði búið að afskrifa stærri hluta af en þau 20% sem hann leggur til.
Ég er alveg sammála Tryggva, og reyndar framsóknarmönnum líka, um að eitthvað verður að gera til þess að forðast algjört hrun í hagkerfinu og hef lagt fram mína eigin tillögu í þá átt hér á blogginu. En ég get þó ekki verið sammála honum um að enginn verði kostnaðurinn, þó ekki nema væri fyrir þá möntru okkar hagfræðinga að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.
Að öllu grínu slepptu þá vakti það athygli mína að í Kastljósi gærdagsins og í stuttu viðtali Morgunblaðsins við Tryggva Þór í morgun er hann aldrei spurður um hvað gera eigi fyrir þá sem skulda Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum landsins og sparisjóðunum. Þessi lán er ekki verið að flytja yfir í aðrar stofnanir með afföllum sem væri hægt að nota til þess að réttlæta niðurfellingu. Niðurfelling höfuðstóls þeirra lána væri því hreinn og tær kostnaður og það er í besta falli barnalegt að ætla að hægt sé að ráðast í 20% niðurfellingu skulda við bankana án þess að hið sama verði gert fyrir þá sem skulda ÍLS, lífeyrissjóðum og sparisjóðum (og reyndar fleirum, t.d. fjármögnunarfyrirtækjum því af orðum Tryggva má hvergi lesa að hann eigi eingöngu við íbúðarlán).
Mér skilst að heildarútlán ÍLS og lífeyrissjóðanna nemi um 800 milljörðum króna sem þýðir að kostnaður við 20% niðurfellingu þeirra verður um 160 milljarðar. Þá eru útlán sparisjóða eftir og þótt ég hafi enga heildartölu þar yfir þykir mér afar líklegt að 20% niðurfelling þeirra hlaupi á tugum milljarða. Það er því síður en svo hægt að fullyrða að aðgerð af þessu tagi hafi engan kostnað í för með sér og eins og áður segir er útilokað að hægt sé að fella niður skuldir við ríkisbanka án þess að hið sama gangi yfir þá sem skulda öðrum fjármálastofnunum. Ég er ekki mjög lögfróður en mér þykir þó ljóst að slíkt myndi stangast á við jafnræðisákvæðið margfræga í stjórnarskránni.
Annað sem ég hef velt fyrir mér í sambandi við þessar hugmyndir um að fela niðurfellinguna í afföllum af eignum gömlu bankanna er hvort erlendir kröfuhafar bankanna muni taka slíku þegjandi og hljóðalaust. Mikið er rætt um möguleikann á því að bakfæra tilfærslur á eignum fyrirtækja á borð við Baug til þess að eitthvað fáist upp í kröfur á hendur því fyrirtæki; á hið sama ekki við um bankana? Geta erlendir kröfuhafar ekki krafist þess að lán sem færa á yfir í nýju bankana á afslætti verði þess í stað færð til þeirra? Það væri gott ef einhver sem les þetta gæti svarað þessum spurningum.
Enn einn flötur á þessu máli er spurningin um hvaða réttlæti felst í því að nýju bankarnir geti keypt kröfur gömlu bankanna á t.d. 50% afföllum og síðan innheimt fyrir 100%, nú eða 80%. Það er hins vegar önnur saga.
Viðskipti og fjármál | Breytt 31.3.2009 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)