Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Lög sem vinna gegn markaðslögmálunum?

Á miðnætti taka gildi svokölluð Ipred-lög hér í Svíaríki en þeim er ætlað að draga úr ólöglegri dreifingu höfundarréttarvarins efnis svo sem tónlistar og kvikmynda. Eftir að lögin taka gildi geta eigendur höfundarréttar (eða dreifingarréttar) krafið internetþjónustuaðila upplýsinga um þá viðskiptavini þeirra sem uppvísir verða að dreifingu efnisins og við slíku athæfi eru þungar sektir. Eins og nærri má geta eru lögin afar umdeild enda eru Svíar afar stórtækir í niðurhali og má sem dæmi nefna að Pirate Bay, stærsti torrent-vefur heims er sænskt fyrirbæri.

Ég hef velt hagfræðilegu hliðinni á þessu máli svolítið fyrir mér að undanförnu. Vissulega er ljótt að stela og efnið sem verið er að dreifa er stolið en á móti kemur að hvatinn til þess að stela efninu væri ekki nærri því jafn mikill væri það ódýrara.  Að vissu leyti má því segja að með niðurhali sé markaðurinn að virka eins og hann getur gert best, þ.e. neytendur leita nýrra leiða til þess að draga úr kostnaði sínum við að neyta tónlistar og kvikmynda. Þetta á sérstaklega við þegar herðir í ári og ráðstöfunartekjur heimilanna dragast saman, þá munu útgjöld til þess að neyta tónlistar og kvikmynda dragast verða skorin niður - einkum þegar verð á þessum gæðum virðist frekar vera að hækka en lækka.

Gleymum ekki að markaðsvald framleiðenda og dreifenda er óvíða jafnmikið og einmitt á þeim markaði sem hér er um að ræða. Vilji ég kaupa geisladisk með tónlist uppáhaldshljómsveitarinnar minnar hef ég ekki um annað að ræða en að kaupa diskinn af útgáfufyrirtæki hljómsveitarinnar, þetta er ekki eins og að kaupa saltkex úti í búð þar sem ég get valið á milli nokkurra vörumerkja. Á sama tíma hafa útgáfufyrirtækin verið rekin með ágætis hagnaði og á hverjum degi berast okkur nýjar og nýjar sögur af saurlífi og skemmtunum listamannana um allan heim (ég geri mér grein fyrir því að hér er þó aðeins um að ræða toppinn á ísjakanum og að stór hluti listamanna lifir svipuðu lífi og við hin).

Ég tek það aftur fram að ég er alls ekki að reyna að réttlæta stuld á höfundarréttarvörðu efni en neytendur hafa árum saman reynt að senda framleiðendum þau skilaboð að varan sé of dýr. Í stað þess að lækka verðið að einhverju ráði hafa útgefendur og listamenn skýlt sér á bak við löggjafann sem alltaf tekur málstað "auðvaldsins" og mér finnst það t.d. skjóta skökku við að hægri stjórnin hér í Svíþjóð (sem hefur haft uppi fögur orð um að virkja eigi hinn alvitra markað) skuli stuðla að þessum markaðsbresti með Ipred-löggjöfinni.

Að mínu mati mun löggjöfin til lengdar ekki bera þann árangur sem ætlast er til, einhverjir munu hætta niðurhalinu tímabundið en aðrir ekki en þegar fram líða stundir munu neytendur finna nýjar leiðir til þess að komast framhjá lögunum. Ólögleg dreifing þessa efnis mun ekki hætta fyrr en verðið lækkar umtalsvert.


Enginn kostnaður? Hvað með þá sem skulda öðrum en bönkunum?

Tryggvi Þór Herbertsson, prófessor í hagfræði og tilvonandi þingmaður, lagði í gær fram tillögu á bloggsíðu sinni um 20% niðurfellingu skulda heimila og fyrirtækja við ríkisbankana nýju. Þessi tillaga er af svipuðum meiði og tillaga framsóknarmanna um 20% flata niðurfellingu allra íbúðarlána en gengur þó ekki jafnlangt, þar sem tillaga Tryggva Þórs tekur eingöngu til skulda við bankana auk þess sem hann vill ekki að Íbúðalánasjóður taki á sig kostnaðinn við þessa aðgerð. Reyndar fullyrðir Tryggvi að enginn kostnaður verði við niðurfellinguna þar sem um sé að ræða lán sem þegar verði búið að afskrifa stærri hluta af en þau 20% sem hann leggur til.

Ég er alveg sammála Tryggva, og reyndar framsóknarmönnum líka, um að eitthvað verður að gera til þess að forðast algjört hrun í hagkerfinu og hef lagt fram mína eigin tillögu í þá átt hér á blogginu. En ég get þó ekki verið sammála honum um að enginn verði kostnaðurinn, þó ekki nema væri fyrir þá möntru okkar hagfræðinga að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.

Að öllu grínu slepptu þá vakti það athygli mína að í Kastljósi gærdagsins og í stuttu viðtali Morgunblaðsins við Tryggva Þór í morgun er hann aldrei spurður um hvað gera eigi fyrir þá sem skulda Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum landsins og sparisjóðunum. Þessi lán er ekki verið að flytja yfir í aðrar stofnanir með afföllum sem væri hægt að nota til þess að réttlæta niðurfellingu. Niðurfelling höfuðstóls þeirra lána væri því hreinn og tær kostnaður og það er í besta falli barnalegt að ætla að hægt sé að ráðast í 20% niðurfellingu skulda við bankana án þess að hið sama verði gert fyrir þá sem skulda ÍLS, lífeyrissjóðum og sparisjóðum (og reyndar fleirum, t.d. fjármögnunarfyrirtækjum því af orðum Tryggva má hvergi lesa að hann eigi eingöngu við íbúðarlán).

Mér skilst að heildarútlán ÍLS og lífeyrissjóðanna nemi um 800 milljörðum króna sem þýðir að kostnaður við 20% niðurfellingu þeirra verður um 160 milljarðar. Þá eru útlán sparisjóða eftir og þótt ég hafi enga heildartölu þar yfir þykir mér afar líklegt að 20% niðurfelling þeirra hlaupi á tugum milljarða. Það er því síður en svo hægt að fullyrða að aðgerð af þessu tagi hafi engan kostnað í för með sér og eins og áður segir er útilokað að hægt sé að fella niður skuldir við ríkisbanka án þess að hið sama gangi yfir þá sem skulda öðrum fjármálastofnunum. Ég er ekki mjög lögfróður en mér þykir þó ljóst að slíkt myndi stangast á við jafnræðisákvæðið margfræga í stjórnarskránni.

Annað sem ég hef velt fyrir mér í sambandi við þessar hugmyndir um að fela niðurfellinguna í afföllum af eignum gömlu bankanna er hvort erlendir kröfuhafar bankanna muni taka slíku þegjandi og hljóðalaust. Mikið er rætt um möguleikann á því að bakfæra tilfærslur á eignum fyrirtækja á borð við Baug til þess að eitthvað fáist upp í kröfur á hendur því fyrirtæki; á hið sama ekki við um bankana? Geta erlendir kröfuhafar ekki krafist þess að lán sem færa á yfir í nýju bankana á afslætti verði þess í stað færð til þeirra? Það væri gott ef einhver sem les þetta gæti svarað þessum spurningum.

Enn einn flötur á þessu máli er spurningin um hvaða réttlæti felst í því að nýju bankarnir geti keypt kröfur gömlu bankanna á t.d. 50% afföllum og síðan innheimt fyrir 100%, nú eða 80%. Það er hins vegar önnur saga.


Of snemmt að blása kreppuna af

Allar helstu hlutabréfavísitölur heimsins hafa hækkað umtalsvert undanfarna daga og rekja sérfræðingar það til þess að loksins sjái fyrir lokin á vandræðum stærstu banka heims. Vissulega er þessi þróun jákvæð en það vekur athygli mína hversu varkárir allir spekingar og fjölmiðlar eru í að lýsa því yfir að tekist hafi að afstýra kreppu í heiminum.

Þetta er til marks um þá miklu óvissu sem ríkir í hagkerfum heimsins enda er lægðin ekki bundin við fjármálamarkaði eingöngu. Víða eru enn blikur á lofti um mikinn efnahagssamdrátt (yfirlýsingar Jean-Claude Trichet í liðinni viku virðast ekki hafa náð að sannfæra marga), atvinnuleysi er enn að aukast og fjöldi fyrirtækja um allan heim, stórra sem smárra, á í miklum rekstrarerfiðleikum.

Ennfremur er ómögulegt að segja til um hvort botninum sé náð. Á tímum sem þessum þarf lítið til þess að markaðurinn alvitri fyllist skyndilegu bjartsýniskasti og lækki síðan enn meira en áður þegar menn átta sig á því að bjartsýnin átti ekki fyllilega rétt á sér. 

Í þriðja lagi er ljóst að spekingarnir eru ekki jafn yfirlýsingaglaðir og áður, enginn vill vera maðurinn sem hafði rangt fyrir sér. 

Vonandi bendir hækkun undanfarinna daga til þess að betri tíð sé í vændum en það er enn alltof snemmt að blása kreppuna af.


mbl.is Hækkanir vestanhafs fjórða daginn í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun

Yfirtaka ríkisins á banka er örþrifaráð sem gripið er til þegar ljóst er að ekki er önnur leið til þess að bjarga þeim verðmætum sem þar eru. Ljóst er að bankinn hefði ekki getað staðið við næstu gjalddaga á eftir þeim sem nú var um að ræða. 

Á næstu mánuðum má ætla að Straumur verði bútaður sundur og bestu bútarnir seldir en það sem ekki næst að koma í verð verður lagt niður, þessu má líkja við úreldingu skips. Hinn kosturinn hefði verið að láta bankann í gjaldþrotaskiptameðferð en hætt er við því að töluvert af verðmætunum hefði glatast, einfaldlega þar sem slíkt ferli myndi ganga mun hraðar fyrir sig og menn væntanlega sætta sig við lægri upphæðir fyrir eignir bankans.

Þess vegna verður ákvörðun FME að teljast skynsamleg.

 


mbl.is Gylfi: Fleira kom til hjá Straumi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivaxtalækkun ekki líkleg ef marka má orð seðlabankastjóra

Eflaust hafa margir vonað að með nýjum húsbónda í Svörtuloftum myndi vaxtastefna Seðlabankans breytast og vextir brátt taka að lækka. Ljóst er að háir stýrivextir eru mörgum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, afar þungur baggi og því ekki að undra að kröfur séu uppi um að lækka vexti.

Eftir að hafa lesið viðtal Viðskiptablaðsins við Svein Harald Öygard sýnist mér ljóst að ekki verði mönnum að þeirri ósk sinni. Augljóst er í stjórnartíð hans verður lögð höfuðáhersla á að afnema þau gjaldeyrishöft sem nú eru í gildi og til þess þarf að styrkja krónuna.

„Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að krónan sé stöðug og þá verður hægt að afnema gjaldeyrishöftin,“ segir Öygard í viðtalinu en skömmu áður hafði hann sagt það vera forgangsatriði að afnema gjaldeyrishöftin.

Hið opinbera hefur ekki mörg úrræði til þess að styrkja krónuna. Í raun er þetta allt saman spurning um framboð og eftirspurn. Að því gefnu að framboðið verði óbreytt þarf hið opinbera að finna leiðir til þess að auka eftirspurn eftir krónum. Þá er spurningin hvernig þetta er gert. Ein leið er að Seðlabankinn verði virkur kaupandi á krónum á gjaldeyrismarkaði en til þess verður hann að hafa tiltölulega stóran gjaldeyrisforða, sennilega töluvert stærri en nú er.

Önnur leið er að fá erlenda fjárfesta til þess að vilja fjárfesta á Íslandi. Þetta er auðveldast gert með háum vöxtum og þess vegna tel ég einsýnt að ekki verður hróflað við vaxtastigi á næstunni enda svarar Öygard þegar hann er spurður hvenær hann sjái fyrir sér að stýrivextir lækki: „Þegar verðbólguþrýstingur lækkar og það mun gerast með sterkara gengi krónunnar.“

Sem sagt, vextir fara ekki að lækka fyrr en gengi krónunnar eru orðið nægilega sterkt. Nú vildi seðlabankastjórinn vissulega ekki tjá sig um það hversu sterk krónan þurfi að vera en mér þykir líklegt að hún sé enn talin alltof veik.


Verulegur kostnaður

Ein helsta ástæða þess að ég tel hið opinbera eiga að leggja út í opinberar framkvæmdir, t.d. vegagerð og gangagerð, er einmitt sú að ríkið mun hafa töluverðan kostnað af atvinnuleysisbótum. Seinna, það er ekki mjög langt þangað til, munum við fá að sjá fréttir um að kostnaður hins opinbera vegna t.d. sálfræðihjálpar og fleiri félagslegra úrræða hefur aukist. Ástæðan er einfaldlega sú að það leggst á sálina á fólki, a.m.k. flestu, að vera atvinnulaust.

Með því að leggjast í mannaflsfrekar opinberar framkvæmdir má tryggja töluverðum fjölda þess fólks sem nú er atvinnulaust vinnu, fyrir mitt leiti veit ég t.d. að ég myndi frekar vilja vera úti að vinna fyrir t.d. 10 þúsund krónum meira á mánuði en atvinnuleysisbæturnar eru, heldur en að sitja heima og gera ekki neitt. Vissulega er launakostnaður ekki eini kostnaðurinn þegar framkvæmdir eru annars vegar en hann engu að síður er veigamikill kostnaðarliður. Annar kostnaður er efnis- og tækjakostnaður en mér þykir mjög líklegt að flest öll nauðsynleg tæki séu til í landinu og standi óhreyfð (óneitanlega virðast það nú hafa verið mistök að láta Impregilo-borinn fara úr landi).

Mikilvægt er að velja framkvæmdirnar vel þannig að um sé að ræða framkvæmdir sem nýtast samfélaginu í framtíðinni, gera það skilvirkara.


mbl.is Tveir milljarðar króna í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökin fyrir því að frysta bankakerfið í eitt ár

Fyrir ekki svo löngu síðan lagði ég hér á blogginu fram þá hugmynd að íslenska bankakerfið yrði fryst í eitt ár miðað við stöðu einhvers fyrirfram ákveðins dags. Þetta er hugmynd sem fæddist hjá mér í haust þegar ég var að ræða við fyrrum kollega minn af Morgunblaðinu um frystingu á gengistryggðum lánum. Því meira sem ég velti þessu fyrir mér því sannfærðari verð ég um ágæti þessarar hugmyndar og að hún sé framkvæmanleg. Í áðurnefndri bloggfærslu fór ég ekki mjög ítarlega ofan í hvað ég á við en það hyggst ég gera nú.

Með frystingu bankakerfisins á ég við að frá og með þeim degi sem frystingin á sér stað,  segjum t.d. 15. mars, muni viðskiptavinir bankanna (og reyndar Íbúðalánasjóðs líka) ekki þurfa að greiða af lánum sínum í eitt ár og ég tek það fram að hér er átt við alla viðskiptavini (einstaklinga og fyrirtæki), öll lán og jafnframt að skuldirnar munu ekki safna vöxtum og verðbótum á meðan frystingin er í gildi. Að sama skapi þurfa bankarnir ekki að greiða vexti af innlánum og ekki af annarri fjármögnun á sama tímabili. Ekkert kemur inn og ekkert fer út miðað við stöðuna þann 15. mars, en innistæðueigendur geta þó tekið út eins og venjulega. Þessi frysting er síðan í gildi í eitt ár en það þýðir þó ekki að allir bankar verði lokaðir í eitt ár, bankakerfið heldur áfram að virka eins og það gerði fyrir frystingu þannig að greitt er af öllum lánum sem veitt eru eftir 15. mars, bæði vextir og afborganir, og greiddir eru vextir af öllum innlánum sem lögð eru inn eftir 15. mars.

Á sama tíma verður komið á skyldusparnaði upp á t.d. 20-30% en afganginum af ráðstöfunartekjum sínum geta neytendur, og fyrirtæki, ráðstafað að vild. Skyldusparnaðurinn ber vexti og greiðsla hvers mánaðar er laus til útborgunar ári eftir að hún er lögð inn. Bankakerfið ætti því ekki að komast í lausafjárþrot þar sem velta verður töluverð í hagkerfinu.

Með frystingunni er umsvifalaust reist hin margumrædda skjaldborg um efnahag heimila og fyrirtækja auk þess sem hún gefur stjórnvöldum ráðrúm til þess að meta í ró og næði kostina hvað varðar niðurfærslu skulda og jafnframt að vinda ofan af verðtryggingunni og afnema hana síðan í ró og næði. Að sama skapi geta neytendur notað allar ráðstöfunartekjur sínar, að undanskildum skyldusparnaðinum, í hinn daglega rekstur heimilisins og þannig má snúa hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Skyldusparnaðurinn gefur heimilum og fyrirtækjum síðan kost á því að byggja upp varasjóð auk þess sem ört byggist upp fjárfestingargeta í hagkerfinu, svipað og lífeyrissjóðirnir, sem nota má til opinberra framkvæmda er auka skilvirkni samfélagsins, t.d. vegagerðar o.s.frv.

Eins og ég sagði í upphafi þá er ég þess fullviss að þessi leið er framkvæmanleg en spurningin er hins vegar um kostnaðinn sem ég hef ekki upplýsingar til þess að meta. Ljóst er að allar leiðir til þess að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu verða dýrar og bera verður saman kostnaðinn af hinum ýmsu tillögum og skoða hann einnig í ljósi fórnarkostnaðarins, þ.e. hins samfélagslega kostnaðar sem hlýst af því að gera ekki neitt.

Ég vona að mér hafi takist að skýra þetta út á skiljanlegan hátt og mér þætti vænt um að fá athugasemdir við þessar vangaveltur.


Hefði átt að auka bindiskylduna í haust?

Þar sem ég hef verið búsettur erlendis síðan í ágúst hef ég ekki náð að fylgjast með allri umræðunni á Íslandi í vetur en ég verð að segja að mér þykir það undarlegt ef rætt hefur verið um að auka hefði þurft bindiskylduna í haust, skömmu áður en bankakerfið hrundi. Það er vel hugsanlegt að umræðan hafi verið á þann veg en hverju hefði það breytt að auka bindiskylduna í haust?

Hefði það ekki eingöngu aukið enn frekar á lausafjárvanda bankanna og jafnvel flýtt hruninu? Ef til vill hefði þá meira fé legið á reikningum í Seðlabankanum en miðað við stöðuna í ágúst reikna ég ekki með að neitt hefði skilað sér inn, þar sem bankarnir máttu ekki við því að missa krónu af því fé sem þeir þó höfðu.

Að mínu mati hefði verið óðs manns æði að hækka bindiskylduna í haust en ég man reyndar ekki eftir að hafa heyrt Davíð orða þetta á þennan hátt í Kastljósinu, kannski er þetta bara undarlega orðað hjá mbl.is. 

Að mínu mati má hins vegar deila um hvort rétt hafi verið að helminga bindiskyldu skammtímainnlána og þannig auka peningamagn í umferð verulega árið 2003. 


mbl.is Aukin bindiskylda hefði engu máli skipt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrmir vissi hvað hann söng

Mikið hefur verið fjallað um bresku Jómfrúreynna Tortola að undanförnu í íslenskum fjölmiðlum og skal engan undra. Ég verð þó að viðurkenna að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri minnst á hana.

Í Staksteinum Morgunblaðsins hinn 24. nóvember 2005 stóð eftirfarandi "... Slík pólitísk tengsl geta t.d. hjálpað til við að finna skattsvikið fé, sem aftur eru rök fyrir því, að Ísland rækti pólitísk tengsl við Tortillaeyjur í Karíbahafinu en þangað liggja t.d. athyglisverðir þræðir úr íslenzku viðskiptalífi."

Við blaðamenn á viðskiptaritstjórn höfðum lent upp á kant við ritstjóra blaðsins og gáfum lítið fyrir þetta, vorum þess fullvissir að einhver hefði verið að plata kallinn enda vita allir að tortilla er ekki eyjar heldur matur. Ég man að ég sló meira að segja upp á þessu á netinu og það næsta sem komst því að heita Tortillaeyjar var Tortola-eyja. Sú eyja var ein gata með nokkrum húsum.

Síðar meir lærði ég að taka nær alltaf mark á Styrmi (fyrir utan ESB-mál). Hvað varðar skattaskjól hefðu e.t.v. fleiri betur gert það.


mbl.is Skattaskjól skoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vaxtalækkun ráðleg nú?

Ég get tekið undir að það væri ágætt ef lífeyrissjóðirnir færðu erlendar eignir sínar til Íslands en er þó ekki viss um að vilji til slíks sé hjá sjóðunum. Hvað varðar lækkun stýrivaxta tel ég það ekki jafn góða hugmynd.

Í fyrsta lagi er ekkert sem segir að þótt Seðlabankinn lækki stýrivexti muni bankarnir fylgja í kjölfarið enda eru stýrivaxtabreytingar ekki fyrirmæli til banka heldur tilmæli. Á meðan verðbólga er há munu bankarnir ekki lækka vexti nema fá um það fyrirmæli frá ríkinu enda væri raunávöxtun lánsfjár þá neikvæð. Ríkið getur greitt niður tap ríkisbankanna af neikvæðri raunávöxtun en ég velti fyrir mér hvað verður um tap sparisjóða af henni? Á ríkið að taka það tap á sig?

Vaxtalækkuninni er án vafa ætlað að auka eftirspurn í hagkerfinu en ég er ekki sannfærður um að hún muni hafa tilætluð áhrif. Skuldir almennings eru að stærstum hluta verðtryggðar og því mun stýrivaxtalækkun ekki hafa nokkur áhrif þar á. Hvað gengistryggðar skuldir varðar mun vaxtalækkun ekki hafa nokkur áhrif, nema til veikingar krónunnar verði gjaldeyrishöftum aflétt, og því er hún til lítils. Vissulega mun vaxtalækkun hafa áhrif til lækkunar vaxtakostnaðar óverðtryggðra skulda en hver heildaráhrifin af því eru þarf að leggja mat á.

Í raun tel ég vaxtalækkun nú vera ávísun á að verðtrygging lánsfjár fer hvergi, fjármálastofnanir og fjármagnseigendur munu gera kröfu um jafnvel enn víðtækari verðtryggingu, og það er að mínu mati mun brýnna viðfangsefni að afnema verðtrygginguna en að lækka vexti.

Annars tel ég þá hugmynd mína að frysta bankakerfið enn þess virði að skoða af alvöru.

Viðbót: Sé hugmyndin sú að auka eftirspurn eftir fjármagni tel ég heimilum og fyrirtækjum í landinu lítinn greiða gerðan með því að auka möguleika þeirra á skuldsetningu. 


mbl.is Vextir lækki strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband