„Var ég að vekja þig?“

Sennilega hafa allir einhvern tíma lent í því að hringja Á KRISTILEGUM TÍMA í vin eða ættingja, nú eða bara einhvern annan, og svefndrukkin rödd svarar. „Var ég að vekja þig?“ tíðkast þá að spyrja og í 9 af hverjum 10 tilvikum er svarið eitthvað á þessa leið: „Nei, alls ekki. Ég er löngu vöknuð/vaknaður! Var bara að geispa.“ Þetta þrátt fyrir að það fari alls ekkert á milli mála að viðkomandi var steinsofandi þegar síminn byrjaði að hringja. Ég tek það fram að ég er engin undantekning.

Mér hefur alltaf þótt þetta fyrirbæri mannlegrar náttúru afskaplega merkilegt og jafnvel forvitnilegt. Af hverju svarar fólk ekki einfaldlega sannleikanum samkvæmt og viðurkennir að það hafi verið sofandi? Vissulega gerist það endrum og eins (í 9 af hverjum 10 tilvikum segi ég hér að ofan) að viðkomandi viðurkenni að hafa verið sofandi og vissulega getur það komið fyrir að viðkomandi hafi í raun verið vakandi en yfirleittgetur fólk ekki viðurkennt að það hafi verið í fasta svefni þegar síminn hringdi. Hvers vegna?

Þar sem ég er áhugamaður um mannlega hegðun, að mínu mati verður hagfræðingur að velta því fyrir sér hvers vegna fólk heðgar sér eins og það gerir, hef ég pælt töluvert í þessu í gegnum árin og ég er með kenningu. 

Ég held að þetta fyrirbæri skýrist af því að fólk vilji ekki sýna veikleikamerki, það að vera sofandi á tímum sem flestir eru vakandi (eins og fram kemur í upphafi er ég að tala um símtöl á tíma sem flokkast til kristilegs tíma) er í huga margra veikleikamerki og það viljum við fyrir alla muni forðast. Þess vegna viðurkennum við ekki að hafa verið sofandi.


JKG: Mikilsmetinn og umdeildur hagfræðingur

Einn allra merkasti hagfræðingur sögunnar er að mínu mati John Kenneth Galbraith. Sá var á sínum tíma í hópi efnahagsráðgjafa Franklin Delano Roosevelt og sömuleiðis John F. Kennedy. Galbraith þessi, sem var talsmaður Keynesískrar hagfræði og sömuleiðis Stokkhólmsskólans svokallaða, var mikils metinn álitsgjafi, rithöfundur og kennari en lagði þó ekki mikið af mörkum til fræðikenninga - hann var öðru fremur „praktískur“ hagfræðingur, ef svo má að orði komast, en ekki teóretískur. Það ætti því ekki að koma á óvart að Galbraith deildi mikið á þá stefnu sem hagfræðin hafði tekið, m.a. var honum mjög uppsigað við stærðfræðiáráttu fræðibræðra sinna (og minna).

Af svipuðum meiði sprottin var „How did economists get it so wrong?“, stórmerkileg grein Paul Krugman í NY Times haustið 2009. Skyldulesning fyrir alla hagfræðinga og alla þá sem hafa áhuga á viðfangsefninu. Á Youtube má finna mjög skemmtileg myndbönd með Galbraith, m.a. röð sjónvarpsþátta sem kallast The Age of Uncertainty, en ein bóka hans hét einmitt því nafni, Öld óvissunar - hugmyndir hagfræðinnar og áhrif þeirra.

Þegar ég var í grunnnáminu í hagfræði fann ég á bókasafninu í Skövde bókina A journey through economic times eftir Galbraith en þar fjallar hann um hagsögu 20. aldar með sínu nefi. Stórgóð bók sem veitti mér mikinn innblástur í námi mínu og skoðunum mínum á hagfræði. Þess má líka geta að Galbraith lauk doktorsnámi í landbúnaðarhagfræði, sem er einmitt viðfangsefni mitt í mínu námi. 

Árið 2005 skrifaði ég heilsíðugrein um Galbraith í Viðskiptablað Morgunblaðsins, þá var hann orðinn 96 ára gamall og átti aðeins tæpt ár eftir ólifað. Áður en ég birti það vil ég þó benda á mjög skemmtilegt viðtal við þennan merka hagfræðing:

Hér má svo lesa grein mína um John Kenneth Galbraith sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 30. júní 2005:

 

Mikilsmetinn og umdeildur hagfræðingur

Ráðgjafi forseta, sendiherra, prófessor, metsöluhöfundur, einn áhrifamesti menntamaður síns tíma. Allar þessar lýsingar eiga við bandaríska hagfræðinginn John Kenneth Galbraith. Guðmundur Sverrir Þór hefur kynnt sér feril hans.

L ifandi goðsögn. Þessi orð lýsa sennilega stöðu Johns Kenneth Galbraith í hagfræðiheiminum best. Galbraith sem fæddist í Iona Station í Ontario-fylki í Kanada 15. október 1908 hefur alla tíð verið hálfgerður utangarðsmaður í heimi hagfræðinga, það mætti jafnvel kalla hann andófsmann. Engu að síður hafa fáir haft jafn mikil áhrif á hagfræði nútímans og sennilega hefur enginn samtímamanna hans notið jafnmikillar hylli meðal lesenda og Galbraith sem verður 97 ára í október næstkomandi

Ómyrkur í máli

Það hefur ávallt einkennt Galbraith að hann liggur ekki á skoðunum sínum. "Tæpitunga er honum fjarri, af því hann er sannfærður um það, að þeir sem slá úr og í, rjúfa aldrei þá skel vanahugsunar, sem svo mjög ríkir í þjóðfélagslegum efnum. Til að ná þessu markmiði er honum gjarnt að setja skoðanir sínar fram á sem vægðarlausastan hátt, og velur hann þá einatt að skotmörkum þá menn, sem eru bestir fulltrúar úreltrar vanahugsunar," segir Jóhannes Nordal, fyrrum seðlabankastjóri, í inngangi sínum að íslenskri útgáfu ritsins Iðnríki okkar daga eftir Galbraith.

Hann hefur alla tíð gagnrýnt hina stærðfræðilegu nálgun sem hagfræðin hefur haft frá því um miðja síðustu öld en hann telur slíka nálgun gera lítið úr greininni og viðfangsefnum hennar. Þessa gagnrýni sína hefur hann byggt á því að stærðfræðileg nálgun gerir ráð fyrir að allar aðrar breytur en sú sem verið er að rannsaka séu óbreyttar. Þetta gerir það að verkum að hagfræðingar ná síður heildaryfirsýn yfir viðfangsefni sitt að mati Galbraiths.

Uppreisn æru á ævikvöldinu

Nýlega kom út ævisaga Galbraiths, rituð af Richard Parker, og í bókardómi um hana í The New York Review of Books segir að tímasetning ævisögunnar sé heppileg þar sem margir hagfræðingar eru farnir að efast um ágæti einhverra kenninga þeirra sem Galbraith hefur gagnrýnt gegnum tíðina. Má því segja að skoðanir hans séu að fá uppreisn æru á ævikvöldi hans.

Bókarýnir NYRB telur það til marks um mikið hugrekki og sjálfstraust Galbraiths að hafa staðið svo fast á skoðunum sínum. Hann aðhylltist kenningar breska hagfræðingsins Johns Maynard Keynes en vildi jafnvel ganga enn lengra sem varð til þess að honum var næstum því neitað um fastráðningu hjá Harvard-háskólanum. En víkjum nú aðeins að menntun hans.

Búfræðingur

Galbraith skráði sig í landbúnaðarháskóla í Ontario og nam búfræði. Hann þótti góður rithöfundur og tók meðal annars þátt í því að koma á fót skólablaði. Að lokinni gráðu í búfræði hlaut hann styrk til doktorsnáms í landbúnaðarhagfræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1931.

Þar var hann vel skólaður í kenningum Alfreds Marshall, svokölluðum nýklassískum kenningum, sem í riti sínu The Principles of Economics frá 1890 endurbætti kenningar Adams Smith. Megináherslan í kenningum Smith gekk út á að framleiðni hagkerfis muni vaxa náttúrulega og ná hámarki sínu ef samkeppni ríkir. Marshall byggði ofan á þessar kenningar og var það hann sem kynnti til sögunnar framboðs- og eftirspurnarkúrfurnar sem flestir hagfræðinemar kynnast strax á fyrsta ári náms síns. Það sama gilti um vinnumarkaðinn að mati þeirra Smith og Marshall.

Helstu áhrifavaldarnir

Eins og áður sagði hóf Galbraith hagfræðinám sitt árið 1931 en þá var Kreppan mikla í hámarki og þegar verk hans eru lesin verður öllum ljóst að skoðanir hans hafa litast verulega af þeim veruleika sem hann sá á degi hverjum, atvinnuleysi og eymd. Það er því kannski ekki að furða að hann aðhylltist frekar skoðanir Karls Marx og Torsteins Veblen. Er það mat ævisagnaritara Galbraith að áhrif Veblen, sem var áhrifamikill samfélagsgagnrýnandi um aldamótin 1900, á hinn unga hagfræðinema hafi verið enn meiri en áhrif Marx.

Eitt af höfuðritum hagfræðinnar er Altæka kenningin um vinnu, vexti og peninga eftir John Maynard Keynes, sem kom út árið 1936. Ekki er hægt að gera grein fyrir ferli Galbraith án þess að minnast á það rit, svo mikil áhrif hafði það á hann sem og aðra hagfræðinga þess tíma. Það sem hinum klassísku hagfræðingum, meðal þeirra Marshall, hafði mistekist tókst Keynes. Hann gat skýrt ástæður kreppunnar á einfaldan hátt og sýnt fram á einfalda lausn, aukin afskipti hins opinbera af efnahagsmálum.

Prófessor við Harvard

Galbraith lauk doktorsnámi sínu í Berkeley árið 1934 og í kjölfarið fékk hann starf sem kennari við Harvard-háskólann. Staðan var fjármögnuð af kanadískum yfirvöldum og er það talið til marks um hugrekki hans og sjálfstraust að sækjast eftir starfi við Harvard sem gjarnan er talinn vera besti háskóli í heimi. Í Harvard komst Galbraith í kynni við John D. Black, sem var einn af leiðandi landbúnaðarhagfræðingum Bandaríkjanna og ráðgjafi Roosevelt forseta sem á þeim tíma var að koma New Deal-stefnu sinni í framkvæmd. Black þessi tók hinn unga Galbraith undir verndarvæng sinn og barðist fyrir því að hann yrði endurráðinn til skólans að lokinni seinni heimsstyrjöld en fyrri ráðning hans hjá skólanum var tímabundin og hafði hann ekki fengið endurnýjun, m.a. vegna skoðana sinna. Það var árið 1948 sem hann fékk fastráðningu hjá Harvard en þá hafði hann kennt við bæði Princeton og Kaliforníu-háskóla. Hjá Harvard hefur hann starfað alla tíð síðan, með nokkrum hléum en hann fór formlega á eftirlaun árið 1975. Hann er nú heiðursprófessor við Harvard og hefur kennt þar af og tilalla tíð síðan hann fór á eftirlaun.

Starfað fyrir forseta

Galbraith hefur alla tíð frá barnsbeini haft áhuga á stjórnmálum en faðir hans var virkur í Frelsisflokknum í Kanada. Ekki fer neinum sögum af menntun hans en sagt er hann hafi lagt mikla áherslu á þátttöku hins opinbera í efnahagsmálum og má því segja að Galbraith hinum yngri hafi kippt í kynið.

Í upphafi fimmta áratugarins var hann ráðinn sem yfirmaður bandarísku verðlagsstofunnar sem var mjög umdeild stofnun. Búist var við því að verðbólga færi úr böndunum um það leyti vegna hinnar miklu þenslu sem framleiðsla hergagna olli í hagkerfinu. Þeim Galbraith og Leon Henderson, sem var hans nánasti yfirmaður, tókst þó að hafa hemil á verðlaginu en uppskáru fyrir vikið óvild margra og þurftu þeir báðir að segja af sér á endanum. Var Galbraith meðal annars legið á hálsi fyrir að hafa kommúnískar hneigðir.

Andstæðingur stríðsins í Víetnam

Þegar John F. Kennedy sóttist eftir forsetaembættinu leitaði hann til Galbraith eftir ráðgjöf en Kennedy hafði verið nemandi hins síðarnefnda nokkrum árum áður. Í þakkarskyni fyrir aðstoðina skipaði hann fyrrum kennara sinn svo sendiherra á Indlandi, nokkuð sem veitti Galbraith ómælda ánægju. Þrátt fyrir að vera í órafjarlægð átti hann eyra forsetans og er hann sagður hafa verið helsti ráðgjafi Kennedy í efnahagsmálum. Sagt er að honum hafi nær tekist að sannfæra Kennedy um að draga Bandaríkin úr Víetnamstríðinu þegar forsetinn var myrtur haustið 1963. Hann starfaði um skeið með Lyndon Johnson, eftirmanni Kennedys, en þá greindi á um stríðið og sneri Galbraith sér aftur að kennslu stuttu seinna.

Metsöluhöfundur

Árið 1943 var Galbraith ráðinn í starf ritstjóra hins virta tímarits Fortune. Sagan hermir að þar hafi hann þróað hinn beinskeytta stíl sinn sem hann hefur síðan orðið frægur fyrir. Hann hefur skrifað nokkrar metsölubækur um hagfræðileg málefni og eru Iðnríki okkar daga og The Affluent Society þeirra langþekktastar.

Galbraith er maður hávaxinn, hann er 206 cm á hæð, og er mikill fjölskyldumaður. Árið 1937 giftist hann Catherine Atwater og eiga þau þrjá syni. Hann hefur verið skipaður heiðursprófessor í um 45 háskólum víða um heim, meðal þeirra Moskvu-háskóla. Það er til marks um hve virtur hann er að hann var á sínum tíma skipaður heiðursfélagi í sovésku vísindaakademíunni.

 


Áhuginn að aukast?

Svíar hafa lengi verið í fremstu röð í handbolta og eru ásamt Rúmenum sú þjóð sem oftast hefur orðið heimsmeistari en ekki er ég samt alveg viss um að ég sé tilbúinn að skrifa upp á þá greiningu blaðamanns Mogga að áhugi Svía á HM í handbolta hafi aukist með sigri sænska landsliðsins á Pólverjum. Ég held reyndar að áhuginn hafi heldur ekkert dvínað þegar Svíarnir lágu fyrir Argentínu.

Staðreyndin er nefnilega sú að handboltaáhugi er sorglega lítill hér í Svíaríki. Ég ætla ekki að ganga svo langt að kalla handboltann jaðaríþrótt í Svíþjóð en það er alveg ljóst að í baráttunni um hylli hins almenna Svía hefur handbolti þurft að láta í minni pokann fyrir íshokkí, innibandý, bandý og hinum og þessum vetraríþróttum. Þetta er ekkert nýtt fyrirbæri, þegar Svíar voru sem sigursælastir undir lok síðustu aldar og í upphafi þessarar var áhuginn ekkert meiri. 

Ef til vill er of djúpt í árinni tekið að fullyrða að almenningur viti ekki af HM enda hafa TV4 og kvöldblöðin, Aftonbladet og Expressen, verið afar dugleg við að reyna að vekja athygli af mótinu. Flestir hafa þó nokkurn minnsta áhuga á HM í handbolta og það mun ekkert breytast, ekki einu sinni þótt Svíar kæmust í úrslit.


mbl.is Vín, konur og koníak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild úlfaveiði á fölskum forsendum

Um liðna mátti víða sjá fjölda manns flykkjast gráa fyrir járnum út í sænsku skógana og mátti allt eins ætla að stríð væri að hefjast. Svo var þó ekki heldur voru hér á ferðinni veiðimenn í leit að úlfum. Um helgina hófst nefnilega úlfaveiðitímabilið en þetta er annað árið í röð sem sænskir veiðimenn fá að skjóta úlfa eftir að slík veiði hefur verið bönnuð um töluvert skeið þar sem úlfastofninn var kominn í útrýmingarhættu í Svíþjóð.

Þeir eru reyndar ekki fáir Svíarnir sem ekki myndu gráta það þótt úlfurinn hyrfi alveg og eins og nærri má geta eru veiðimenn (með sjálfan kónginn í broddi fylkingar) og bændur sennilega þar í töluverðum meirihluta. Veiðimennirnir þar sem þeir eiga í samkeppni við úlfa um bráðina (auk þess sem þeir vilja einfaldlega veiða meira) og bændurnir sem margir hafa misst gripi til úlfanna. Að sama skapi eru þeir til sem finna úlfaveiðinni allt til foráttu og mótmæla henni harkalega.

Persónulega er ég einhvers staðar mitt á milli, ég missi ekki svefn á nóttunni yfir örlögum þessara úlfagreyum sem verið er að skjóta en mér finnst þessi veiði þó algjör óþarfi og eftirfarandi ergir mig og er til þess að ég hallast frekar í átt að því að vera mótfallinn veiðunum.

Yfirskin úlfaveiðinnar hefur öðrum þræði verið að nauðsynlegt sé að grisja stofninn þar sem innræktun sé til staðar. Því þurfi að fella um 10% stofnsins árlega til þess að koma í veg fyrir að innræktunin aukist hlutfallslega. Gott og vel, en hvernig í ósköpunum eiga veiðimennirnar þá að sjá að úlfarnir sem þeir hyggist fella séu með erfðagalla? Eiga þeir eingöngu að fella dýr með fimm lappir, þrjú augu og tvær rófur? Það segir sig sjálft að erfitt er að greina hvort dýr sem þú sérð í fjarska þjáist af einhverjum erfðagöllum (ef erfðagallarnir valda á annað borð einhverjum þjáningum) enda kom það á daginn þegar þeir 27 úlfar sem felldir voru í fyrra voru krufnir að ekki einn einasti þeirra var haldinn erfðagalla.

Það segir okkur að sé réttlæting veiðanna á rökum reist hefur hlutfall innræktaðra dýra aukist enn meira og þá má með sanni segja að rifillinn hafi sprungið í höndum þeirra stjórnmálamanna sem ákváðu að heimila veiðina og mætti ætla að þeir myndu endurskoða ákvörðun sína.

Það hefur þó síður en svo gerst og eins og áður segir tel ég þó aðallega að hér sé um yfirskin að ræða. Hlutina á að kalla sínum réttu nöfnum. Úlfaveiðin hefur ekki með innræktun að gera heldur hefur öflugur og áhrifamikill þrýstihópur veiðimanna hefur fengið sínu framgengt en stjórnvöld þora ekki að viðurkenna það.

Roluháttar þeirra vegna þurfum við hin að horfa upp á sæmilega ógeðfelldar myndir af skotnum úlfum í fjölmiðlum.

 


Kærasta í hverri höfn

Þegar ég var á leið heim úr fótbolta í kvöld var ég með útvarpið í bílnum stillt á P4, eina af stöðvum sænska ríkisútvarpsins. Þá var á dagskrá þáttur er nefnist Karlavagnen, eða Karlsvagninn eins og stjörnumerkið heitir á íslensku, en sá þáttur er á dagskrá á hverju kvöldi og þar getur fólk hringt inn og rætt hin og þessi mál. Stundum má ræða hvað sem er en yfirleitt eru þemu og í kvöld átti það við. Efni kvöldins var tvöfalt líf og þegar ég sat í bílnum barst þættinum eitt ótrúlegasta samtal sem ég hef nokkurn tíma heyrt í Karlavagnen og þó hef ég hlustað á nokkra þætti í gegnum tíðina.

Sá sem hringdi var maður á miðjum aldri, kannski tæplega sextugur. Hann sagðist hafa starfað sem flutningabílstjóri síðan 1973 og þá yfirleitt utan Svíþjóðar. Síðustu ár hefur hann starfað í Eystrasaltslöndunum. Hann siglir þangað síðdegis á sunnudögum og vinnur mánudaga til miðvikudaga. Á fimmtudögum siglir hann svo heim og eyðir því sem eftir lifir vikunnar, þangað til hann siglir aftur yfir Eystrasaltið, með eiginkonunni. 

Fram að þessu var svo sem ekkert athugavert við frásögnina en síðan fór maðurinn að segja frá því hvað honum þætti notalegt að taka ferjuna yfir því það kæmi alloft fyrir að einhver bankaði upp á í káetunni og spyrði hvort hann langaði ekki að koma að skemmta sér. „Þá lendir maður oft í ævintýrum,“ bætti hann við.

Að þessu loknu fór söguhetjan okkar, sem í raun má kalla and-hetju, að segja frá því að hann á eina ástkonu í Tallinn, sem hann hittir á mánudögum, eina í Riga, sem hann hittir á þriðjudögum, og eina í Vilnius, sem hann hittir á miðvikudögum. Enginn þeirra veit af hver annarri og hann er vanur að senda þeim sms þar sem hann tilkynnir að hann sé væntanlegur. Þá hringja þær venjulega og spyrja hvort hann vilji vera heima eða fara út að borða og dansa. Vinurinn vill gjarnan fara út að dansa því þá finna skvísurnar að hann er enn til í tuskið, enn með blek í pennanum ef svo má að orði komast. Síðan lýsti hann því ansi ítarlega hvernig hann vill að hjákonurnar séu klæddar þegar þau fara út að borða.

Þegar hér var komið við sögu ákvað þáttastjórnandinn, sem greinilega var í hálfgerðu sjokki og hafði ekki getað stunið upp orði á meðan vinurinn lýsti tvöfeldni sinni, að grípa fram í fyrir honum og spurði hvort konan hans vissi af þessum hjákonum. „Nei,“ sagði hetjan okkar og gaf í skyn að þetta kæmi henni bara ekkert við. Hún væri ánægð á meðan hún fengi heimilistæki sem hana vantaði og vetrardekk á bílinn auk alls annars sem hún pantaði. Ekki mátti heldur gleyma því að hún fengi nú að hafa hann þá daga sem hann væri ekki að vinna; „hún hefur því varla yfir neinu að kvarta,“ gaf hann í skyn.

„Hvað fyndist þér ef konan þín væri jafn tvöföld í roðinu og þú,“ spurði þáttastjórnandinn nú og var hún greinilega búin að ná sér af mesta áfallinu. Svarið var hápunktur þessa stórkostlega samtals. „Á nú að fara að dæma mann?“ spurði vinurinn á móti og þegar þáttastjórnandinn svaraði: „Nei, ég vil bara vita hvað þér myndi finnast ef konan þín lifði lífinu á svipaðan hátt og þú,“ brást vinurinn hinn versti við. „Ég hringdi ekki til að tala um það. Þetta er greinilega þín leið til þess að ljúka samtalinu,“ og lagði á.

Eins og ég segi hef ég aldrei heyrt annað eins samtal í þessum þáttum og ég vona svo sannarlega að menn með svo sveigjanlegt siðgæði sé ekki að finna á hverju strái. Ég er þó nægilega raunsær til að gera mér grein fyrir því að þessi maður er ekki sá eini í heiminum sem er með kærustu í hverri höfn.


Á barmi gjaldþrots en auglýsa samt gríðarlega

Hér í Svíaríki tíðkast það að hin og þessi fyrirtæki kosti sýningar sjónvarpsstöðva á efni, og það á síður en svo eingöngu við um beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum; það er varla til svo aum sápuópera eða gamanþáttaröð að hver þáttur sé ekki kostaður af að minnsta kosti einu fyrirtæki.

Meðal þeirra fyrirtækja sem eru hvað mest áberandi í kostun sjónvarpsefnis eru Eniro og 118 100 Online AB en bæði reka þau símaskrá á netinu, svipað og ja.is, auk þess sem hægt er að fá upplýsingar með því að að hringja eða senda sms. Ennfremur er hægt að senda hinar og þessar spurningar með sms-i og starfsfólk fyrirtækjanna slær spurninguna inn á Google og sendir svarið um hæl. Þannig er kjörorð 118 100 „Svar við öllu“ og segja má að Eniro sé systurfyrirtæki Já, fyrirtækið var áður dótturfélag Telia sem áður var í eigu ríkisins og líkt og Já gefur Eniro út símaskrána. 

Ég hef lengi velt því fyrir mér hversu margir nýta sér svona þjónustu, eflaust eru það töluvert margir því næga fjármuni virðast fyrirtækin hafa til þess að kosta sjóvarpsefni. Auglýsingar í formi kostunar eru eflaust eitthvað ódýrari en venjulegar sjónvarpsauglýsingar (sem fyrirtækin kaupa reyndar líka) en þetta eru engu að síður alldýrar auglýsingar. Til þess að fjármagna auglýsingarnar er því ljóst að velta fyrirtækjanna þarf að vera töluverð og sem bendir til þess að ansi margir nýti sér þjónustuna.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki ódýr þjónusta sem fyrirtækin bjóða upp á og sömuleiðis að þau gera töluvert út á unglinga sem senda hinar og þessar heimskulegar spurningar bara til þess að reyna að hanka fyrirtækin á röngum svörum. Ég veit hins vegar líka að Eniro rambar á barmi gjaldþrots, það er ekki langt síðan fyrirtækið þurfti að fara í mjög stórt hlutafjárútboð einfaldlega til þess að ná sér í nýtt rekstrarfé. Þá hefur forstjóra fyrirtækisins verið vikið úr starfi og allt er í steik eins og það heitir á kjarnyrtri íslensku.

Spurning hvort fjármunum fyrirtækisins, og um leið hluthafa, sé ekki betur varið í eitthvað annað en kostun misgóðra bandarískra sjónvarpsþátta. Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig 118 100 stendur en ég á bágt með að ímynda mér að myljandi gróði sé af starfseminni, miðað við hvað fyrirtækið hlýtur að eyða í kostun.

 


Ódrengileg framkoma á körfuboltavellinum

Eins og mörgum ætti að vera kunnugt er ég mikill áhugamaður um íþróttir og fátt er það sem fer meira í taugarnar á mér en að horfa á ódrengilega leikinn íþróttaleik. Það þurfti ég að gera í kvöld þegar við feðgarnir fórum á þriðja körfuboltaleik okkar á tímabilinu. Einn leiðinlegur ljóður á ráði hins annars ágæta körfuboltaliðs Uppsalaborgar er sú staðreynd að þegar liðið leikur gegn liðum sem á pappírnum eru sterkari, virðist það alltaf telja einu leiðina til sigurs vera að leika af aukinni hörku. Þannig reyna menn að hleypa leiknum upp í slagsmál til þess að koma andstæðingunum úr jafnvægi.

Þetta var sérstaklega áberandi í fyrra þegar Uppsala lék við Jakob Sigurðarson og félaga í Sundsvall í fyrstu umferð úrslitakeppni sænsku deildarinnar (í báðum heimaleikjum sínum beitti Uppsala þessari aðferð með góðum árangri) og þetta þótti mér einnig áberandi í leik kvöldsins þar sem Uppsala, sem fyrir leikinn var í fimmta sæti, mætti Södertälje, sem var í öðru sæti. Uppsala lék af mikilli festu og tókst að koma andstæðingunum úr jafnvægi svo um munaði. Þannig fengu leikmenn Södertälje, sem voru orðnir áberandi pirraðir, á sig tvær ásetningsvillur og nokkur tæknivíti. Einn leikmaður fékk tvö tæknivíti og var þar með sendur í sturtu sem og þjálfari liðsins og amk tveir þurftu að setjast á bekkinn með fimm villur þegar töluvert var eftir af leiknum.

Þá fékk bandarískur burðarás Södertälje-liðsins þungt högg á rifbein þannig að hann var studdur út af og skv. frétt staðarblaðsins var hann sendur á spítala í sjúkrabíl eftir að hafa liðið út af í búningsklefanum. Enn er ónefndur þáttur vallarkynnisins, sem yfirleitt er reyndar alveg óþolandi, en hann hæddist að leikmönnum Södertälje þegar dómararnir tíndu þá einn af öðrum af vellinum og bauð þeim t.d. gleðileg jól.

Vel studdir af áhorfendum sem, ef marka má viðbrögðin bæði í fyrra og í kvöld, kunna að meta þessa leikaðferð gengu leikmenn Uppsala svo á lagið og gjörsigruðu það litla sem eftir var af liði Södertälje.

Í mínum bókum telst þetta ekki drengileg framkoma og þótt ég hafi almennt gaman af að horfa á leiki með körfuboltaliðinu hér í borg finnst mér þetta eins og áður segir frekar leiðinlegur ljóður á ráði liðs sem vel getur spilað góðan körfubolta og ætti ekki að þurfa að grípa til bragða af þessu tagi. Vissulega má benda á að lið sem láti slíkt koma sér úr jafnvægi eigi e.t.v. ekki erindi í keppni af þessu tagi en svipuð rök má líka nota um lið sem þarf að beita óþverrabrögðum til þess að vinna leiki.

Annars er mjög gaman að fylgjast með framgöngu íslensku körfuboltamannana hér í Svíþjóð. Ég hef séð tvo leiki með Sundsvall í sjónvarpi og þar bera þeir Jakob Sigurðarson og Hlynur Bæringsson liðið á herðum sér, sérstaklega hefur Hlynur slegið í gegn hér í landi og heyrist mér hann almennt vera talinn einn allra besti leikmaður deildarinnar. Þá hefur Helgi Magnússon spilað vel í þeim leikjum Uppsala sem ég hef séð, fyrir utan þann fyrsta þar sem allt liðið var ótrúlega dapurt, og Logi Gunnarsson virðist vera að gera góða hluti í Solna. Gaman að því.

Góðar stundir.


Rétturinn til að kjósa ... ekki

Í dag er kosið til stjórnlagaþings og þegar þessar línur eru ritaðar bendir flest til þess að kjörsókn hafi verið í dræmari kantinum, jafnvel afar dræm. Í aðdraganda kosninga, og jafnan þegar kjörsókn er dræm, fáum við að heyra álitsgjafa benda á hversu slæmt það sé þegar kjósendur nýta sér ekki þennan mikilvægasta rétt lýðræðisins, hornstein hins frjálsa samfélag. Stundum heyrir maður álitsgjafa, og að sjálfsögðu stjórnmálamenn, segja það vera lýðræðislega skyldu okkar kjósenda að kjósa og hafa þannig áhrif.

Vissulega er dræm kjörsókn óheppileg en í mínum huga er þó einn réttur mikilvægari í lýðræðissamfélagi en kosningarétturinn. Það er rétturinn til þess að kjósa ekki ef maður kærir sig ekki um það. Kosningarétturinn er einmitt það sem felst í orðanna hljóðan, réttur en ekki skylda. Rétturinn að kjósa felur einnig í sér réttinn til þess að kjósa ekki og um leið og hann verður að kvöð hættir hann að vera réttur og þá er frelsið ekki lengur mikið. Þess vegna er rétturinn til þess að kjósa ekki mun mikilvægari en rétturinn til þess að kjósa. Gleymum því ekki að það hefur gerst í heimi hér að fólk hafi verið skyldað til að mæta á kjörstað.

Með því að kjósa höfum við áhrif á það hvernig samfélaginu er stýrt og að sjálfsögðu fyrigerum við þeim áhrifum okkar með því að mæta ekki á kjörstað en það breytir því ekki að kosningarétturinn er réttur en ekki kvöð. Oft er bent á að forfeður okkar börðust fyrir almennum kosningarétti og að okkur beri að sýna þeirri baráttu virðingu. Vissulega börðust forfeður okkar fyrir þessum rétti og víða var það blóðug barátta en væri kosningaskylda ekki einmitt þvert á allt það sem forfeður okkar börðust fyrir?

Ég tel svo vera. Kosningarétturinn er réttur en ekki kvöð og hann má aldrei verða að kvöð.


Breyttir tímar fyrir skákáhugamenn

Óhætt er að segja að undanfarnar vikur hafi verið gósentíð fyrir okkur skákáhugamenn. Auk Ólympíumóts í Rússlandi hafa farið fram nokkur gríðarsterk skákmót; þ.á m. heimsbikarmót í Sevilla, ofurmót í Nanjing í Kína og svo minningarmótið um Tal í Moskvu sem lauk sl. sunnudag. Tvö síðastnefndu mótin eru orðin að árvissum viðburði (ég er ekki viss um heimsbikarmótið en Ólympíumótið fer fram annað hvert ár) og eru þau jafnan á meðal sterkustu móta hvers árs, ef ekki þau sterkustu.

Ég smitaðist aftur af skákbakteríunni í fyrrahaust eftir að hún hafði legið í dvala um margra ára skeið. Ég hafði að vísu teflt í deildakeppninni íslensku og tekið þátt í einstaka skákmótum og eitthvað gert af því að tefla hraðskák á netinu en skákáhuginn var með minnsta móti og ég hafði lítið fylgst með því sem var að gerast í skákheiminum síðan fyrir aldamót. Ekki veit ég hvað það var sem vakti skákbakteríuna af dvala sínum (ég held að maður læknist aldrei alveg af henni) en hitt veit ég að nú fylgist ég náið með öllum helstu skákviðburðum og þá kemur netið sér vel.

Þegar ég var yngri var ekki alltaf auðvelt að fylgjast með skákmótum úti í heimi. Mogginn og fleiri íslensk blöð birtu reyndar reglulega fréttir af skák og auðvitað var hægt að fylgjast með í erlendum skákblöðum sem rötuðu inn á heimilið eða upp í taflfélag en mikið fleiri voru möguleikarnir ekki. Mér er alltaf minnistætt einvígi þeirra Jóhanns Hjartarsonar og Viktors Kortsnoj í St. John 1988; þá var karl faðir minn ennþá með skákþætti í útvarpinu og þegar ljóst var að Jóhann átti möguleika á að vinna einvígið var ákveðið að pabbi skyldi vera til taks í útvarpinu og lesa upp leikina í beinni útsendingu og skýra skákina jafnóðum. Eftir að hafa verið í heimsókn hjá vini mínum sem bjó nánast í næsta húsi við Útvarpshúsið ákvað ég að rölta yfir í Útvarpshúsið þegar líða tók á kvöldið (ef mig misminnir ekki þá var þetta á laugardagskvöldi) og fylgjast með. Pabbi sat þarna við stjórnborðið, sem hann hafði fengið skyndikennslustund á, og spilaði lög á milli þess sem hann fékk símtöl frá Kanada um nýja leiki og miðlaði þeim áfram til hlustenda, með tilheyrandi útskýringum. Nú er öldin svo sannarlega önnur. 

Skákþættir í útvarpinu eru liðin tíð og hvað þá í sjónvarpinu, með þeirri undantekningu að sýnt er beint frá úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í atskák. Mogginn birtir skákþátt einu sinni í viku að ógleymdu skákkrílinu, eins og það er kallað innanhúss á Mogga, en að öðru leyti hefur skák ekki átt upp á pallborðið hjá íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár og miðað við það sem ég hef kynnst af erlendum fjölmiðlum á hið sama við þar. Nú orðið er það netið sem sér um fréttaflutning af skák og það er svo sannarlega breyting til batnaðar.

Hægt er að fylgjast með flestum skákmótum nánast í rauntíma og þar með talið horfa á skákir í beinni útsendingu, oftar en ekki með skýringum. Hægt er að nálgast gríðarstór skákasöfn á netinu, amk vikulega. Til er töluverður fjöldi vefsíðna sem tileinkaðar eru fréttaflutningi af skák. Það er meira að segja hægt að horfa á skákfréttaþætti á netinu. Þetta kemur kannski engum á óvart en ég verð að segja að mér þótti það svolítið merkilegt þegar ég byrjaði að fylgjast með á ný hversu vel skákmönnum hefur tekist að aðlaga sig netinu og færa sér það í nyt.

Hvað um það, eins og ég sagði í upphafi hafa undanfarnar vikur sannarlega verið gósentíð fyrir skákáhugamenn. Sérstaklega þótti mér gaman að fylgjast með norska skákundrinu Magnúsi Carlsen vinna yfirburðasigur á ofurmótinu í Nanjing. Mér þykir einkar gaman að fylgjast með þessum 19 ára pilti sem að mínu mati, og fjölmargra annarra er besti skákmaður heims í dag. Fram að mótinu í Nanjing hafði hann átt erfitt haust, honum gekk brösuglega í Ólympíumótinu og sömuleiðis í Sevilla, þannig að ég reikna með að honum hafi þótt sigurinn í Nanjing einkar sætur og jafnvel má færa rök fyrir því að hann sé meðal þeirra mikilvægustu á ferli þessa unga snillings.

Annar skemmtilegur skákmaður sem hefur verið að gera það gott að undanförnu er Bandaríkjamaðurinn Hikaru Nakamura. Sá er jafnan ofarlega á blaði þegar bestu hraðskákmenn heims eru taldir upp og oft sagður sá besti í þeirri grein. Hann hefur jafnt og örugglega verið að fikra sig upp stigalistann á undanförnum árum og er nú kominn í hóp 10 stigahæstu manna heims skv. liverating.org, vefsíðu sem heldur utan um tifandi stig þeirra skákmanna sem hafa meira en 2700 stig hverju sinni. Nakamura stóð sig mjög vel í minningarmótinu um Mikhail Tal, töframanninn frá Riga, sem lauk í Moskvu á sunnudag en þar lenti hann í 4.-5. sæti eftir að hafa ítrekað misst af vinningi í lokaskákinni, sem hefði tryggt honum jafnmarga vinninga og efstu mönnum.

Nú er þessi færsla orðin alltof löng og ég ætla því að setja punkt. Það geri ég með myndbandi sem ég fann á Youtube með skák þeirra Nakamura og Carlsen í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í hraðskák sem nú stendur yfir í Moskvu. Stórskemmtilegt myndband Cool

 

 


Laugardagskvöld með Freddie og félögum

Þeir sem þekkja mig vita sennilega flestir að ég er mikill aðdáandi bresku hljómsveitarinnar Queen og hef verið um all langt skeið. Ekki er ég svo sem einn um það enda hljóta þeir Freddie Mercury og félagar hans að vera á meðal vinsælustu hljómsveita sögunnar.

Nýlega benti Bobbi vinur minn mér á að hér í Uppsölum stóð til að þekktir sænskir tónlistarmenn flyttu helstu lög Queen og vorum við að velta fyrir okkur að sjá þá sýningu. EKki veit ég svo sem um hvaða tónlistarmenn var að ræða en minnugur þeirrar hörmungar sem flutningur íslenska „tónlistarlandsliðsins“á meistaraverki Bítlanna Sgt. Pepper árið 2008 var, ákvað ég að sleppa því að sjá þessa sýningu. Þess í stað sagði ég Bobba að ég skyldi einhvern daginn bjóða honum í mat og setja síðan DVD-diskinn með klassískum tónleikum Queen á Wembley 1986 í spilarann.

Disk þennan gáfu íslenskir vinir okkar fjölskyldunnar í Skövde mér í afmælisgjöf, ásamt Greatest Hits með Queen á DVD, árið 2004. Sannarlega góð gjöf sem ég held mikið upp á. Ég hef þó ekki horft á diskinn síðan áður en ég flutti aftur til Svíaríkis í ágúst 2008 þannig að það var svo sannarlega tími til kominn þegar við Bobbi létum verða af því að skella honum í tækið nú um helgina.

Sannast sagna var ég búinn að gleyma hvað tónleikar þessir eru frábær skemmtun og ljóst er að ég mun ekki láta jafn langan tíma líða uns ég set diskinn aftur í tækið. Árið 1986 var ég ellefu ára gamall og auk þess hafði ég ekki uppgötvað Queen alveg á þeim aldri, hafði að sjálfsögðu heyrt þau lög hljómsveitarinnar sem voru hvað mest spiluð á Rás 2 á þessum árum og hafði mjög gaman af en hafði lítið heyrt af eldri meistaraverkum. Eðli málsins samkvæmt fór ég því aldrei á Queen-tónleika en tel mig geta fullyrt að þeir sem voru á Wembley laugardaginn 12. júlí 1986 eiga aldrei eftir að gleyma þeirri upplifun. Mér er meira að segja sagt að tónleikarnir hafi verið sýndir í beinni útsendingu í sjónvarpi allra landsmanna og að þeir sem sáu þá útsendingu muni seint gleyma því.

Félagarnir í Queen voru allir tónlistarmenn í hæsta gæðaflokki en þeir höfðu einnig stórkostlega sviðsframkomu, sem m.a. sést glögglega á því að það er almenn skoðun þeirra sem börðu Live Aid-tónleikana á Wembley ári áður augum að þar hafi Queen borið af. Fremstur meðal jafningja þar var söngvarinn Freddie Mercury sem hafði einstakt lag á að ná til áheyrenda. Það kemur e.t.v. einna best fram í laginu Love of my life, sem ég hef heyrt Freddie segja í viðtali að honum hafi alltaf þótt skemmtilegast að flytja á tónleikum þar sem áhorfendur tóku jafnan svo vel undir. (Takið eftir að í þessu lagi missir Brian May þráðinn stundarkorn, nokkuð sem ekki mun hafa gerst oft hjá þessum frábæra gítarleikara.)

Laugardagskvöldið með þeim Freddie Mercury, Brian May, Roger Taylor og John Deacon var svo sannarlega góð skemmtun og við hæfi að njóta þess á laugardagskvöldi, við náðum reyndar ekki að klára tónleikana það kvöldið og þurftum því að horfa á síðustu lögin daginn eftir, í góðum félagsskap, right 'til the end.

 
Góðar stundir!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband