Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
2.10.2017 | 19:11
Warning: Economics - ný bók um hagfræði
Nýlega gaf ég út bókina Warning: Economics - on the shortcomings of modern economic theory. Bókina gaf ég út sjálfur og hún inniheldur vangaveltur mínar og innri rökræðu um ýmsa grundvallarþætti hagfræðinnar þar sem ég tel að víða sé pottur brotinn.
Tvö viðtöl hafa birst við mig um bókina í íslenskum miðlum, fyrst í ViðskiptaMogganum:
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2017/08/27/thad_tharf_ad_vara_sig_a_hagfraedinni/
Og svo í Kjarnanum:
https://kjarninn.is/skyring/2017-09-08-med-efann-ad-vopni/
Bókina má nálgast á Amazon:
https://www.amazon.co.uk/Warning-Economics-Shortcomings-Modern-Economic/dp/9163946025/
Ég hef einnig stofnað blogg, tileinkað efnahagsmálum, sem ber sama nafn og bókin: Warning: Economics. Þar mun ég fyrst og fremst blogga á ensku en einnig kannski eitthvað á íslensku og sænsku.
Slóðin á það blogg er eftirfarandi:
http://warningeconomics.blogspot.se/
19.7.2012 | 11:39
Pælt í atvinnuleysisbótum
Nú er enn á ný komin í gang sú furðulega umræða að atvinnuleysi á Íslandi sé jafnhátt og raun ber vitni, 4,8% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar fyrir júnímánuð, vegna þess að atvinnuleysisbætur séu of háar. Þar sem atvinnuleysisbætur eru ekki mikið lægri en lágmarkslaun þykir það letja fólk til þess að taka störfum þar sem lágmarkslaun eru í boði. Þar af leiðandi hljóta atvinnuleysisbætur að vera of háar. DV fjallaði um þetta í gær og er útgangspunkturinn sá að það borgi sig ekki að vinna í ljósi atvinnuleysisbótanna.
Þessi hugsunarháttur á uppruna sinn í þeirri stórundarlegu hugmynd klassískrar hagfræði (sem nýklassíkin hefur tekið upp á arma sína) að orsök atvinnuleysis sé leti. Fólk nenni ekki að vinna og atvinnuleysi stafi því einfaldlega af því að ekki sé eftirspurn eftir störfum. Þegar hinir atvinnulausu fá síðan styrki frá hinu opinbera, annað hvort í formi atvinnuleysisbóta eða sjúkradagpeninga, minnki hvatinn til þess að vinna enn frekar. Þegar þessir styrkir eru lækkaðir, eða einfaldlega fjarlægðir, verði fólk að fara að vinna og þá minnki atvinnuleysi. Arbetslinjen svokallaða sem hægri menn undir hugmyndafræðilegri forystu þeirra Fredrik Reinfeldt og Anders Borg unnu þingkosningar í Svíþjóð 2006 með byggir á þessari hugmynd og hið sama á eins og áður segir við umræðuna um of háar atvinnuleysisbætur á Íslandi.
Eflaust eru einhverjir puttalingar til sem ekki nenna að vinna og komast upp með það á kostnað allra hinna (e. free-riding) en ég held að flestir þeir sem einhvern tíma hafa þurft að ganga atvinnulausir í lengri eða skemmri tíma séu sammála mér um að það er ekki þægileg staða.
Þótt ég sé almennt þeirrar skoðunar að atvinnuleysi stafi frekar af skorti á framboði af störfum get ég að vissu leyti tekið undir þá röksemdafærslu að bilið á milli atvinnuleysisbóta og lágmarkslauna sé of lítið. Það skýrir þó engan veginn atvinnuleysið þó það hefði getað skýrt örfá brot úr prósentustigum.
Í fyrrahaust bárust af því tíðindi að um 400 störf væru skráð laus hjá Vinnumálastofnun. Vinnuveitendur báru sig illa yfir því að erfiðlega gengi að manna þessi störf sem kom mörgum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að tæplega 11.300 manns að meðaltali voru skráðir atvinnulausir í ágúst. Álitsgjafar voru þess fullvissir að þessa þversögn, við skulum kalla hana atvinnuleysisþversögnina, mætti rekja til þess að atvinnuleysisbætur væru of háar og því kysi fólk frekar að vera atvinnulaust en að taka störfin (höfum í huga að ekki er endilega víst að öll þessi 400 störf hafi verið lágmarkslaunastörf en látum það liggja á milli hluta). Töfralausnin til þess að manna störfin (og minnka atvinnuleysið) hlaut því að vera að lækka bæturnar. Kryfjum þá lausn aðeins nánar.
Atvinnuleysisbætur taka mið af lágmarksframfærslukostnaði og þeim er ætlað að veita atvinnulausum kost á að sjá sér farborða á meðan viðkomandi eru án starfs, gefa þeim kost á að afla sér nauðsynja þótt engar séu tekjurnar. Gefum okkur nú að bæturnar hefðu verið lækkaðar um til dæmis fjórðung til þess að hvetja atvinnulausa til þess að sækja um þau störf sem eru laus. Vissulega myndu 400 manns fá vinnu. 400 af 11.300, sem er hlutfall upp á 3,5%, myndu fá vinnu. Eftir standa 10.900 atvinnulausir sem skyndilega sitja uppi með fjórðungi lægri atvinnuleysisbætur og eiga fyrir vikið enn erfiðara með að láta enda ná saman. Á hið opinbera þá að hækka atvinnuleysisbæturnar aftur?
Hvað gerist síðan næst þegar vinnuafl skortir? Á þá að lækka atvinnuleysisbæturnar enn frekar og svo koll af kolli þangað til eftir standa nokkur þúsund atvinnulausir án bóta og möguleika á að setja mat á borðin? Varla. Bilið á milli atvinnuleysisbóta og lágmarkslauna er of lítið og það kann að letja einhverja frá því að taka lausum störfum sem gefa af sér lágmarkslaun en það stafar frekar af því að launin eru of lág en að bæturnar séu of háar. Lækkun bóta gæti því lækkað atvinnuleysið um þessi 3,5% sem myndi fela í sér að atvinnuleysi yrði 6,5% í stað 6,7% en ekki meira en svo.
Þeir eru eflaust til sem myndu reyna að hrekja þessa röksemdafærslu með því að benda á að kaupmáttur þeirra 400 sem fengu vinnu aukist sem síðan myndi koma af stað keðjuverkun. Eftirspurn í hagkerfinu myndi aukast sem næmi þessum aukna kaupmætti og þar af leiðandi þyrfti að ráða fleira fólk. Ég hef ekkert á móti eftirspurnarkeðjuverkun og jákvæðum hagrænum áhrifum hennar en ég er ansi hræddur um að þau rök falli um sjálf sig.
Ástæðan er einföld. Gefum okkur að þessir 400 fái allir lágmarkslaunastarf (annars ætti bilið litla á milli bóta og lágmarkslauna varla að vera vandamál). Ráðstöfunartekjur þeirra hækka um 16 þúsund krónur ef marka má frétt DV og ef bætur eru um 200 þúsund felur það í sér að tekjurnar hækka um 8% og samanlagður kaupmáttur eykst um 6,4 milljónir króna. Á móti kemur að 10.900 manns sitja eftir með 25% lægri ráðstöfunartekjur, eða 50 þúsund krónum minna á mánuði. Það þarf engan stærðfræðisnilling til þess að sjá í mjög fljótu bragði að samanlagður kaupmáttur hinna atvinnulausu mun minnka um talsvert mikið meira en þessar 6,4 milljónir króna. Nánar tiltekið minnkar hann um 272,5 milljónir króna þannig að samanlögð kaupmáttaráhrif þess að lækka atvinnuleysisbætur yrðu neikvæð um 266,1 milljón króna.
Þannig má færa rök fyrir því að það væri beinlínis skaðlegt fyrir hagkerfið að lækka atvinnuleysisbætur þar sem minni kaupmáttur mun skila sér í minni efnahagslegri virkni og fækkun starfa.
1.7.2012 | 18:19
Skilvirkir markaðir skila engum hagnaði
Fyrir rúmum tveimur árum skrifaði ég færslu hér á bloggið undir fyrirsögninni Spyrjum markaðinn þar sem umfjöllunarefnið var tilgátan um skilvirka markaði (e. efficient market hypothesis) sem ég kalla stundum bábiljuna um skilvirka markaði (e. efficient market fallacy). Eins og auðlesið er út úr áðurnefndri bloggfærslu og uppnefni mínu á henni er ég lítt hrifinn af þessari kenningu og tel hana rugl hið mesta.
Hugmyndin um skilvirka markaði hefur lengi verið mér hugleikin og ég hef velt henni mikið fyrir mér, m.a. vegna stórs verkefnis sem ég er að vinna að en einnig vegna þess að ég tel þess kenningu eiga stóran þátt í því mikla efnahagshruni sem átt hefur sér stað í heiminum og valdið dýpstu efnahagslægð frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Enn er ekki útséð með hvort lægðin sú verði að heimskreppu en við vonum það besta. Hvað um það, ég hef sem sé velt tilgátunni um skilvirka markaði mikið fyrir mér og hef fundið ýmis rök sem að mínu mati (og annarra sem ég hef rætt málið við) hrekja þessa tilgátu - að minnsta kosti í raunheimum.
Í einfölduðum heimi hagfræðilíkana er hægt að láta flest ef ekki allt standast ef þú gefur þér réttu forsendurnar, sem Eugene Fama gerir svo sannarlega í tilgátunni sinni en það þýðir ekki endilega að hið sama eigi við í raunveruleikanum. Eins og einhverjum þeirra sem villast hingað inn er kannski kunnugt er legg ég mikið upp úr því að hagfræði sé gagnleg í raunheimum en ekki einungis í einhverjum einfölduðum heimi sem við getum beygt og teygt til þess að láta niðurstöðurnar hæfa hinni upphaflegu tilgátu. Oft er það meira að segja þannig að forsendurnar stangast á við hver aðra en þótt undarlega hljómi virðist það ekki alltaf draga úr gildi kenningana. Gott dæmi um það er tilgátan um skilvirka markaði en ég ætla þó ekki nánar út í þá sálma núna. Hér ætla ég þess í stað að reifa tvær þeirra röksemdafærslna sem ég tel hrekja tilgátuna, tvær nýjustu afurðir vangaveltna minna um kenninguna góðu (eða slæmu ef út í það er farið).
Sú fyrri er sú að ef markaðir væru skilvirkir á þann veg að enginn einn markaðsaðili geti slegið markaðnum við, þ.e. grætt meira en aðrir markaðsaðilar (sem er megininntakið í kenningu Fama) þá felur það í sér að enginn aðili græði. Græði einn þá hrekur það tilgátuna um skilvirka markaði. Þetta er í raun afar einfalt en þarfnast þó kannski smávegis útskýringar.
Fjármálamarkaðir eru það sem kallast núllsummuleikir. Tökum sem dæmi hlutabréfamarkaði. Fjöldi hlutabréfa er á hverjum tíma endanlegur og öll eru þau alltaf í eigu einhvers. Það felur í sér að ef einn aðili græðir á viðskiptum þá hlýtur einhver annar að tapa á þeim. Einfaldað dæmi: Gefum okkur að fjárfestir A kaupi hlutabréf af fjárfesti B og selji þau svo beint með þúsund króna hagnaði til fjárfestis C. Þá er fjárfestir B um leið búinn að tapa þúsundkallinum sem hann hefði getað grætt með því að selja bréfin beint til fjárfestis C. Þúsundkallinn sem A græddi er sem sé þúsundkallinn sem B tapaði. Summan er núll.
Tvinnum þetta síðan saman við þá undirliggjandi vísbendingu sem felst í tilgátunni um skilvirka markaði, þ.e. að allir græði nákvæmlega jafnmikið - öðruvísi fæst það einfaldlega ekki staðist að enginn geti slegið markaðnum við. Þegar þessir tveir þættir koma saman er það alveg ljóst að á skilvirkum markaði getur enginn grætt. Núllsummuleikur felur annað hvort í sér að (1) báðir aðilar græði hvorki né tapi, sem stenst undirliggjandi vísbendingu tilgátunnar eða að (2) annar aðilinn tapi því sem hinn græðir en þá er ljóst að báðir græða ekki jafnmikið sem stangast á við undirliggjandi vísbendingu tilgátunnar um skilvirka markaði.
Þar af leiðir að standist tilgátan getur enginn grætt og aukinheldur er það svo að ef báðir, eða allir, aðilar að viðskiptum myndu græða þá bryti það í bága við helstu grundvallarreglu hagfræðinnar. Það fæli í sér ókeypis hádegisverð og hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.
Víkjum nú að síðari röksemdafærslunni. Hún byggir á því að gengi hlutabréfa og annarra eignaflokka breyttist oft á dag, jafnvel oft á mínútu. Markaðir eru dýnamískir eða sítifandi og þessar sveiflur eiga sér iðulega stað án þess að nokkrar verðmyndandi upplýsingar berist. Meginniðurstaða tilgátunnar um skilvirka markaði er sú að á skilvirkum mörkuðum mótist einungis af þeim upplýsingum sem eru til staðar. Auk þess er gert ráð fyrir fullkomnu flæði upplýsinga sem felur í sér að allir, ég endurtek allir, aðilar markaðarins hafi aðgengi að sömu upplýsingum á nákvæmlega sama tíma. Það má ekki einu sinni muna nanósekúndum, sem er nokkuð sem er athyglisvert í ljósi umfjöllunar um ofurtölvurnar á Wall Street að undanförnu.
Þetta þýðir sem sé að allir aðilar fái nýjar upplýsingar umsvifalaust og að áhrifa þeirra gæti jafnóðum í verði eignarinnar. Um leið og upplýsingarnar berast breytist verðið í samræmi við innihald þeirra á skilvirkum markaði en að sama skapi ætti verðið þá ekki að breytast þegar engar nýjar upplýsingar berast. Ef engar upplýsingar berast í mánuð ætti verðið að vera óbreytt í þennan mánuð. Samkvæmt þessu er markaðurinn statískur og bærist ekki nema ný tíðindi berist honum. Eins og áður segir er raunin þó allt önnur og markaðurinn sveiflast stöðugt, jafnvel þegar engar fréttir berast. Hann er einfaldlega dýnamískur og það stangast harkalega á við hið statíska eðli skilvirkra markaða.
Tilgátan um skilvirka markaði er ein áhrifamesta hagfræðikenning síðustu áratuga og Eugene Fama er árlega álitinn líklegur til þess að vinna Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Kenningin hefur haft mikil áhrif á efnahagspólitík undanfarinna áratuga í hinum vestræna heimi en vandinn er bara sá að hún byggir á óraunsæum forsendum og þar af leiðandi er lítið gagn af henni í raunveruleikanum.
12.1.2012 | 21:53
Innibandý í fyrsta skipti
Í kvöld fórum við feðgarnir á innibandýleik í fyrsta skipti. Flest íslensk skólabörn fá einhvern tíma að spreyta sig á þessari göfugu íþrótt í leikfimi í skólanum en fyrir utan það snerta fæstir Íslendingar innibandýkylfu. Þetta þykir svo sem ágætis tilbreyting í leikfiminni en í flestra huga er þetta þó aldrei annað en tilbreyting og fæsta Íslendinga dreymir sennilega um að stunda innibandý af einhverri alvöru, hvað þá að gera það að æfistarfi sínu.
Hér í Svíaríki er sannarlega annað upp á teningnum. Innibandý, sem varð til hér í landi á 8. áratug síðustu aldar, er að verða stærsta vetraríþróttin hér í landi hvað varðar fjölda iðkenda, og Svíar taka sitt innibandý mjög alvarlega. Hér er m.a.s. atvinnumannadeild í þessari íþrótt sem víðast telst til jaðaríþrótta.
Í þessari atvinnumannadeild eru tvö lið frá Uppsölum, Storvreta sem er besta innibandýlið í Svíþjóð um þessar mundir og hefur orðið meistari tvö síðustu árin, og Sirius. Sirius, sem eftir því sem ég veit best er stærsta íþróttafélagið hér í borg með sæmilega frambærilegt fótboltalið, bandýlið í efstu deild og svo innibandýliðið, situr hins vegar á botni deildarinnar (athugið að bandý og innibandý eru tvær mismunandi íþróttir). Það var botnliðið Sirius sem við sáum spila í kvöld.
Andstæðingarnir voru AIK frá Solna en það félag er svolítið eins og KR á Íslandi, menn annað hvort halda með því eða hata það eins og pestina. AIK fylgir m.a. mjög harðskeytt lið stuðningsmanna sem kalla sig Black Army og valda usla og látum hvar sem þeir koma. Hingað til virðast þessar bullur þó ekki hafa sýnt innibandý áhuga enda er svo sem ekki miklu ofbeldi fyrir að fara í þeirri íþrótt, ólíkt fótbolta og umfram allt íshokkí.
Ekki get ég sagt að ég sé dómbær á hvort leikurinn hafi verið vel leikinn, ég hef séð nokkra leiki í flokki barna á aldrinum 7-14 ára, en burtséð frá því var þetta hin besta skemmtun. Sirius tapaði með þriggja marka mun, 3-6, en eftir því sem ég gat séð voru yfirburðir AIK ekki nægilegir til þess að réttlæta svo stóran sigur enda var markmaður gestanna valinn maður leiksins auk þess sem Sirius átti mun fleiri skot á mark. Það eru hins vegar mörkin sem telja og þar voru AIK mun beittari.
Leikurinn var eins og áður segir hin besta skemmtun en ég reikna nú samt frekar með að við feðgar munum halda áfram að fara á körfuboltaleiki í stað þess að stunda innibandýáhorf.
24.4.2011 | 22:43
Viðburðaríkt ár að baki
Í gær var merkilegur dagur. Þá var ég búinn að vera 35 ára gamall í 365 daga og af því má skilja að ég varð 36 ára í dag. Nýtt ár er framundan, vonandi fullt af nýjum tækifærum og verkefnum. Í þessari bloggfærslu vil ég þó horfa aðeins í baksýnisspegilinn því eftir á að hyggja held ég að 36. aldursár mitt, það sem lauk í gær, hafi verið eitt það viðburðaríkasta á ævi minni.
Á þessu ári eignaðist ég fjölda nýrra vina, og endurnýjaði auk þess vináttuna við gamla vini með aðstoð hins stórmerklega fyrirbæris Facebook. Sérstaklega er gaman að segja frá því að ég hef endurnýjað kynnin við mann sem fyrir 30 árum bjó í næstu blokk við mig í Álfheimunum. Við lékum okkur mikið saman og vorum góðir vinir. Síðan flutti hann í Mosfellssveit, eins og það hét þá, og ég heyrði aldrei meira frá honum. Ekki fyrr en í desember sl. þegar hann sendi mér póst á FB vegna handboltaleiks. Hann vissi þó ekki hver ég var og það var ekki fyrr en ég spurði hvort þetta væri minn gamli leikfélagi. Það stóð heima og þá kom á daginn að vinurinn býr hér skammt fyrir suðaustan Uppsali. Gaman að því og skemmtilegt hvernig Facebook getur fært fólk saman á ný.
Ég hef einnig ferðast mikið á árinu. Við nýttum okkur það í fyrrasumar að Svíþjóð tengist meginlandi Evrópu og ókum niður til Þýskalands ásamt foreldrum mínum. Þar leigðum við sumarbústað í Eifel-fjallgarðinum í námunda við ánna Mósel í eina viku en gáfum okkur nærri viku til að komast þangað og heimsóttum skemmtilegar borgir á leiðinni. Sömuleiðis ókum við um Móseldalinn og standa heimóknirnar í Trier, sem ég hef reyndar komið til nokkrum sinnum áður en þó ekki síðan ég var barn, og Cochem þar upp úr. Sömuleiðis ókum við til Lúxemborgar, þar sem ég hitti Helga Mar kollega minn af Mogganum, og aðeins inn í Frakkland. Á leiðinni heim fórum við svo í gegnum Belgíu og Holland áður en við komum aftur inn í Þýskaland og gistum í þrjár nætur áður en haldið var yfir til Danmerkur og þaðan til Svíþjóðar. Ég fylgdist því að mestu með HM i fótbolta í Þýskalandi en var í Hollandi þegar Hollendingar slógu Brasilíumenn út úr keppninni og svo í Þýskalandi daginn eftir þegar Þjóðverjar slógu Argentínu út. Í þessari ferð heimsóttum við samtals sex lönd, þar af tvö sem ég hef aldrei komið til áður.
Í haust fór ég síðan aftur til Belgíu og sótti þar fund vegna ESB-verkefnis sem ég er að vinna að. Skömmu fyrir jól brugðum við okkur í helgarferð til Íslands, sem reyndar lengdist aðeins vegna veikinda og er það fyrsta Íslandsferð mín síðan ég flutti af landi brott í ágúst 2008. Í upphafi febrúar fórum við hjónin svo ásamt góðum vinum, þeim Bobba og Laugu sem hér búa í Uppsölum, til Búdapestar. Upphaflega stóð til að sonurinn kæmi með en honum tókst að ná sér í streptókokka-sýkingu og RS-vírus samtímis aðeins viku áður en lagt var í hann. Til allrar hamingju voru foreldrar mínir stödd í Kaupmannahöfn þegar þetta var þannig að mamma brá sér yfir og passaði ættarlaukinn fyrir okkur á meðan við hjónin slökuðum á í heimalandi gúllasins. Ég hef lengi verið að plana að skrifa um þessa Búdapestarferð, hef mikið um hana að segja, og vonast til að gera það á næstunni.
Í september tók ég mig svo til og tók þátt í fótboltamóti í fyrsta skipti síðan ég og nokkrir félagar tókum þátt í 4. deildinni í innanhúsknattspyrnu heima á Íslandi á öndverðum 10. áratugnum. Sú ferð reyndist þó ekki til fjár og satt að segja hafði mig ekki grunað að ég myndi nokkurn tíma æfa fótbolta aftur. Maður á samt aldrei að segja aldrei og í haust fór ég ásamt níu félögum í knattspyrnufélaginu 20 mínútum (þar af var einn frá Ghana og einn Svíi) til Lundar og tók þátt í Klakamótinu, knattspyrnumóti íslenskra karlmanna á Norðurlöndunum. Þetta reyndist hin skemmtilegasta ferð og ég hef sennilega ekki verið í betra líkamlegu ásigkomulagi í áratugi. Auðvitað er stefnt að þátttöku í Klakamótinu 2011 sem fram fer í Sönderborg í Danmörku í september og ég hef sett markið á að byggja mig enn betur upp fyrir það mót.
Ekki má svo gleyma því að bókin mín um hann Sjandra litla kom út á þessu ári sem liðið er síðan ég varð 35 ára og ég er búinn að skrifa handrit að annarri bók. Þá er ég kominn aftur í blaðamennskuna og alvöru hagfræði, en ekki bara fræðilega og hef alltaf jafn gaman að. Ég er líka með fleiri verkefni á prjónunum sem vonandi verða að veruleika og þá mun ég greina nánar frá þegar þar að kemur. Ennfremur hef ég í fyrsta skipti á ævinni staðið fyrir framan töflu og kennt í kennslustofu, alveg ný reynsla og mjög skemmtileg.
Viðburðaríkt ár, sem sagt, en ekki er þó allt jafn jákvætt. Kona móðurbróður míns, sem alltaf var mér mjög góð, kvaddi þetta jarðlíf eftir mjög löng og erfið veikindi. Ég gat því miður ekki kvatt hana og ekki fylgt henni til grafar og það þótti mér erfitt. Því miður var sambandið við hana stopult síðustu árin og er það ein af ástæðum þess að ég hef einsett mér að bæta samband mitt við frændur mína og frænkur með hjálp FB. Þá hef ég átt í stökustu vandræðum með nýrnasteina. Ég þurfti að taka mér tveggja vikna veikindaleyfi í lok nóvember og byrjun desember og hef farið þrisvar sinnum í nýrnasteinabrjótinn á árinu en án árangurs. Steinninn sem um ræðir er enn að valda mér vandræðum og eyðilagði hann m.a. fyrir mér heilt skáktímabil. Ég hafði sett mér metnaðarfullt markmið fyrir tímabilið og byrjaði mjög vel í haust, ég held ég geti fullyrt að ég hafi aldrei teflt betur en í skákmóti sem ég tók þátt í í lok september og var kominn hálfa leið að markmiðinu. Síðan fór steinninn að valda vandræðum og þegar ég sit við taflborðið fæ ég alltaf nístandi verk í nýrað sem gerir að ég get alls ekki einbeitt mér. Fyrir vikið hef ég tapað um 15 skákstigum miðað við sama tíma í fyrra en stefndi á að ná mér í 100 stig og fara yfir 2100.
Burtséð frá þessu hefur þetta þó verið hið fínasta ár og viðburðaríkt eins og áður segir. Nú er bara að vona að mér takist að ná markmiðum mínum fyrir næsta ár.
Að lokum, við fengum góða gesti í mat á afmælisdaginn. Þau komu færandi hendi með íslenskan lambahrygg sem ég matreiddi að hætti hússins og heppnaðist að ég held mjög vel. Ég hef fengið fjöldann allan af afmæliskveðjum á Facebook og annan hátt og í dag er búið að vera frábært veður. Rúmlega 20 stiga hiti og glampandi sól. Þetta er í stuttu máli sagt búinn að vera mjög góður afmælisdagur.
Kærar þakkir fyrir mig. Góðar stundir.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2011 | 20:32
Bonanza og Rawhide
Eins og flestir drengir af minni kynslóð, og sennilega fleiri kynslóðum, hafði ég í æsku einstaklega gaman af því að horfa á vestra. Ólíkt mörgum óx ég svo aldrei upp úr því og hef enn mikið dálæti á þessari tegund mynda. Verst er þó að afskaplega lítið er framleitt af vestrum nú orðið og gæðavestra sem framleiddir hafa verið undanfarna áratugi má telja á fingrum annarrar handar. Ég á reyndar enn eftir að sjá True Grit.
Ég man að sem sjö til átta ára gamall pjakkur og bjó í Álfheimunum fór ég oft heim til Ásgeirs vinar míns, hann var eini maðurinn sem ég þekkti þá sem átti vídeótæki, og við horfðum á vestra. Í sérstöku uppáhaldi var vestri með hörkutólinu krúnurakað Yul Brynner. Ekki man ég hvað myndin heitir en eitt atriði er mér þó alltaf minnisstætt, þegar hetjan sat ofan í gili og skaut einhvern óvina sinna í gegnum stígvélið sitt. Þegar við Ásgeir vorum ekki að horfa á vestra eða í fótbolta gerðist það ekki ósjaldan að við færum í kábojaleik, eins og það hét þá.
Villta vestrið hefur alltaf heillað mig, ég get samt ekki nákvæmlega sagt hvað það er sem er svo heillandi, og þegar ég var strákur voru þær ófáar ferðirnar á bókasafnið til þess að fá lánaðar bækur eftir Karl May eða um indíánan Arnarauga, sem ég átti reyndar eitthvað af bókum um líka. Oft fór ég sömuleiðis í fornbókabúðir niðri í miðbæ í leit að slíkum bókum.
Sérstakt dálæti hafði ég þó á Bonanza-bókunum, um þá bræður Adam, Hoss og Litla Jóa Cartwright á Ponderosa. Þær las ég mikið og ég man að ég öfundaði mikið fullorðna fólkið sem hafði séð Bonanza-þættina í Kanasjónvarpinu. Á þessum tíma var ekki hægt að kaupa heilu sjónvarpsþáttaraðirnar úti í búð en nú er öldin önnur og fyrir nokkrum vikum rakst ég einmitt á box með Bonanza-þáttum úti í búð.
Þetta var þó ekki eiginlegt box eins og oft má sjá heldur var í hulstrinu að finna tvo diska með samanlagt átta þáttum úr þessari frábæru þáttaröð. Eins og nærri má geta greip ég eitt eintak, og ekki skemmdi fyrir að herlegheitin kostuðu ekki nema 59 sænskar krónur. Konu minni til mikillar armæðu hef ég verið að horfa á þetta þegar komið er upp í rúm á kvöldin og skemmt mér vel, þótt yfirleitt takist mér nú að sofna áður en þættirnir eru á enda. Nú er ég búinn að horfa á þá alla og þá er bara að vona að fleiri þættir verði fáanlegir en af nógu er að taka enda var Bonanza sýnt í einhver 15 ár.
Bonanza eru reyndar ekki einu vestraþættirnir sem ég hef komist yfir á síðustu misserum, í sænskum stórmörkuðum má oft finna algjörar perlur á hlægilegu verði. Þannig eignaðist ég í haust alla þætti af Rawhide sem framleiddir voru.
Margir tengja nafnið Rawhide eflaust við frábæran flutning Blues Brothers á frábæru titillagi þáttana en þetta eru þættir sem ég mæli hiklaust með við alla vestraaðdáendur. Það var í þessum þáttum sem tiltölulega ungur Clint Eastwood sló í gegn en stjarna þáttanna er engu að síður Eric nokkur Fleming sem lék Gil Favor, foringja kúrekanna. Fleming þessi, sem ber höfuð og herðar yfir aðra leikara í þáttunum, lést allt of ungur í kanóslysi við upptökur á ævintýramynd í Perú, árið 1966. HLutverkið átti að verða hans síðasta en hann mun hafa hugsað sér að gerast kennari.
23.3.2011 | 22:09
Í góðum félagsskap
1. Ja, þessi Emil eftir Astrid Lindgren
2. Vísnabókin eftir ýmsa höfunda með myndum eftir Halldór Pétursson
3. Sjandri og úfurinn eftir Guðmund Sverri Þór
4. Víst kann Lotta að hjóla eftir Astrid Lindgren
5. Við lesum A - vinnubók eftir ýmsa höfunda
Svona leit metsölulisti barnabóka út á vefsíðu Eymundsson þegar ég leit þar inn í dag. Ég viðurkenni það fúslega að ég er svo hégómagjarn (í leit að betra orði) að ákvað að athuga hvort bókin mín væri komin inn á metsölulista aðeins viku eftir að hún kom út. Ég viðurkenni það líka að ég hef kíkt á gegnir.is og athugað hvort einhver hafi tekið bókina að láni á bókasöfnum.
Hégómi er reyndar kannski ekki ástæðan fyrir því að ég tékka á þessu enda reikna ég með að flestir rithöfundar fylgist með því hvernig fyrstu bókinni þeirra er tekið. Ég held að þetta sé fullkomlega eðlileg hegðun, mannlegt eðli. Ef ekki, þá er þetta bara hégómi ... mér alveg sama.
Hvað sem því líður þá er ég afar sáttur við að vera á þessum lista strax eftir eina viku. Félagsskapurinn er heldur ekki dónalegur, ég get alveg sagt það án þess að ýkja að á dauða mínum átti ég von frekar en að enda nokkurn tíma á bóksölulista með sjálfri Astrid Lindgren, hvað þá að bók eftir mig væri meira seld en bók eftir Astrid. Þó ekki væri nema einu sinni.
Nú má vel vera að bóksala sé með minnsta móti þessar vikurnar og að bókin mín hafi komist á listann einfaldlega vegna þess að nokkur bókasöfn keyptu hana en það verður þá bara að hafa það. Ég er alla vega sáttur við viðtökurnar sem bókin hefur fengið og það er mér hvatning til þess að skrifa aðra bók, sem ég er reyndar byrjaður á.
17.3.2011 | 18:11
Sjandri kominn út og í búðirnar
Í dag er stór dagur, að minnsta kosti í mínum heimi. Frumraun mín sem rithöfundur, Sjandri og úfurinn, kemur nefnilega út hjá Urði bókafélagi í dag og búið er að dreifa bókinni í bókabúðir.
Fyrir um hálfu ári síðan var ég búinn að gefa upp alla von um að finna teiknara til að myndskreyta þessa litlu barnabók sem ég skrifaði árið 2007. Haustið 2009 var ég meira að segja búinn að týna handritinu en sem betur fer átti fyrsti teiknarinn sem ég hafði rætt við það um myndskreytingar það enn í sínum fórum.
Þegar ég hafði fengið handritið hjá þeim góða dreng hafði ég upp á öðrum teiknara, sem ég þekki reyndar ekki neitt, en sá hafði aldrei tíma til þess að byrja verkið og í haust var ég orðinn úrkula vonar um að finna einhvern sem gæti myndskreytt bókina fyrir mig. Ég var í raun búinn að ákveða að láta handritið endanlega ofan í skúffu og setja þetta bara í reynslubankann, eins og það heitir, en það var svo í byrjun nóvember (nánar tiltekið 5. nóvember skv. pósthólfinu mínu) sem mér datt í hug að hafa samband við Andrés Andrésson, góðan vinnufélaga af Mogganum.
Honum leist vel á að myndskreyta bókina en ég ákvað að hrósa ekki happi fyrr en ég væri kominn með myndir og viti menn, á innan við mánuði var Andrés búinn að ljúka verkinu (hann sendi mér myndirnar 2. desember). Myndirnar eru frábærar, eins og Andrésar er von og vísa, og hann á ekki minni hlut í þessari bók en ég.
Nú eru um fjögur ár síðan ég lauk við að skrifa bókina og loksins er hún komin út. Vonandi veitir hún fleirum en mér og Andrési ánægju!
14.3.2011 | 23:39
Markaðurinn þarf hjálp
Endahnúturinn er dálkur á baksíðu Viðskiptablaðsins þar sem blaðamenn blaðsins fá tækifæri til þess að tjá skoðun sína á máta sem ekki er við hæfi í fréttaskrifum eða fréttaskýringum. Hinn 17. febrúar sl. skrifaði ég þennan dálk og hjó þar í sama knérunn og í pistli með er ég skrifaði í Viðskiptablaðið 3. febrúar, þ.e. ég fjalla um matvælaverð sem er mér mikið hjartans mál.
Markaðurinn þarf hjálp
Í fyrrakvöld birtist á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, frétt þess efnis að Alþjóðabankinn telji matvælaverð á heimsmarkaði vera orðið hættulega hátt og að vegna hækkandi matvælaverðs hafi 44 milljónir manna bæst í hóp þeirra sem lifa undir skilgreindum fátæktarmörkum. Fyrr sama dag birtist önnur frétt á vefnum þess efnis að verðbólga í Kína færi hækkandi og að öðru fremur væri hækkandi matvælaverði um að kenna. Þetta þyki mikið áhyggjuefni þar sem helmingur tekna fátækra fjölskyldna í Kína fari í matarkostnað.
Mér þykir það að sama skapi mikið áhyggjuefni að margir (erlendir) stjórnmálamenn bregðist við hugmyndum um að yfirvöld verði að grípa inn í til þess að tryggja að matarforði heimsins dreifist sem jafnast til allra með klisjum þess efnis að markaðurinn verði að leysa vandann sjálfur. Hversu margir eiga að svelta í hel á meðan markaðurinn er að finna lausnina og enn áleitnari spurning er: Hvernig á markaðurinn að bregðast við þessu?
Markaðurinn er ekki fljótari að búa til matinn en sem nemur þeim tíma er tekur að rækta hrávörurnar. Markaðslögmálið segir okkur enn fremur að sá sem borgar mest fær það sem keppst er um og það á jafn mikið við nú sem áður. Á meðan íbúar iðnríkjanna eiga flestir nóg að bíta og brenna, að margra mati jafnvel of mikið, gera íbúar þriðja heimsins uppreisnir á færibandi. Egyptaland, Túnis, Jemen, Jórdanía. Svo má lengi telja og ljóst er að hátt matvælaverð á töluverðan þátt í því að fólk gerir uppreisn. Það má lengi halda söddum manni sáttum en þegar fólk er farið að svengja rís það upp á afturlappirnar. Sá sem er tilbúinn að borga mest fyrir matinn fær hann og þeir sem nú þegar geta ekki keypt sér mat eru ekki líklegir til þess að geta borgað enn hærra verð fyrir hann.
Þetta merkilega fyrirbæri sem við köllum markað er yfirleitt góðra gjalda vert þegar kemur að því að skipta gæðum á milli en stundum þarf hann hjálp og þá megum við ekki gleyma okkur í hugmyndafræðilegu þrasi. Nú er slík stund runnin upp.
7.3.2011 | 17:56
Sjandri litli kominn í hús
Þegar ég kom heim í dag beið mín lítill pakki í póstkassanum. Ég get svo sem ekki sagt að það hafi komið mér á óvart enda átti ég von á honum og ég vissi hvað var í honum. Engu að síður var það mjög spennandi tilfinning að halda á pakkanum og þótt ég væri að verða of seinn í klippingu varð ég að rífa hann upp.
Í pakkanum voru nefnilega þrjú fyrstu eintökin af barnabókinni minni, Sjandri og úfurinn. Bókin fer í dreifingu eftir rúma viku en ég fékk sem sagt fyrstu eintökin send úr prentsmiðjunni í dag.
Það er svolítið merkileg tilfinning að halda á bók sem maður hefur skrifað sjálfur og ég geri ráð fyrir að það sé enn undarlegri tilfinning í fyrsta skipti. Þetta er manns eigið sköpunarverk og það er orðið að einhverju áþreifanlegu.
Nú er bara að vona að bókinni verði vel tekið.